Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 870/1998

6.8.1998

Virðisaukaskattur - sala á fjarskiptaþjónustu til erlendra skipa

6. ágúst 1998
G-Ákv. 98-870

Vísað er til bréfs yðar, dags. 16. júlí sl., þar sem óskað er eftir áliti ríkisskattstjóra á því hvort heimilt sé að fella niður virðisaukaskatt af sölu á fjarskiptaþjónustu til erlendra skipa.

Fjarskiptaþjónusta er þess eðlis að erfitt er að skera úr um afhendingarstað með hefðbundnum hætti, enda má segja að afhending hefjist í einu landi og ljúki í öðru.  Þess vegna er eðlilegt að líta fremur til þess hvar starfsstöð seljanda er til ákvörðunar um afhendingarstað.  Þjónustan telst því vera nýtt á þeim stað sem hún er veitt.

Í ákvæði 10. töluliðar 1. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, er fjallað um sölu á vissri þjónustu til erlendra aðila sem er undanþegin virðisaukaskattsskyldri veltu. Annars vegar er um að ræða þjónustu til aðila sem hvorki hafa búsetu né starfsstöð hér á landi enda sé hún að öllu leyti nýtt erlendis og hins vegar sölu á þjónustu til erlendra aðila þó að hún sé ekki nýtt að öllu leyti erlendis ef kaupandi gæti, væri starfsemi hans skráningarskyld hér á landi, talið virðisaukaskatt vegna kaupanna til innskatts. Í ákvæðinu er síðan talin upp sú þjónusta sem fellur undir ákvæðið og er fjarskiptaþjónusta tilgreind í i.-lið.

Undir ákvæðið falla kaup erlendra útgerðarfyrirtækja á fjarskiptaþjónustu frá íslenskum aðilum enda væri starfsemi þeirra skráningarskyld hér á landi.  Til frekari skýringa skal tekið fram að slík kaup af hálfu erlends fólksflutningafyrirtækis falla ekki undir ákvæðið.

Við útgáfu reikninga til kaupanda skal tekið fram hvort virðisaukaskattur er innifalinn í heildarfjárhæðinni eða ekki sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskylda aðila.

Með hliðsjón af framansögðu er ljóst að sala á fjarskiptaþjónustu til erlendra skipa er undanþegin virðisaukaskattsskyldri veltu ef ofangreind skilyrði 10. tölul. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt eru uppfyllt.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum