Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 884/1998

16.10.1998

Nám í kvikmyndagerð

16. október 1998
G-Ákv. 98-884

Vísað er til bréfs yðar, dags. 8. september sl., þar sem óskað er eftir áliti ríkisskattstjóra á því hvort starfsemi kvikmyndaskóla sé virðisaukaskattsskyld.

Í bréfi yðar kemur m.a. fram:

“Eins og stendur býður skólinn upp á 2ja mánaða námskeið í kvikmyndagerð, sem er í senn bókleg kennsla og verkleg þjálfun…………..

Námið veitir engin sérstök réttindi. Kvikmyndagerðarmenn eiga sér hagsmunafélög en enn sem komið er þetta starfsheiti ekki lögverndað og ekkert stéttarfélag til.

Stefnt er að því að bjóða upp á 1-2ja ára nám í kvikmyndagerð haustið  1999.

Ennfremur hyggjum við á samstarf við framhaldsskólana í landinu og sérskóla eins og M og Leiklistarskóla Íslands.”

Til svars erindinu skal tekið fram að skv. 3. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt er rekstur skóla og menntastofnana undanþegin virðisaukaskatti. Í greinargerð með frumvarpi til laganna kemur fram að með orðalaginu “rekstur skóla og menntastofnana” sé átt við alla venjulega skóla- og háskólakennslu, faglega menntun, endurmenntun og aðra kennslu- og menntastarfsemi sem hefur unnið sér fastan og almennan sess í skólakerfinu. Við mat þess hvenær um fagmenntun er að ræða leggur ríkisskattstjóri áherslu á að kennslan miði að því að auka eða viðhalda þekkingu eingöngu vegna atvinnu þátttakenda.

Þegar námskeið fellur ekki undir ofangreinda skilgreiningu heldur felst t.d. í tómstundafræðslu þátttakenda er starfsemin virðisaukaskattskyld.

Með hliðsjón af framangreindu er það álit ríkisskattstjóra  að það nám sem þeir gerið grein fyrir í bréfi yðar feli í sér faglega menntun í skilningi laga um virðisaukaskatt, sbr. 3. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Því skal ekki innheimta virðisaukaskatt af námskeiðsgjöldum. Undanþágan tekur ekki til virðisaukaskatts af aðföngum til hinnar undanþegnu starfsemi, sbr. 4. mgr. 2. gr. virðisaukaskattslaga.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum