Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 837/1998

2.2.1998

Virðisaukaskattur – afsláttar- og tryggðarkort.

2. febrúar 1998
G-Ákv. 98-837

Vísað er til bréfs yðar dags. 19. desember sl. varðandi virðisaukaskattsmeðferð í sambandi við viðskipti á grundvelli svokallaðra afsláttar- og tryggðarkorta. Í bréfinu eru tekin tvö dæmi um hvernig þessi viðskipti ganga fyrir sig. Hér er veitt svar varðandi fyrra dæmið sem er á þessa leið:

 “X. hefur samið við F sem er í eigu S. og gefur út F um að afhenda kortið án endurgjalds til allra korthafa sinna. F hefur með tilstyrk X. samið við verslunar- og þjónustufyrirtæki um að þau veiti afslætti, oftast 5% eða meira, til handhafa kortanna. Afslátturinn reiknast sjálfkrafa í mánaðarvinnslu hjá X., dregst frá greiðsluseðli korthafa og jafnframt frá uppgjöri til verslunar- og þjónustufyrirtækis. Við kaupin fékk korthafinn hins vegar kvittun eða reikning upp á fullt verð og getur notað það í bókhaldi sínu. Ætlast er til að verslunar- og þjónustufyrirtæki greiði virðisaukaskatt skv. sjóðvél eða sölureikningum, en hvernig á þá að bakfæra þann virðisaukaskatt af síðar reiknuðum afslætti sem aldrei verður annað en ímynduð sala?”

 Sá afsláttur sem hér um ræðir er svokallaður óskilyrtur afsláttur, þ.e. afsláttur sem ekki er háður öðrum skilyrðum en þeim sem uppfyllt eru við afhendingu.

 Í 5. tölul. 7. gr. virðisaukaskattslaga er gert ráð fyrir að slíkur afsláttur sé dreginn frá söluverði og komi þannig til lækkunar skattverðs þegar við afhendingu. Samkvæmt framansögðu er ekkert sem hindrar að sölureikningar eða sölukvittanir sem tekjuskráning aðila byggist á endurspegli afsláttarverðið þegar varan er greidd með kreditkorti. Eins og atvikum er lýst er hins vegar ljóst að þau fyrirtæki sem veita afsláttinn reikna hann ekki til frádráttar við afhendingu.

 Í 3. tölul. 5. mgr. 13. gr. virðisaukaskattslaga er heimild til að draga afslátt frá skattskyldri veltu, m.a. með útgáfu kreditreiknings hafi skilyrði til veitingu hans ekki verið fyrir hendi við afhendingu og því á umrædd heimild ekki við um þessi viðskipti.

Sem fyrr segir telur ríkisskattstjóri öll skilyrði hafa verið fyrir hendi við afhendingu vörunnar til að gefa út reikninga eða sölukvittanir þar sem tillit hafi verið tekið til afsláttarins skv. heimild í 5. tölul. 7. gr. virðisaukaskattslaga. Hafi það ekki verið gert verður seljandi að skila útskatti af heildarverði skv. útgefnum reikningum og kvittunum enda ekki heimilt að nýta frádráttarheimild í 13. gr. laganna skv. framansögðu.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum