Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 879/1998

16.9.1998

Sala einkaleyfa – arður sem endurgjald

16. september 1998
G-Ákv. 98-879/T-Ákv. 013

Vísað er til bréfs yðar, mótt. 4. júní 1998, þar sem óskað er eftir áliti ríkisskattstjóra hvort greiðslur arðs af einkaleyfum vegna sölu þeirra teljist launagreiðslur eða tekjur vegna sjálfstæðrar starfsemi.

Í bréfi yðar kemur fram að þér stundið rannsóknar og þróunarvinnu jafnhliða kennslu og að hluti þeirrar vinnu séu hagnýtar rannsóknir sem hafi leitt af sér einkaleyfishæfar niðurstöður. Einkaleyfin seljið þér síðan og er gagngjaldið arður af því. Jafnframt kemur fram að kostnaður vegna skráningar einkaleyfisins og annarrar umsýslu sé verulegur og því afar óhagstætt ef arðgreiðslur vegna sölu þeirra séu taldar launagreiðslur í skattalegu tilliti.

Með vísan til þess sem að framan greinir þykir ljóst að þér stundið sjálfstæða starfsemi á sviði hagnýtra rannsókna. Í þessu sambandi skal tekið fram að skattskylda samkvæmt lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, nær til hvers konar vöru og verðmæta, svo og vinnu og þjónustu, hverju nafni sem nefnist, nema hún sé undanþegin skv. 3. mgr. 2. gr. laganna. Framsal óefnislegra réttinda er meðal þeirra viðskipta sem skattskyld eru talin samkvæmt þessum meginreglum. Gildir það að áliti ríkisskattstjóra m.a. um sölu á rétti til að framleiða vöru samkvæmt einkaleyfi, hvort sem greiðsla er í formi greiðslu í eitt skipti fyrir öll eða viðvarandi greiðslna, t.d. í formi arðs.

Viðvarandi greiðslur skal telja til skattskyldrar veltu á því uppgjörstímabili þegar þær eru mótteknar. 

Bréf ríkisskattstjóra til yðar dags. 1. mars 1996 um að þóknanir fyrir uppfinningar þínar sem launagreiðslur gildir áfram enda er þar um að ræða þóknanir til yðar sem forstöðumanns fyrirtækis. 

Þegar sleppir vinnu yðar fyrir fyrirtæki það sem tilgreint er í bréfi ríkisskattstjóra dags. 1. mars 1996 telur ríkisskattstjóri eins og áður hefur komið fram að um tekjur af sjálfstæðri starfsemi sé að ræða. Um færslu kostnaðar á móti þeim tekjum fer eftir viðeigandi ákvæðum laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sjá sérstaklega 31. gr. í því sambandi.

Að lokum er athygli yðar vakin á skyldu til að tilkynna yður inn á launagreiðendaskrá og standa skil á staðgreiðslu og tryggingargjaldi af reiknuðum launum.

Beðist er velvirðingar á þeim töfum sem orðið hafa á að svara fyrirspurn yðar.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum