Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 905/1999

27.1.1999

Búreikningar – virðisaukaskattsskylda vegna greiðslna og úrvinnslu.

27. janúar 1999
G-Ákv. 99-905

Vísað er til bréfs yðar dags. 22. maí 1997, fundar 15. október s.á., skriflegrar fyrirspurnar í kjölfarið dags. 17. nóvember 1997 og framhaldsbréfa dags. 24. mars sl., og 19. júní sl.

Í erindum þessum er óskað úrskurðar ríkisskattstjóra um tvö atriði varðandi starfsemi stofnunarinnar m.t.t. virðisaukaskatts. Annars vegar er leitað álits á því hvort greiðslur sem stofnunin innir af hendi fyrir aðgang að búreikningum séu virðisaukaskattsskyldar. Hins vegar er spurt hvort stofnunin skuli innheimta virðisaukaskatt af útseldri vinnu.

Hagþjónusta landbúnaðarins er ríkisstofnun er starfar skv. lögum um Hagþjónustu landbúnaðarins, nr. 63/1989. Kostnaður af starfi stofnunarinnar greiðist úr ríkissjóði og af sértekjum sem henni er heimilt að afla sér, m.a. með því að taka að sér að vinna sérstök verkefni fyrir stofnanir, félagasamtök og einstaklinga.

Eitt af lögbundnum verkefnum stofnunarinnar er að safna og vinna úr búreikningum frá bókhaldsstofum bænda svo og öðrum upplýsingum og gögnum sem nauðsynleg þykja og tiltæk eru. Gagnasöfnunin og úrvinnslan skulu miðast við að nýtast sem best til opinberrar hagskýrslugerðar um framleiðslu, rekstur og efnahag einstakra búgreina. Í 10. gr. laganna er kveðið á um að skylt sé að veita Hagþjónustu landbúnaðarins þær upplýsingar er hún óskar eftir og þarf á að halda vegna starfsemi sinnar. Nýtur hún í þessu sömu réttinda og Hagstofa Íslands. Þagnarskylda hvílir á starfsmönnum stofnunarinnar vegna meðferðar búreikninga og annarra upplýsinga frá bændum, sbr. 9. gr. laganna.

Í 7. gr. umræddra laga er kveðið á um að heimilt sé að greiða fyrir öflun sérstakra upplýsinga sem nauðsynlegar eru vegna verkefna stofnunarinnar og skulu greiðslurnar vera samkvæmt viðmiðunargjaldskrá sem landbúnaðarráðherra setur. Mun vera greitt fyrir öflun búreikninga á grundvelli þessa ákvæðis.

Í bréfi stofnunarinnar dags. 24. mars 1997 segir:

Stofnunin kallar eftir búreikningum í hefðbundnum landbúnaði frá búnaðarsamböndum og búnaðarsamtökum víðsvegar að af landinu, en við útgáfu á upplýsingum um afkomu svínabúa, loðdýrabúa, eggjabúa, kjúklingabúa, blómabúa, grænmetisbúa og kartöflubúa kallar stofnunin eftir skattframtölum frá skattstofum víðsvegar að af landinu.

Með tilvísan til framangreindra laga, er það hlutverk Hagþjónustu landbúnaðarins að sjá um ofangreinda vinnslu og býr stofnunin við þá skyldu að gæta upplýsingaleyndar í meðförum gagna.  Sökum upplýsingaleyndar og eðlis þeirra gagna sem unnið er með þá starfar stofnunin ekki í samkeppnisumhverfi og lýtur útseld þjónusta hennar að þeim gagnagrunni sem hún ein býr við. 

Af ofangreindum ástæðum er þess hér með farið á leit að embættið taki til úrskurðar málaleitan þess efnis, að stofnunin sé undanskilin innheimtu virðisaukaskatts af útseldri vinnu sinni.

Í ljósi framangreindra lagaákvæða og upplýsinga er það álit ríkisskattstjóra að greiðslur þær sem Hagþjónusta landbúnaðarins innir af hendi á grundvelli 7. gr. laga um stofnunina séu ekki endurgjald fyrir virðisaukaskattsskylda þjónustu. Jafnframt þykir ljóst að útseld vinna stofnunarinnar er ekki virðisaukaskattsskyld svo lengi sem hún byggir á úrvinnslu úr upplýsingum sem stofnunin og/eða aðrar opinberar stofnanir hafa einar aðgang að.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum