Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 863/1998

30.7.1998

Endurgreiðsla til sveitarfélaga - sorpílát.

30. júní 1998
G-Ákv. 98-863

Vísað er til bréfs yðar, dags. 22. júní sl., þar sem varpað er fram eftirfarandi spurningum vegna áforma um þær breytingar á fyrirkomulagi sorphirðu að nota sorptunnur og gáma í stað sorppoka:

  1. Er endurgreiddur virðisaukaskattur af kaupum á sorpílátum (tunnum 240 ltr. og gámum 500, 660 ltr.) af sorphirðuaðila?
  2. Er endurgreiddur virðisaukaskattur af leigu á sorpílátum af þjónustuaðila sem er sorphirðuaðili?
  3. Kaupi bærinn tunnurnar af sorphirðuaðila á tímabilinu, þarf þá að greiða virðisaukaskatt af kaupverði þeirra á þeim tíma?

Svör ríkisskattstjóra:

  1. Virðisaukaskattur er endurgreiddur vegna “leigu eða kaupa á sorpgámum vegna staðbundinnar sorphirðu” skv. ákvæði 2. málsl. 1. tölul. 3. mgr. 42. gr. virðisaukaskattslaga. Ríkisskattstjóri telur að sorpílát sem geymd eða geymanleg eru í eða við íbúðarhús til að taka á móti heimilissorpi teljist ekki til sorpgáma í skilningi ákvæðisins.
  2. Samkvæmt 1. málsl. 1. tölul. 3. mgr. 42. gr. virðisaukaskattslaga skal endurgreiða virðisaukaskatt af “sorphreinsun, þ.e. söfnun, flutningi, urðun og eyðingu sorps og annars úrgangs, þar með talið brotamálma”. Endurgreiðsla skv. þessu ákvæði hefur verið talin ná til nauðsynlegra og eðlilegra aðfanga til sorphirðuþjónustu þegar þau eru liður í henni, s.s. sorppoka, sorptunna eða sorpbíla. Séu sömu aðföng keypt (t.d. sorppokar) eða leigð (t.d. sorptunnur- eða bílar) af öðrum aðila en sér um sorphirðuna fæst virðisaukaskattur af þeim ekki endurgreiddur.
  3. Við kaup á sorptunnum þarf bærinn að greiða virðisaukaskatt hvort sem þær eru keyptar nýjar af birgja eða keyptar notaðar af sorphirðuaðila einhvern tíma síðar. Sá virðisaukaskattur fæst ekki endurgreiddur sé um að ræða tunnur en af sorpgámum fæst virðisaukaskattur endurgreiddur, sbr. svar við 1. spurningu.

 Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum