Bindandi álit

Bindandi álit nr. 01/15

23.2.2015

Útgáfa B-hlutabréfa - Arður - Verðmat -  Tekjufærsla

Málsatvik:

Í álitsbeiðni kemur fram að álitsbeiðandi sé fjármálafyrirtæki sem starfi samkvæmt lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.  Hlutafé hans sé nú X kr. og að það sé allt í einum hlutaflokki.  Ráðist álitsbeiðandi í þá aðgerð sem lýst er hér á eftir verði hlutaflokkarnir aftur á móti tveir.  Annars vegar A-flokkur sem hefur öll þau réttindi sem almennt fylgja hlutareign í félagi.  Undir þann flokk myndi allt núverandi hlutafé álitsbeiðanda falla.  Hins vegar B-flokkur sem veitti eingöngu rétt til tiltekinna arðgreiðslna, eða sem nemur allt að 37,5% árlegs hagnaðar álitsbeiðanda eftir greidda skatta.  Hlutirnir væru áfram framseljanlegir en háðir innlausn álitsbeiðanda á nafnverði samkvæmt ákvörðun stjórnar á hverjum tíma eða við slit félagsins.  Álitsbeiðandi ráðgerir að í upphafi verði tíu milljón hluta gefnir út í B-flokki og seldir núverandi og nýjum hluthöfum, þ.m.t. starfsmönnum hans á nafnverði, í samræmi við ákvörðun hluthafafundar um hækkun í hinum nýja flokki.

Álitsbeiðandi tiltekur að samhliða útgáfu á tíu milljónum hluta í B-flokki sé ráðgert að stjórn álitsbeiðanda verði gert heimilt með ákvæðum í samþykktum álitsbeiðanda að hækka hlutafé í B-flokki um allt að tíu milljónir hluta til viðbótar með útgáfu nýrra B-hluta.  Núverandi hluthafar myndu falla frá forgangsrétti sínum til áskriftar að nýju hlutum í samræmi við 34. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög.  Þá yrði stjórn álitsbeiðanda falið að ákveða hverjum skuli veittur réttur til áskriftar að hinum nýju B-hlutum og myndi slík heimild gilda í fimm ár.

Álitsbeiðandi telur að í framangreindu felist að hluthafar í B-flokki njóti ekki t.a.m. réttar til að greiða atkvæði á hluthafafundum í álitsbeiðanda, réttar til áskriftar að nýjum hlutum, forkaupsréttar, réttar til arðgreiðslna sem til kæmu vegna uppsafnaðs hagnaðar eldri ára eða ráðstöfunar frjálsra sjóða, réttur til úthlutunar við félagsslit umfram nafnverð eða lækkun hlutafjár í A-flokki og að auki yrðu þeir að hlíta innlausnarrétti álitsbeiðanda á hlutum í B-flokki á nafnverði samkvæmt ákvörðun stjórnar á hverjum tíma.  Allt þetta mun hafa áhrif á verðmæti hluta í B-flokki og af þeim sökum er ráðgert að selja B-hlutina á nafnverði.

Álitsbeiðandi upplýsir að meginmarkmið þessarar ráðstöfunar sé að stuðla að auknum hagnaði af rekstri félagsins til framtíðar til hagsbóta fyrir alla hluthafa.  Þannig muni ráðstöfunin festa betur í sessi þann mannauð sem álitsbeiðandi býr nú yfir, auka kostnaðarvitund og gera álitsbeiðanda að áhugaverðari kosti fyrir hæfileikaríkt fólk í fjármálageiranum.  Núverandi hluthafar álitsbeiðanda telja þetta ennfremur vænlegan kost, aðallega með tilliti til áhættustýringarsjónarmiða, starfsmenn verði áfram hluthafar í álitsbeiðanda og hafi raunverulegan hag af velgengni hans.  Hagsmunir álitsbeiðanda muni þannig fara saman við hagsmuni starfsmanna sem muni í auknum mæli láta sig hagsmuni félagsins varða og „er þar af leiðandi til þess fallið að vinna gegn óhóflegri áhættutöku“ eins og segir í álitsbeiðni.

Bent er á það í álitsbeiðni að helmingur núverandi starfsmanna álitsbeiðanda eru nú þegar hluthafar í félaginu og yrðu þá áfram hluthafar í A-flokki, auk þess að gefast kostur á því ásamt öðrum hluthöfum að kaupa hluti í hinum nýja B-hlutaflokki.  Vilji hluthafa standi jafnframt til þess að breikka þann hóp og veita núverandi eða nýjum starfsmönnum kost á aukinni hlutdeild í mögulegri velgengni álitsbeiðanda. 

Í álitsbeiðni segir ennfremur:

„Talsvert algengt hefur verið í framkvæmd að fyrirtæki fari þá leið að gefa út hlutabréf í tveimur eða fleiri hlutaflokkum með mismunandi rétthæð í þeim tilgangi að selja núverandi og nýjum hluthöfum, þ.m.t. starfsmönnum og felst munurinn milli hlutaflokkanna einkum í mismunandi rétti til að greiða atkvæði, nýta forkaupsrétt eða útgreiðslu arðs.  Slíkt fyrirkomulag er alþekkt og mikið notað við stigskipta eignaraðild í ýmsum sérfræðigreinum, svo sem hjá endurskoðunarfyrirtækjum, lögfræðistofum, verkfræðistofum og fjármálafyrirtækjum.“

Álitsbeiðandi rekur að það sem helst greini á milli framangreindra sérfræðigreina séu þær kröfur sem almennt eru gerðar til sérfræðiþjónustu á fjármálamarkaði s.s. verðbréfamiðlunar, eignastýringar, og fyrirtækjaráðgjafar, um að slík þjónusta sé veitt af fjármálafyrirtækjum með starfsleyfi frá Fjármálaeftirlitinu og öflun slíks leyfis krefjist ákveðins lágmarks hlutafjár eins og nánar er rakið í álitsbeiðni.  Þá er einnig rakið að útgáfa hlutabréfa í mismunandi flokkum líkt og gert sé ráð fyrir í álitsbeiðni kalli lögum samkvæmt á að breytingar verði gerðar á samþykktum álitsbeiðanda.  Af þeim sökum fylgi álitsbeiðni núgildandi samþykktir ásamt drögum að fyrirhuguðum breytingum á samþykktum álitsbeiðanda.  Álitsbeiðandi tekur fram að ekki sé farið fram á bindandi álit um skilyrði arðsúthlutunar.

Fyrirætlun álitsbeiðanda:

Álitsbeiðandi hyggst gefa út hlutabréf í nýjum hlutaflokki svonefndum B-flokki.  Hluthafar í þeim flokki hafi eingöngu rétt til arðgreiðslna sem nemur tilteknum hluta af hagnaði af starfsemi bankans.  Álitsbeiðandi upplýsir að núverandi hlutafé í honum verði í almennum A-flokki hlutabréfa sem hafi öll þau réttindi og skyldur sem almennt fylgir hlutareign í félagi.

Álitsbeiðandi upplýsir jafnframt að hlutabréfaútgáfan sé fyrirhuguð í þeim tilgangi að mæta væntanlegri sölu á hlutabréfum í hinum nýja hlutaflokki til núverandi og nýrra hluthafa í bankanum, þ.m.t. til starfsmanna hans.

Álitaefni:

Álitsbeiðandi ber upp tvö álitaefni í tengslum við hina fyrirhuguðu ráðstöfun:

  • „að [álitsbeiðanda] beri ekki að halda eftir skatti í staðgreiðslu og standa skil á í ríkissjóð vegna sölu á eignarhlutum í B-flokki í [honum] á nafnverði til starfsmanna [hans], enda verði slík sala ekki talin til tekna í hendi starfsmanna samkvæmt 1. tölulið A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt;“
  • „að fara beri með arðgreiðslur af hlutafé í B-flokki í [álitsbeiðanda], til þeirra hluthafa í flokknum sem jafnframt kunna að vera starfsmenn [hans], sem hverjar aðrar tekjur af hlutareign samkvæmt 4. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 11. gr. sömu laga.“

Sjónarmið álitsbeiðanda:

Sjónarmiðum álitsbeiðanda um fyrra álitaefnið sem rakið er hér að framan er lýst með svofelldum hætti í álitsbeiðni:

„Af hálfu álitsbeiðanda er litið svo á að það endurgjald sem greitt er fyrir hina nýju B-hluti sé í samræmi við þau verðmæti sem [álitsbeiðandi] lætur af hendi í tengslum við útgáfu hinna nýju hluta.

Álitsbeiðandi telur eðlilegt að mismunandi sjónarmið séu lögð til grundvallar þegar kemur að því að meta verðmæti hlutabréfa í A-flokki annars vegar og B-flokki hins vegar.“

Álitsbeiðandi vísar til IV. kafla laga nr. 2/1995, um hlutafélög, þar sem fjallað er um eignarhluti í hlutafélögum.  Almenna reglan sé sú að allir hlutir í félagi skuli hafa jafnan rétt, en með því sé átt við jafnan rétt miðað við fjárhæð hluta.  Frá þessari meginreglu megi þó víkja ef um það er kveðið í samþykktum félags og vísar álitsbeiðandi til 2. mgr. 20. gr. og 12. tölul. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög. 

Álitsbeiðandi bendir á að í áður nefndri 2. mgr. 20. gr. laga nr. 2/1995 sé áskilið að ef allir hlutir hafi ekki jafnan rétt þá skuli í samþykktum skipta hlutum í sérstaka flokka og geta um mun milli flokkanna og fjárhæðir hvers flokks.  Þá beri að hafa sérstök ákvæði um rétt til áskriftar að nýju hlutafé sem hluthafar hafa rétt til við hækkun hlutafjár.  Álitsbeiðandi telur að þó svo að tilvitnað ákvæði laga nr. 2/1995 hafi ekki að geyma fyrirmæli um í hverju munur milli hlutaflokka skuli liggja verði að líta svo á að hlutaflokkur teljist vera fyrir hendi þegar hlutir hafa verið gefnir út sem veita mismunandi réttindi milli flokka.

Þeir B-hlutir sem álitsbeiðanda hyggist gefa út muni ekki njóta annarra réttinda en tilkalls til ákveðins hluta af hagnaði álitsbeiðanda og þeirra réttinda sem leiða af lögum.  Af þeim sökum er það mat álitsbeiðanda að nýju hlutirnir, B-hlutir, muni hafa annað og verulega skert verðgildi miðað við þá verðlagningu sem lögð er til grundvallar hlutum í A-flokki.  Að mati álitsbeiðanda munar þar mestu um að ekkert liggi fyrir um hvort til hagnaðar muni koma af starfsemi hans eða þá hver slíkur hagnaður kunni að verða.  Þá muni stjórn álitsbeiðanda hvenær sem er geta ákveðið að innleysa hlutabréf í B-flokki og að slík innlausn muni fara fram á nafnverði.  Verði enginn hagnaður af starfsemi álitsbeiðanda muni hluthafar í B-flokki ekki njóta nokkurrar ávöxtunar eða arðgreiðslna og hið sama kann að eiga við þó svo hagnaður verði af rekstri ef eiginfjárkröfur eftirlitsaðila eða áhættustýringasjónarmið standa í vegi fyrir því að greiddur verði út arður.

Jafnframt kemur fram í álitsbeiðni að álitsbeiðandi líti svo á að enda þótt sala á eignarhlutum í B-flokki fari einnig fram til starfsmanna á nafnverði þá muni það ekki fela í sér tekjur í þeirra hendi enda sé það endurgjald sem starfsmenn inna af hendi fyrir hlutina í samræmi við þau verðmæti sem álitsbeiðandi lætur af hendi.  Ekki sé því unnt að líta svo á að starfsmanni séu látin í té verðmæti sem séu umfram það endurgjald sem fyrir kemur.

Álitsbeiðandi vísar til 1. mgr. 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og þess að skattaðili þurfi, vegna starfa hans í þágu annars aðila, að hlotnast ákveðin gæði sem metin verða til peningaverðs og leiða til eignaauka í hans hendi sem er umfram það endurgjald sem greitt var fyrir, til þess að það komi til skoðunar yfirhöfuð hvort um sé að ræða skattskyldar tekjur.  Starfsmönnum álitsbeiðanda munu, líkt og öðrum, bjóðast að kaupa hluti í hinum nýja B-flokki gegn greiðslu endurgjalds sem er í samræmi við þau verðmæti sem álitsbeiðandi lætur af hendi.  Telur álitsbeiðandi að salan komi ekki til með að fela í sér skattskyldar tekjur í hendi þeirra starfsmanna sem kaupa munu hluti í hinum nýja hlutaflokki.  Þá tekur álitsbeiðandi fram að þeir starfsmenn sem kaupa hina nýju hluti munu fá sömu greiðslukjör og aðrir sem festa kaup á umræddum hlutum.  Orðrétt segir í álitsbeiðni:

„Þannig munu tekjur sem hluthöfum í B-flokki hlotnast, í þeim tilvikum þar sem viðkomandi hluthafi er jafnframt starfsmaður [álitsbeiðanda], ekki verða raktar til launaðra starfa viðkomandi starfsmanns í þágu [álitsbeiðanda], heldur þeirrar stöðu sem viðkomandi starfsmaður nýtur sem hluthafi í [álitsbeiðanda].  Áréttað er að nú þegar er um helmingur starfsmanna hluthafar í [álitsbeiðanda].  Þá skal á það bent í þessu sambandi að [álitsbeiðandi] greiðir starfsmönnum sínum há laun sem standast fyllilega samanburð við önnur fjármálafyrirtæki.“

Álitsbeiðandi telur með vísan til framanritaðs að ekki muni koma til skattskyldu vegna sölu hans á hlutabréfum í B-flokki til starfsmanna.  Kæmist ríkisskattstjóri að gagnstæðri niðurstöðu er ljóst að álitsbeiðanda bæri skylda til að halda eftir staðgreiðslu í samræmi við lög nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda.  Ennfremur yrði kostnaður sem af þessu myndi hljótast vera frádráttarbær í reiknings- og skattskilum álitsbeiðanda.

Sjónarmiðum álitsbeiðanda um síðara álitaefnið sem upp er borið í álitsbeiðninni er lýst með eftirfarandi hætti í álitsbeiðni:

„... almenn regla laga nr. 2/1995, um hlutafélög, [er sú] að allir hlutir í félagi skuli hafa jafnan rétt.  Frá þessari meginreglu má þó víkja ef kveðið er á um það í samþykktum að hlutum skuli skipt í sérstaka hlutaflokka. ... Er ljóst að fyrirhugaðar breytingar á samþykktum álitsbeiðanda fela í sér tilgreiningu á mun milli flokkanna, fjárhæðir þeirra og rétt til áskriftar.  Álitsbeiðandi telur að fyrirhuguð útgáfa nýrra hluta í B-flokki sé að fullu leyti í samræmi við það sem áskilið er í ákvæði 20. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög.“

Álitsbeiðandi vísar til XII. kafla laga nr. 2/1995, um hlutafélög, og gengur út frá þeirri forsendu að skilyrði þess kafla muni verða fyrir hendi á hverjum tíma, þegar og ef ákvörðun er tekin um úthlutun arðs.  Af þeim sökum verði að líta svo á að allur arður sem hlutaðeigandi eigendum að hlutafé í B-flokki kann að vera úthlutað muni teljast til „venjulegs arðs“ í félagaréttarlegum skilningi.

Álitsbeiðandi telur að skattleggja beri arðgreiðslur til hluthafa í B-flokki sem fjármagnstekjur samkvæmt 4. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og vísar m.a. til 1. mgr. 11. gr. sömu laga þar sem finna má nánari skilgreiningu á arðshugtakinu.  Álitsbeiðandi telur að arðshugtakið í skilningi laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sé mjög rúmt.  Þá telur álitsbeiðandi að ákvæði 1. málsl. 2. mgr. 11. gr. tekjuskattslaga eigi ekki við í tilviki því sem álitsbeiðni tekur til enda mun úthlutun verðmæta í formi arðs til hlutaðeigandi hluthafa í B-flokki, sem jafnframt eru starfsmenn álitsbeiðanda, vera heimil á grundvelli laga um hlutafélög.

Forsendur og niðurstöður ríkisskattstjóra:

Annars vegar er óskað eftir að ríkisskattstjóri staðfesti að álitsbeiðanda beri ekki að halda eftir skatti í staðgreiðslu og standa skil á í ríkissjóð vegna sölu á eignarhlutum í B-flokki í álitsbeiðanda á nafnverði til starfsmanna hans, enda verði slík sala ekki talin til tekna í hendi starfsmanna samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt,eins og segir í álitsbeiðni.

Hins vegar er óskað eftir að ríkisskattstjóri staðfesti að fara beri með arðgreiðslur af hlutafé í B-flokki í álitsbeiðanda til þeirra hluthafa í flokknum sem jafnframt kunna að vera starfsmenn hans sem hverjar aðrar tekjur af hlutareign samkvæmt 4. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 11. gr. sömu laga.

Með bréfi dagsettu 21. janúar 2015 sem sent var umboðsmanni álitsbeiðanda var rakið að svo virtist sem niðurstaða um fyrra álitaefnið réðist af því hvort nafnvirði B-hlutanna endurspegli raunvirði bréfanna.  Í bréfinu kom ennfremur fram að ekki væri að finna í álitsbeiðni beint verðmat á umræddum bréfum heldur væri að finna upptalningu á þeim mismun sem yrði á A- og B-bréfum og fullyrt af hálfu álitsbeiðanda að endurgjaldið yrði í samræmi við þau verðmæti sem látin yrðu af hendi.

Ríkisskattstjóri vísaði ennfremur til þess í bréfi sínu að í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum, sbr. þskj. 941, 552. mál, 122. löggjafarþing 1997-98, kæmi fram að:

„[b]indandi álit ríkisskattstjóri muni að líkum nýtast best í þeim tilvikum þegar álitamál lýtur að túlkun flókinna eða óljósra ákvæða laga eða reglugerða fremur en t.d. matskenndum atriðum, svo sem mati á verðmætum eigna, eða sönnunarfærslu um staðreyndir máls.“

Að lokum óskaði ríkisskattstjóri eftir því að álitsbeiðandi léti í té rökstuddar forsendur fyrir verðmati á þeim hlutabréfum sem fyrirhugað væri að gefa út.

Með bréfi umboðsmanns álitsbeiðanda dagsettu 3. febrúar 2015 sem ríkisskattstjóri móttók sama dag er leitast við að svara áður nefndu bréfi ríkisskattstjóra.  Í svarbréfinu er tekið undir þá afstöðu ríkisskattstjóra að niðurstaða um fyrra álitaefnið ráðist af því hvort að nafnvirði B-hlutabréfa endurspegli raunvirði þeirra á þeim tíma sem álitsbeiðandi hyggst selja þau starfsmönnum sínum.  Þá áréttar álitsbeiðandi þær forsendur og sjónarmið sem sett eru fram í álitsbeiðninni og liggja til grundvallar því mati álitsbeiðanda að nafnverð bréfanna endurspegli raunvirði þeirra.  Orðrétt segir í svarbréfi álitsbeiðanda:

„Þessi takmörkun á eignarréttindum hefur óhjákvæmilega grundvallarþýðingu um ákvörðun á verðmæti hlutabréfanna.“

Þá kemur fram hjá álitsbeiðanda að reynsla undanfarinna ára sýni að hvorki sé unnt að ganga að því sem vísu að hagnaður verði af starfsemi álitsbeiðanda né sé unnt að segja til um með vissu hver slíkur hagnaður kunni að verða.  Þetta endurspegli meðal annars gangverð hlutabréfa hérlendis og erlendis.  Hafa verði í huga að verði enginn hagnaður af starfsemi álitsbeiðanda munu hluthafar í B-flokki engra arðgreiðslna eða ávöxtunar njóta af því fé sem bundið er í eignarhlutum þeirra.  Hið sama kunni jafnvel að eiga við þó svo hagnaður yrði af rekstri álitsbeiðanda ef eiginfjárkröfur eftirlitsaðila eða áhættustýringasjónarmið verði talin standa því í vegi að svigrúm verði til arðgreiðslna.

Álitsbeiðandi bendir jafnframt á að talsvert algengt hafi verið í framkvæmd að fyrirtæki fari þá leið að gefa út hlutabréf í tveimur eða fleiri hlutaflokkum með mismunandi réttindi og eftir því sem álitsbeiðandi komist næst þá sé tíðkanlegt í þeim tilvikum, þar sem félag hefur takmarkalausan innlausnarrétt á hlutabréfum á nafnverði þeirra, að raunvirði þeirra hlutabréfa sé að hámarki talið samsvara nafnverði þeirra.

Álitsbeiðandi áréttar að lokum það mat sitt að raunvirði hlutabréfa í fyrirhuguðum B-flokki sé að hámarki nafnverð þeirra og slík verðlagning sé að fullu í samræmi við innlausnarverð þeirra.  Raunvirðið geti þó orðið lægra.  Að lokum segir svo í svarbréfinu:

„Æskir álitsbeiðandi þess að ríkisskattstjóri láti í té bindandi álit miðað við þær forsendur sem að framan eru gefnar og einskorðað við þær.  Í því fælist þá væntanlega það álit ríkisskattstjóra að miðað við þær forsendur að nafnvirði hlutabréfanna endurspegli raunvirði þeirra þá felist sala á þeim til starfsmanna [álitsbeiðanda] ekki í sér skattskyldar tekjur í hendi starfsmanna.“

Ríkisskattstjóri vekur athygli á dómi Hæstaréttar í máli 279/2014 sem kveðinn var upp 16. október 2014 (Birna Hrólfsdóttir og Einar Sveinsson gegn íslenska ríkinu).  Í þeim dómi var komist að þeirri niðurstöðu að C-hlutabréf í erlendu félagi, sem eingöngu veittu rétt til arðs gætu ekki talist sams konar eign og hlutabréf sem öll hefðbundin réttindi hluthafa fylgdu.  Af þeim sökum var ekki heimilt að draga samkvæmt 1. mgr. 24. gr. tekjuskattslaga tap af sölu C-hlutabréfa frá hagnaði af sölu hlutabréfa í Glitni banka.

Almenn skilgreining hlutabréfs er sú að um sé að ræða bréf sem gefin eru út til hluthafa í hlutafélagi sem sönnunargögn fyrir eignarhlutdeild þeirra í félaginu, hvort heldur þau eru gefin út á nafnverði eða sem hlutdeildarbréf.

Eins og rakið hefur verið hér að framan sbr. og ummæli í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum, er ekki gert ráð fyrir því að ríkisskattstjóri verðmeti eignir og veiti bindandi álit á grundvelli slíks verðmats og mun ríkisskattstjóri því ekki í bindandi áliti þessu taka afstöðu til þess hvort að raunvirði umræddra hlutabréfa geti jafngilt nafnvirði þeirra.

Í 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatts, kemur fram að skattskyldar tekjur teljist hvers konar gæði, arður, laun og hagnaður sem skattaðila hlotnast og metin verða til peningaverðs og skiptir ekki máli hvaðan þær stafa eða í hvaða formi þær eru.  Í dæmaskyni eru svo taldar upp í þremur stafliðum skattskyldar teknategundir.  Umrædd upptalning er engan vegin tæmandi.  Tekjuhugtak tekjuskattslaga er þannig mjög víðtækt og óumdeilt að til skattskyldra tekna teljist mismunur á raunvirði og kaupvirði verðmæta sem starfsmenn öðlast á grundvelli starfssambands við vinnuveitanda sinn.

Þá bendir ríkisskattstjóri á að í 9. gr. áður nefndra laga um tekjuskatt kemur fram að tekjur skv. 1. tölul. A-liðar 7. gr. vegna kaupa manns á hlutabréfum samkvæmt kauprétti sem hann hefur öðlast vegna starfa fyrir annan aðila, skuli ákveðnar þannig að til skattskyldra tekna teljist mismunur á kaupverði samkvæmt kaupréttarsamningi og gangverði bréfanna þegar kaupréttur er nýttur.  Með gangverði er átt við skráð markaðsverð í kauphöll eða á skipulegum tilboðsmarkaði þegar kaupréttur er nýttur.  Ef hlutabréf eru ekki skráð í kauphöll skal miða við gangverð bréfanna í viðskiptum en annars bókfært verð eigin fjár samkvæmt síðasta endurskoðaða ársreikningi eða árshlutareikningi í viðkomandi félagi.

Álitsbeiðandi er þeirrar skoðunar að ekki geti komið til skattlagningar á grundvelli áður nefndrar 9. gr. „þar sem ekki er um kaupréttarsamning að ræða“eins og segir í álitsbeiðni

Ríkisskattstjóri er ekki sammála álitsbeiðanda hvað þetta atriði varðar.  Í 9. gr. tekjuskattslaga felst ákveðin vísiregla um hvernig verðmeta skuli hlutabréf sem skipta um hendur þó svo ekki sé um að ræða kaupréttarsamninga.  Í úrskurði yfirskattanefndar nr. 158/2014 kemur eftirfarandi fram:

„Taka verður undir það með ríkisskattstjóra að í þeim tilvikum þegar glöggra upplýsinga nýtur ekki um gangverð hlutabréfa í viðskiptum sé almennt viðhlítandi að byggja mat á gangverði hlutabréfanna á bókfærðu verði eigin fjár viðkomandi félags samkvæmt síðasta endurskoðaða ársreikningi þess, sbr. m.a. þágildandi lög nr. 144/1994, um ársreikninga, nú lög nr. 3/2006 um sama efni, og úrskurð yfirskattanefndar nr. 26/2005.  Gert er ráð fyrir slíkri verðviðmiðun í 9. gr. laga nr. 90/2003 og raunar víðar í skattalöggjöf, sbr. t.d. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 14/2004, um erfðafjárskatt. ... Verður að telja að ljóst hafi verið að með tilvísun til 9. gr. laga nr. 90/2003 hafi ríkisskattstjóri verið að rökstyðja aðferð við mat á gangverði hlutabréfanna til skattlagningar í hendi kærenda ... “

Að þessu virtu verður ekki framhjá því horft að við kaup starfsmanna álitsbeiðanda á hlutabréfum skal telja til tekna hjá starfsmönnum álitsbeiðanda þann mismun sem reiknast við kaup á nafnverði og raunvirði B-hlutabréfanna sem fyrirhugað er að gefa út og halda eftir skatti í staðgreiðslu af þeim mismun, sbr. framangreinda tilvísun til 9. gr., sbr. 7. gr. tekjuskattslaga, um að miða skuli við gangverð eða raunverð.  Eins og fram hefur komið mun ríkisskattstjóri ekki taka afstöðu til þess í bindandi áliti þessu hvort að nafnverð umræddra bréfa sé raunvirði þeirra.  Þá er ljóst samkvæmt framanrituðu að ríkisskattstjóri getur ekki lagt til grundvallar bindandi áliti að raunvirði jafngildi nafnverði líkt og álitsbeiðandi hefur óskað eftir. 

Hvað varðar síðara álitaefnið sem álitsbeiðandi ber upp bendir ríkisskattstjóri á að í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum, sbr. þskj. 941, 552. mál, 122. löggjafarþing 1997-98, að bindandi álit muni að líkum nýtast best í þeim tilvikum þegar álitamál lýtur að túlkun flókinna eða óljósra lagaákvæða eða reglugerða.

Samkvæmt skýru ákvæði 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, telst til arðs af hlutum og hlutabréfum í félögum sem um ræðir í 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. sérhver afhending verðmæta til hlutareiganda með takmarkaða eða ótakmarkaða ábyrgð eða hluthafa er telja verður sem tekjur af hlutaeign þeirra í félaginu og úthlutað er í samræmi við ákvæði laga þar um. 

Í álitsbeiðni kemur fram að gengið sé út frá þeirri forsendu í álitsbeiðninni að skilyrði arðsúthlutunar samkvæmt XII. kafla laga nr. 2/1995, um hlutafélög, séu fyrir hendi þegar til arðsúthlutunar kemur á hverjum tíma og að ekki sé farið fram á bindandi álit þar að lútandi.

Að framangreindu virtu er það álit ríkisskattstjóra að þeir fjármunir sem eigendur bréfa í B-flokki fá greidda teljist til skattskylds arðs skv. 4. tölul. C-liðar 7. gr. tekjuskattslaga, sbr. 1. mgr. 11. gr. sömu laga, að því gefnu að móttakandi teljist hlutareigandi og að ákvæði 2. mgr. 11. gr. eigi ekki við um þá úthlutun sem fram fer.

Álitsorð:

Ríkisskattstjóri hefur komist að eftirfarandi niðurstöðu vegna þeirra álitaefna sem sett eru fram í álitsbeiðninni:

  • Álitsbeiðanda ber að halda eftir skatti í staðgreiðslu af þeim mismun sem reiknast af jákvæðum mun á nafnverði og raunvirði á eignarhlutum í B-flokki í álitsbeiðanda þegar eignarhlutirnir eru seldir á nafnverði til starfsmanna álitsbeiðanda.
  • Að því gefnu að ákvæði 2. mgr. 11. gr. tekjuskattslaga eigi ekki við um úthlutun fjármuna frá álitsbeiðanda til hluthafa í B-flokki, ber að fara með arðgreiðsluna sem hverjar aðrar tekjur af hlutareign, sbr. almenna skilgreiningu hlutabréfa, í hendi hluthafa samkvæmt 4. tölul. C-liðar tekjuskattslaga sbr. 1. mgr. 11. gr. sömu laga.
Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum