Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 858/1998

15.6.1998

Innskattur – verbúðir

15. júní 1998
G-Ákv. 98-858

Vísað er til bréfs yðar, dags. 25. mars 1998, þar sem þér spyrjist fyrir um heimild útgerðaraðila til að telja til innskatts virðisaukaskatt af endurbótum og rekstri verbúða sem hann rekur.

Í bréfi yðar kemur fram að skattaðili hafi keypt húsnæði fyrir starfsmenn sína. Ástand hússins var þannig þegar það var keypt, að það þurfti að byggja það upp að innan, innrétta og skipta um þak. Útbúin voru 6-7 einstaklingsherbergi og hefur það síðan verið notað sem verbúð. Starfsmenn skattaðila hafa ekki greitt neina leigu – en greitt smáræði vegna rafmagns og hitakostnaðar.

Samkvæmt 2. tölul. 2. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt, er eigi heimilt að telja til innskatts virðisaukaskatt af aðföngum er varða öflun eða rekstur íbúðarhúsnæðis fyrir eiganda eða starfsmenn sbr. 2. tölul. 3. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Skiptir ekki máli í þessu sambandi þótt aðili noti húsnæðið einnig vegna atvinnu sinnar.

Af þeirri ástæðu er skattaðila hvorki heimilt að telja til innskatts virðisaukaskatt vegna endurbóta né rekstrar húsnæðisins.

Sé húsnæðið í tilviki sem þessu skráð sem íbúðarhúsnæði hjá fasteignamati þá skal minnt á rétt aðila til að sækja um endurgreiðslu á 60% þess virðisaukaskatts sem greiddur hefur verið vegna vinnuþáttarins við endurbætur, sbr. 2. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988, sbr. b. lið 1. gr. reglugerðar nr. 449/1990, um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði.

Beðist er velvirðingar á því, hversu lengi hefur dregist að svara fyrirspurn yðar.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum