Bindandi álit

Bindandi álit nr. 01/16

4.2.2016

Bindandi áliti breytt með úrskurði yfirskattanefndar nr. 200/2016

Útgáfa hlutabréfa í B-flokki – Arður – Verðmat - Tekjufærsla

Málsatvik:

Í álitsbeiðni kemur fram að álitsbeiðandi hafi orðið til við sameiningu.  Þá er vísað til bindandi álits ríkisskattstjóra nr. 01/15 og tekið fram að þó svo að málavextir og fyrirhugaðar ráðstafanir álitsbeiðanda í því máli annars vegar og álitsbeiðanda í þessu máli hins vegar séu í grunninn mjög eðlislíkar þá séu fáein atriði sem beri á milli.  Í því ljósi og með vísan til 6. gr. laga nr. 91/1998 telji álitsbeiðandi tilefni til þess að óska eftir bindandi áliti frá ríkisskattstjóra.

Álitsbeiðandi upplýsir að hann hafi í hyggju að gefa út ný hlutabréf í sérstökum og nýjum hlutaflokki, B-flokki, sem veiti eingöngu rétt til arðgreiðslna sem nemur tilteknum hluta af hagnaði af starfsemi álitsbeiðanda.  Núverandi hlutafé í álitsbeiðanda verði í almennum A-flokki hlutabréfa sem hafi öll þau réttindi og skyldur sem almennt fylgi hlutareign í félagi.  Þessi ráðstöfun sé fyrirhuguð í þeim tilgangi að mæta væntanlegri sölu á hlutabréfum í hinum nýja hlutaflokki til núverandi og nýrra hluthafa í álitsbeiðanda, þ.m.t. til starfsmanna hans.

Þá kemur fram að álitsbeiðandi sé fjármálafyrirtæki sem starfi samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki.  Hlutafé hans sé nú að fjárhæð kr. X og sé það allt í einum hlutaflokki.  Ef ráðist yrði í fyrirhugaðar ráðstafanir yrðu hlutaflokkarnir tveir, A-flokkur og B-flokkur.  Hlutabréfum í A-flokknum myndu fylgja öll þau réttindi sem almennt fylgja hlutareign í félagi og undir þann flokk myndi allt núverandi hlutafé félagsins falla.  Hlutabréfum í B-flokki myndi eingöngu fylgja réttur til tiltekinna arðgreiðslna sem næmi allt að 35% árlegs hagnaðar álitsbeiðanda fyrir skatta, að því marki sem arðgreiðslur kynnu að fara umfram 6% arðsemi eigin fjár.  Hlutabréf í B-flokki væru framseljanleg líkt og önnur viðskiptabréf en væru háð innlausn álitsbeiðanda samkvæmt ákvörðun stjórnar á hverjum tíma á nafnverði eða við félagsslit.  Í upphafi ráðgerir álitsbeiðandi að gefa út 25.000.000 hluti í B-flokki og selja núverandi og nýjum hluthöfum, þ.m.t. starfsmönnum álitsbeiðanda, á nafnverði.

Samhliða framangreindri hlutabréfaútgáfu er gert ráð fyrir að stjórn álitsbeiðanda verði gert heimilt með ákvæðum í samþykktum álitsbeiðanda að hækka hlutafé í B-flokki um allt að 25.000.000 hluti til viðbótar með útgáfu nýrra B-hluta.  Myndu núverandi hluthafar falla frá forgangsrétti sínum til áskriftar á hinum nýju hlutum í samræmi við 34. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög.  Þá yrði stjórn álitsbeiðanda jafnframt falið að ákveða hverjum skuli veittur réttur til áskriftar að hinum nýju B-hlutum og myndi slík heimild gilda í allt að fimm ár.

Álitsbeiðandi bendir á að í framangreindu felist að hluthafar í B-flokki njóti t.a.m. ekki réttar til að greiða atkvæði á hluthafafundum í álitsbeiðanda, ekki réttar til áskriftar að nýjum hlutum, þeir hafi ekki forgangsrétt að hlutum, ekki réttar til arðgreiðslna sem væru vegna uppsafnaðs hagnaðar eldri ára eða ráðstöfunar frjálsra sjóða, ekki réttar til úthlutunar við félagsslit umfram nafnverð eða lækkun hlutafjár í A-flokki.  Til viðbótar væri hluthöfum í B-flokki gert að sæta innlausn á hlutum sínum í B-flokki á nafnverði samkvæmt ákvörðun stjórnar á hverjum tíma.  Það hafi óhjákvæmilega áhrif á verðmæti hluta í B-flokki að mati álitsbeiðanda og í því ljósi sé ráðgert að selja hlutina á nafnverði.

Upplýst er að megin markmið fyrirhugaðra ráðstafana sé að stuðla að auknum hagnaði af rekstri álitsbeiðanda til framtíðar til hagsbóta fyrir alla hluthafa.  Álitsbeiðandi telur að umræddar ráðstafanir muni festa betur í sessi þann mannauð sem býr í því fólki sem nú tengist álitsbeiðanda sem hluthafar og starfsmenn og að þær muni auka kostnaðarvitund.  Þá telji núverandi hluthafar álitsbeiðanda fyrirhugaðar ráðstafanir til hagsbóta fyrir álitsbeiðanda einkum með tilliti til áhættustýringarsjónarmiða.  Hagsmunir álitsbeiðanda muni þannig fara saman við hagsmuni starfsmanna sem í auknum mæli muni láta sig hagsmuni bankans varða og sé þar af leiðandi til þess fallið að vinna gegn of mikilli áhættutöku og skammtímahagsmunum.  Álitsbeiðandi bendir á að nokkrir núverandi starfsmanna hans séu nú þegar hluthafar í honum og að þeir yrðu áfram hluthafar í A-flokki, auk þess sem þeim myndi gefast kostur á, ásamt öðrum hluthöfum, að kaupa hluti í hinum nýja B-flokki.  Vilji hluthafa álitsbeiðanda standi þannig til að breikka hluthafahópinn og veita núverandi og nýjum starfsmönnum þannig kost á aukinni hlutdeild á mögulegri velgengni álitsbeiðanda.

Álitsbeiðandi reifar að talsvert algengt hafi verið í framkvæmd að fyrirtæki fari þá leið að gefa út hlutabréf í tveimur eða fleirum hlutaflokkum með mismunandi rétthæð í þeim tilgangi að selja núverandi og nýjum hluthöfum.  Mismunurinn milli hlutaflokkanna felist einkum í mismunandi atkvæðarétti, forkaupsrétti eða útgreiðslu arðs.  Álitsbeiðandi fullyrðir að slíkt fyrirkomulag sé alþekkt og mikið notað við stigskipta eignaraðild í ýmsum sérfræðigreinum svo sem hjá endurskoðunarfyrirtækjum, lögfræðistofum, verkfræðistofum og fjármálafyrirtækjum. 

Þá bendir álitsbeiðandi á að fjármálafyrirtæki sem hafi starfsleyfi frá Fjármálaeftirlitinu þurfi að hafa ákveðið lágmarks hlutafé.  Lágmarkshlutafé viðskiptabanka og lánafyrirtækja sé þannig 5 milljónir evra skv. lögum um fjármálafyrirtæki.  Þá beri fjármálafyrirtækjum að hlíta eiginfjár reglum laga um fjármálafyrirtæki sem kveði á um að eiginfjárgrunnur skuli á hverjum tíma nema að lágmarki 8% af áhættugrunni, ásamt því að mat á viðbótareiginfjárþörf, eiginfjáraukar og áhættustýringarsjónarmið hjá fjármálafyrirtækjum leiði til enn hærra hlutfalls eiginfjárgrunns af áhættugrunni.  Starfsemi sú sem álitsbeiðandi sé í krefjist því ávallt umtalsverðs meira eigin fjár og eiginfjárbindingar en í almennum hlutafélögum.

Álitaefni:

Í álitsbeiðni, sbr. tölvupóst frá umboðsmanni álitsbeiðanda þann 27. nóvember 2015, er óskað eftir bindandi áliti um:

  • „að álitsbeiðanda beri ekki að halda eftir skatti í staðgreiðslu og standa skil á í ríkissjóð vegna sölu á eignarhlutum í B-flokki í [álitsbeiðanda] á nafnverði til starfsmanna [álitsbeiðanda], enda verði slík sala ekki talin til tekna í hendi starfsmanna samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.“
  • „að [álitsbeiðanda] beri að fara með arðgreiðslu af hlutafé í B-flokki í [álitsbeiðanda], til þeirra hluthafa í flokknum sem jafnframt kunna að vera starfsmenn [álitsbeiðanda], sem hverjar aðrar tekjur af hlutareign samkvæmt 4. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 11. gr. sömu laga, og beri því að halda eftir skatti í staðgreiðslu af þeim arðgreiðslum og standa skil á í ríkissjóð á grundvelli laga nr. 94/1996 um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur.“

Sjónarmið álitsbeiðanda:

I.  Sala hlutabréfa í B-flokki á nafnverði til starfsmanna feli ekki í sér skattskyldar tekjur í hendi þeirra:

Í álitsbeiðni kemur fram að álitsbeiðandi telji eðlilegt að mismunandi sjónarmið verði lögð til grundvallar þegar komi að því að meta verðmæti hlutabréfa í A-flokki annars vegar og B-flokki hins vegar.

Álitsbeiðandi vísar til IV. kafla laga nr. 2/1995, um hlutafélög, þar sem fjallað er um eignarhluti í hlutafélögum.  Þar komi fram sú almenna regla að allir hlutir í félagi skuli hafa jafnan rétt, en með því sé átt við jafnan rétt miðað við fjárhæð hluta.  Frá þessari meginreglu megi þó víkja ef kveðið sé um það í samþykktum félagsins.  Í 2. mgr. 20. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög, felist að ef kveðið er á um það í samþykktum að allir hlutir skuli ekki hafa jafnan rétt skuli skipta hlutum í sérstaka flokka og geta um mun milli flokkanna og fjárhæðir hvers flokks.  Þá skuli einnig hafa sérstök ákvæði um rétt til áskriftar að nýju hlutafé sem hluthafar hafi rétt til við hækkun hlutafjár.  Ennfremur telur álitsbeiðandi ljóst að til þess að um hlutaflokka sé að ræða verði að koma fram munur á milli þeirra þannig að þýðingu hafi að lögum t.d. um atkvæðisrétt, forkaupsrétt eða til útgreiðslu arðs.  Ekki sé þó áskilið í ákvæðinu í hverju munurinn milli hlutaflokka skuli liggja og telur álitsbeiðandi að hlutaflokkur teljist vera fyrir hendi þegar hlutir hafa verið gefnir út sem veita mismunandi réttindi milli flokka.

Álitsbeiðandi áréttar að þau hlutabréf sem fyrirhugað sé að gefa út í B-flokki verði framseljanleg líkt og hver önnur viðskiptabréf og kaup á þeim muni fela í sér þá áhættu sem almennt fylgi hlutabréfaviðskiptum.  Af þeim sökum telur álitsbeiðandi að málavextir í dómi Hæstaréttar í máli 279/2014 séu ekki sambærilegir við fyrirhugaða útgáfu hans á hlutabréfum í B-flokki enda var um að ræða óframseljanleg verðbréf eða „kaup á kröfu sem veitti skilyrðislausan rétt til greiðslu arðs úr félagi í eitt skipti“ í því máli.

Hlutir í B-flokki munu ekki njóta annarra réttinda en tilkalls til ákveðins hlutfalls af hagnaði álitsbeiðanda, þ.e. að því marki sem arðgreiðslur kunni að fara umfram 6% af arðsemi eiginfjár álitsbeiðanda.  Af þeim sökum er það mat álitsbeiðanda að hinir nýju hlutir í B-flokki muni hafa annað og verulega skert verðgildi miðað við þá verðlagningu sem lögð er til grundvallar hlutum í A-flokki.  Í þessu sambandi munar mest um, að mati álitsbeiðanda, að ekkert liggi fyrir um hvort til hagnaðar muni koma af starfsemi álitsbeiðanda eða þá hver slíkur hagnaður kunni að verða og „að stjórn álitsbeiðanda [geti] hvenær sem er ákveðið að innleysa hlutabréf í B-flokki“ á nafnverði.  Álitsbeiðandi bendir á að reynsla undanfarinna ára sýni að hvorki sé hægt að ganga að því sem vísu að hagnaður verði af starfsemi banka né hver slíkur hagnaður kunni að verða.  Þetta endurspeglist m.a. í gangverði hlutabréfa í bönkum hérlendis og erlendis.  Hafa beri í huga að verði enginn hagnaður af starfsemi álitsbeiðanda umfram 6% arðsemi eigin fjár muni hluthafar í B-flokki engra arðgreiðslna eða ávöxtunar njóta.  Hið sama kunni að eiga við þó svo að hagnaður verði af rekstri álitsbeiðanda ef eiginfjárkröfur eftirlitsaðila eða áhættustýringasjónarmið verði talin standa því í vegi að svigrúm sé til arðgreiðslna.  Talsverð áhætta muni því felast í að fjárfesta í þeim hlutabréfum sem fyrirhugað sé að gefa út í B-flokki.

Þá bendir álitsbeiðandi á að aflað hafi verið verðmats frá óháðum þriðja aðila á virði þeirra hlutabréfa sem fyrirhugað sé að gefa út í B-flokki.  Í því verðmati er tilgreint að ekki sé ólíklegt að arðsemi eigin fjár fari ekki umfram 6% á hverju ári til framtíðar miðað við söguleg gögn um arðsemi fyrri ára.  Þá er bent á þá áhættu sem felst í því að bréfin séu innleysanleg á nafnvirði og af því þurfi eðli máls samkvæmt að gera hærri ávöxtunarkröfu á eigið fé vegna þeirra.  Mat verðmatsaðila, miðað við þær forsendur sem þar eru settar fram, er að virði þeirra hlutabréfa sem fyrirhugað er að gefa út í B-flokki jafngildi nafnvirði þeirra.

Ennfremur sé það mat álitsbeiðanda að raunvirði hlutabréfa í fyrirhuguðum B-flokki sé að hámarki nafnverð þeirra en slíka verðlagningu verði að telja í fullu samræmi við innlausnarverð þeirra.  Raunvirðið geti þó orðið lægra en vandséð sé að kaupandi fáist að hlutunum á hærra verði en nafnverði þeirra í ljósi framanritaðs.

Að þessu virtu telur álitsbeiðandi að það endurgjald sem greitt verði fyrir hina nýju hluti í B-flokki verði í samræmi við þau verðmæti sem hann láti af hendi.

Af hálfu álitsbeiðanda sé litið svo á að enda þótt sala á hlutum í B-flokki fari fram til starfsmanna á nafnvirði þá muni það ekki fela í sér tekjur í þeirra hendi, enda sé það endurgjald sem starfsmenn inna af hendi fyrir nýju hlutina í B-flokki í samræmi við þau verðmæti sem álitsbeiðandi lætur af hendi.  Þannig verði ekki unnt að líta svo á að verið sé að láta starfsmanni í té verðmæti umfram það endurgjald sem fyrir kemur.  Álitsbeiðandi reifar ákvæði 1. mgr. 7. gr. tekjuskattslaga og vísar til þess að samkvæmt ákvæðinu þurfa skattaðilum að hafa hlotnast ákveðin gæði sem metin verði til peningaverðs og leiða til eignaauka í hans hendi sem er umfram það endurgjald sem greitt var fyrir svo það komi  til skoðunar hvort um skattskyldar tekjur sé að ræða.  Starfsmenn álitsbeiðanda munu líkt og aðrir þeir sem kaupi hluti í hinum nýja B-flokki greiða endurgjald sem sé í samræmi við þau verðmæti sem álitsbeiðandi láti af hendi og þar af leiðandi muni það ekki fela í sér skattskyldar tekjur í hendi þeirra starfsmanna sem kaupi hluti í hinum nýja B-flokki.  Þá tekur álitsbeiðandi fram að þeir starfsmenn sem muni kaupa hluti í B-flokki kaupi þá á sömu kjörum og aðrir.  Þannig muni tekjur sem hluthöfum í B-flokki hlotnist, í þeim tilvikum þar sem viðkomandi hluthafi er jafnframt starfsmaður álitsbeiðanda ekki verða raktar til launaðra starfa starfsmannsins í þágu álitsbeiðanda.

Álitsbeiðandi telur ekki geta komið til skattlagningar á grundvelli 9. gr. tekjuskattslaga þar sem ekki sé um kaupréttarsamning að ræða - engum kauprétti sé til að dreifa í þeim ráðstöfunum sem álitsbeiðandi hyggst gera.  Hafa verði í huga að starfsmönnum álitsbeiðanda muni ekki áskotnast neinar tekjur við kaup hlutanna og fullkomin óvissa sé jafnframt um tekjur þeirra af hlutunum til framtíðar.  Í þessu sambandi vísar álitsbeiðandi til dóms Hæstaréttar í máli nr. 626/2011 sem kveðinn var upp 31. mars 2011.

Ennfremur telur álitsbeiðandi að ekki sé unnt að nota ákvæði 9. gr. tekjuskattslaga sem vísireglu um hvernig skuli verðmeta þau hlutabréf sem fyrirhugað sé að gefa út í B-flokki eins og leiða megi af bindandi álit ríkisskattstjóra nr. 01/15 þar sem glöggra upplýsinga njóti um innlausnarverð hlutabréfanna og vandséð verði að teljast að kaupendur fáist að hlutunum á hærra verði en nafnvirði þeirra.

Orðrétt segir svo í álitsbeiðni:

„Samkvæmt öllu framangreindu verður að telja að ekki muni koma til skattskyldu vegna sölu [álitsbeiðanda] á hlutabréfum í B-flokki til starfsmanna enda sé það endurgjald sem greitt er fyrir hina nýju hluti í samræmi við þau verðmæti sem [álitsbeiðandi] lætur af hendi.  Yrði niðurstaðan hins vegar á þá leið að sala hlutabréfa í B-flokki myndi teljast til tekna í hendi starfsmanna myndi það leiða til þess að [álitsbeiðanda] væri skylt að halda eftir skatti í staðgreiðslu og standa skil á í ríkissjóð á grundvelli laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda.  Þá væri sá kostnaður sem af slíku myndi hljótast jafnframt frádráttarbær frá tekjum bankans í skilningi 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og er því leitað eftir bindandi áliti til að taka af allan vafa um skattalega meðferð í tengslum við sölu eignarhlutanna til starfsmanna.“


II.  Arðgreiðslur til hluthafa í B-flokki beri að skattleggja samkvæmt 4. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 11. gr. sömu laga:

Álitsbeiðandi telur að skattleggja beri arðgreiðslur til hluthafa í B-flokki sem fjármagnstekjur samkvæmt 4. tölul. C-liðar 7. gr. tekjuskattslaga, sbr. 11. gr. sömu laga hvort sem slíkir hluthafar eru starfsmenn bankans eða ekki.

Almenna regla laga um hlutafélög sé að allir hlutir í félagi skuli hafa jafnan rétt en frá þessari meginreglu megi hverfa sé kveðið á um það í samþykktum félags að hlutum skuli skipt í sérstaka hlutaflokka.  Álitsbeiðandi telur að fyrirhuguð útgáfa hans á hlutabréfum í B-flokki sé að fullu leyti í samræmi við ákvæði 20. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög. 

Álitsbeiðandi reifar svo að um skilyrði til arðsúthlutunar í hlutafélögum sé fjallað í XII. kafla laga nr. 2/1995, um hlutafélög en samkvæmt 98. gr. þeirra laga sé óheimilt að úthluta fjármunum hlutafélags til hluthafa nema það fari eftir reglum um úthlutun arðs, sem endurgreiðsla vegna lækkunar hlutafjár eða varasjóðs eða vegna félagsslita.  Þá komi fram í 1. mgr. 99. gr. laga um hlutafélag hvenær heimilt sé að úthluta arði.  Álitsbeiðandi gengur út frá þeirri forsendu í álitsbeiðni að skilyrði XII. kafla laga nr. 2/1995 um úthlutun arðs muni vera fyrir hendi á hverjum tíma, þegar og ef ákvörðun verði tekin um úthlutun arðs í álitsbeiðanda.  Verði af þeim sökum að líta svo á að allur arður sem hlutaðeigandi eigendum að hlutafé í B-flokki kunni að verða úthlutað muni  teljast til venjulegs arðs í félagaréttarlegum skilningi.

Í álitsbeiðni rekur álitsbeiðandi ákvæði 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og vísar til þess að samkvæmt ákvæðinu taki arðshugtakið til venjulegs arðs af hlutum og hlutabréfum sem og sérhverrar afhendingar verðmæta frá hlutafélögum, einkahlutafélögum og samlagshlutafélögum samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laganna sem telja verður sem tekjur af hlutareign þeirra í félaginu.  Arðshugtak tekjuskattslaga sé þannig mjög rúmt skilgreint.

Álitsbeiðandi rekur ennfremur ákvæði 1. málsl. 2. mgr. 11. gr. tekjuskattslaga þar sem fram kemur að úthlutun verðmæta til hluthafa sem jafnframt er starfsmaður félags eða tengds félags teljist vera laun ef úthlutunin er óheimil samkvæmt lögum um hlutafélög og einkahlutafélög.  Í tilviki álitsbeiðanda sé ljóst að tiltekinn hluti hluthafa í B-flokki muni vera starfsmenn hans.  Hlutaðeigandi starfsmenn muni jafnframt þiggja hefðbundin laun frá álitsbeiðanda og bendir álitsbeiðandi á að launagreiðslur hans til starfsmanna standist fyllilega samanburð við önnur fjármálafyrirtæki.

Að öllu framangreindu virtu telur álitsbeiðandi að sérhverjar arðsúthlutanir til starfsmanna hans sem eigenda að hlutafé í B-flokki falli þannig undir arðshugtakið í skilningi 1. mgr. 11. gr. laga um tekjuskatt og skuli þannig meðhöndlaðar sem hverjar aðrar tekjur af hlutareign samkvæmt 4. tölul. C-liðar 7. gr. sömu laga.

III.  Samantekt um viðhorf álitsbeiðanda:
Í álitsbeiðni segir orðrétt:

„Með vísan til alls framangreinds telur álitsbeiðandi að:
fyrirhuguð útgáfa [álitsbeiðanda] á hlutafé í B-flokki sé að fullu leyti í samræmi við það sem áskilið er í ákvæði 20. gr. laga nr. 2/1995;
  • [álitsbeiðanda] beri ekki að halda eftir skatti í staðgreiðslu og standa skil á í ríkissjóð vegna sölu á eignarhlutum í B-flokki í [álitsbeiðanda] á nafnverði til starfsmanna [álitsbeiðanda], enda sé slík sala ekki tekjur í hendi starfsmanna samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt;
  • allar arðsúthlutanir til fyrirhugaðra eigenda að hlutafé í B-flokki, sem lögmætar eru samkvæmt ákvæðum laga um hlutafélög, muni falla undir arðshugtakið í 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt;
  • fara beri með allar arðgreiðslur af hlutafé í B-flokki í [álitsbeiðanda] sem hverjar aðrar tekjur af hlutareign samkvæmt 4. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 11. gr. sömu laga.“


Forsendur ríkisskattstjóra:

I.  Sala B-hlutabréfa á nafnverði til starfsmanna:

Hér að framan er rakið að álitsbeiðandi hyggist gefa út hluti í nýjum hlutaflokki, B-flokki, og selja til núverandi og nýrra hluthafa á nafnverði.  Álitsbeiðni fylgdi mat frá þriðja aðila á virði þeirra hlutabréfa sem fyrirhugað er að gefa út.  Þá telur álitsbeiðandi að ríkisskattstjóra ætti að vera fært að taka afstöðu til þessa verðmats í bindandi áliti sínu miðað við þær forsendur sem gefnar eru í beiðninni og vísast til umfjöllunar hér að framan um röksemdir álitsbeiðanda hvað þetta atriði varðar.

Í bindandi áliti ríkisskattstjóra nr. 01/15 sem álitsbeiðandi vísar til í álitsbeiðni sinni kemur fram að ekki sé gert ráð fyrir því að ríkisskattstjóri verðmeti eignir og veiti bindandi álit á grundvelli slíks verðmats sbr. m.a. ummæli í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum, sbr. þskj. 941, 552. mál, 122. löggjafarþing 1997-98, þar sem segir að:

„[b]indandi álit ríkisskattstjóri muni að líkum nýtast best í þeim tilvikum þegar álitamál lýtur að túlkun flókinna eða óljósra ákvæða laga eða reglugerða fremur en t.d. matskenndum atriðum, svo sem mati á verðmætum eigna, eða sönnunarfærslu um staðreyndir máls.“


Í tilvitnuðu áliti var þannig ekki tekin afstaða til þess hvort raunvirði hlutabréfa væri að réttu nafnvirði þeirra.  Eins og rakið hefur verið hér að framan sbr. og ummæli í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum, er ekki gert ráð fyrir því að ríkisskattstjóri verðmeti eignir og veiti bindandi álit á grundvelli slíks verðmats.  Ríkisskattstjóri telur hið sama eiga við þegar óskað er eftir bindandi áliti um það hvort framlagt verðmat álitsbeiðanda endurspegli raunvirði umræddra hluta. Ríkisskattstjóri mun því í bindandi áliti þessu ekki taka afstöðu, fremur en endranær, til þess hvort matsvirði við fyrirhugaða sölu álitsbeiðanda á eignum sé í samræmi við almennt gangvirði eigna af þeim toga sem um ræðir.

Framangreindu til viðbótar bendir ríkisskattstjóri á að í 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, kemur fram að skattskyldar tekjur teljist hvers konar gæði, arður, laun og hagnaður sem skattaðila hlotnast og metin verða til peningaverðs og skiptir ekki máli hvaðan þær stafa eða í hvaða formi þær eru.  Í dæmaskyni eru svo taldar upp í þremur stafliðum skattskyldar tegundir tekna.  Umrædd upptalning er engan veginn tæmandi.  Tekjuhugtak tekjuskattslaga er þannig mjög víðtækt og óumdeilt að til skattskyldra tekna teljist mismunur á raunvirði og kaupvirði verðmæta sem starfsmenn öðlast á grundvelli starfssambands við vinnuveitanda sinn.

Þá bendir ríkisskattstjóri á að í 9. gr. áður nefndra laga um tekjuskatt kemur fram að tekjur skv. 1. tölul. A-liðar 7. gr. vegna kaupa manns á hlutabréfum samkvæmt kauprétti sem hann hefur öðlast vegna starfa fyrir annan aðila, skuli ákveðnar þannig að til skattskyldra tekna teljist mismunur á kaupverði samkvæmt kaupréttarsamningi og gangverði bréfanna þegar kaupréttur er nýttur.  Með gangverði er átt við skráð markaðsverð í kauphöll eða á skipulegum tilboðsmarkaði þegar kaupréttur er nýttur.  Ef hlutabréf eru ekki skráð í kauphöll skal miða við gangverð bréfanna í viðskiptum en annars bókfært verð eigin fjár samkvæmt síðasta endurskoðaða ársreikningi eða árshlutareikningi í viðkomandi félagi.

Hér að framan er sú skoðun álitsbeiðanda rakin að ekki geti komið til skattlagningar á grundvelli áðurnefndrar 9. gr. „enda nýtur bæði glöggra upplýsinga við um innlausnarvirði bréfanna og vandséð verður að teljast að kaupendur fáist að hlutunum á hærra verði en nafnvirði þeirra“eins og segir í álitsbeiðni

Ríkisskattstjóri er ekki sammála álitsbeiðanda hvað þetta atriði varðar.  Í 9. gr. tekjuskattslaga felst ákveðin vísiregla um hvernig verðmeta skuli hlutabréf, enda sé í raun við þær aðstæður verið að verðleggja hlut hluthafa í félagi í samræmi við eignarhlut í eignum félagsins, sem skipta um hendur s.s. þegar til grundvallar liggur starfssamband aðila, þó svo ekki sé um að ræða kaupréttarsamninga.  Í úrskurði yfirskattanefndar nr. 158/2014 kemur eftirfarandi fram:

„Taka verður undir það með ríkisskattstjóra að í þeim tilvikum þegar glöggra upplýsinga nýtur ekki um gangverð hlutabréfa í viðskiptum sé almennt viðhlítandi að byggja mat á gangverði hlutabréfanna á bókfærðu verði eigin fjár viðkomandi félags samkvæmt síðasta endurskoðaða ársreikningi þess, sbr. m.a. þágildandi lög nr. 144/1994, um ársreikninga, nú lög nr. 3/2006 um sama efni, og úrskurð yfirskattanefndar nr. 26/2005.  Gert er ráð fyrir slíkri verðviðmiðun í 9. gr. laga nr. 90/2003 og raunar víðar í skattalöggjöf, sbr. t.d. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 14/2004, um erfðafjárskatt. ... Verður að telja að ljóst hafi verið að með tilvísun til 9. gr. laga nr. 90/2003 hafi ríkisskattstjóri verið að rökstyðja aðferð við mat á gangverði hlutabréfanna til skattlagningar í hendi kærenda ... “


Það mun vera almenn regla að hluthafi teljist sá sem á hlut í hlutafélagi. Framhjá þessari reglu verður ekki horft, þrátt fyrir að hlutafé sé skipt niður á nokkra hlutabréfaflokka. Þannig hefur almennt skipast til að, þrátt fyrir að hluthafar t.d. í B-flokki hafi ekki notið atkvæðisréttar eða annarra réttinda sem almennt fylgja því að eiga hlut í félagi, hafa hluthafar við þessar aðstæður notið verðhækkunar á eignarhlut sínum á eignarhaldstíma. Þá mun tíðkast að hluthafar í B-flokki njóti hærri arðgreiðslna eða hafi forgang að arðgreiðslum til að jafna hlut við aðra hluthafa.

Hátti á hinn bóginn svo til að eignarhaldi á hlut sem slíkum fylgi einungis forgangur til arðs umfram aðra hluthafa en engin hlutdeild í eignum félagsins við slit vegna innlausnar á hlut á nafnverði við þær aðstæður, eins og yrði í tilviki álitsbeiðanda, kann að þurfa í skattalegu tilliti að leggja sjálfstætt mat á hvers konar gerning er um að ræða einkum, þegar starfsmenn eiga hlut að máli. Í þessu sambandi er áréttað það sem fram kemur í álitsbeiðni um innlausnarrétt stjórnar þar sem orðrétt segir: „að stjórn álitsbeiðanda geti hvenær sem er ákveðið að innleysa hlutabréf í B-flokki“á nafnverði.  Auk þess má vísa til þess sem segir í álitsbeiðni að álitsbeiðandi telji að umræddar ráðstafanir muni festa betur í sessi þann mannauð sem býr í því fólki sem nú tengist álitsbeiðanda sem hluthafar og starfsmenn og að þær muni auka kostnaðarvitund.  Þá telji núverandi hluthafar álitsbeiðanda fyrirhugaðar ráðstafanir til hagsbóta fyrir álitsbeiðanda einkum með tilliti til áhættustýringarsjónarmiða.  Hagsmunir álitsbeiðanda muni þannig fara saman við hagsmuni starfsmanna sem í auknum mæli muni láta sig hagsmuni bankans varða og sé þar af leiðandi til þess fallið að vinna gegn of mikilli áhættutöku og skammtímahagsmunum.

Fram hefur komið að einhver hluti starfsmanna séu þegar almennir hluthafar með þeim réttindum sem þeirri hlutabréfaeign almennt fylgir s.s. atkvæðisréttur, arður og eignarhlutdeild við slit. Hvorki kemur fram, né verður ráðið á hvern hátt breytt eignarhald slíkra starfsmanna fellur betur að framangreindum markmiðum álitsbeiðanda.

Af álitsbeiðni virðist mega draga þá ályktun að tilgangur álitsbeiðanda með útgáfu B-hluta helgist ekki einvörðungu af því að laða að áhættufjárfesta gegn forgangi að arðgreiðslum heldur verður ekki annað séð en að markmiðið sé einnig að koma á kerfi með tímabundinni handhöfn bréfa í B-flokki svo unnt sé að greiða starfsmönnum og eftir atvikum völdum hluthöfum greiðslur í formi arðs.  Þá hefur komið fram að það sé mat álitsbeiðanda að raunvirði hlutabréfa í fyrirhuguðum B-flokki sé við þetta fyrirkomulag að hámarki nafnverð þeirra en slíka verðlagningu verði að telja í fullu samræmi við innlausnarverð þeirra.  Eins og mál þetta er lagt fyrir er það álit ríkisskattstjóra að forsendur þær sem fram koma  í dómi Hæstaréttar í máli 279/2014 skipti hér máli, enda svipmót með þeim aðstæðum sem þar er lýst að því leyti er varðar kaup og sölu á verðbréfi við sama verði, sem veitir hér starfsmönnum einungis rétt til forgangsgreiðslu af mögulegum framtíðarhagnaði álitsbeiðanda.

Að þessu virtu verður ekki framhjá því horft að sé litið svo á að almenn regla gildi við kaup starfsmanna álitsbeiðanda á hlutabréfum sem raunhæfan eignarhlut í félagi, þá skuli við þær aðstæður telja til tekna hjá starfsmönnum álitsbeiðanda þann mismun sem reiknast við kaup á nafnverði og raunvirði B-hlutabréfanna sem fyrirhugað er að gefa út og halda eftir skatti í staðgreiðslu af þeim mismun, sbr. framangreinda tilvísun til 9. gr., sbr. 7. gr. tekjuskattslaga, sbr. og tilvitnaðan úrskurð yfirskattanefndar nr. 158/2014, um að miða skuli við gangverð eða raunverð.  Eins og fram hefur komið mun ríkisskattstjóri ekki taka afstöðu til þess í bindandi áliti þessu hvort nafnverð umræddra bréfa sé raunvirði þeirra.  Þá er ljóst samkvæmt framanrituðu að ríkisskattstjóri getur ekki lagt til grundvallar bindandi áliti þá skoðun álitsbeiðanda að raunvirði jafngildi nafnverði líkt og álitsbeiðandi hefur óskað eftir, þrátt fyrir að nafnvirði hins keypta jafngildi söluverði þess.

Að því virtu sem rakið hefur verið verður ekki annað séð en að í raun sé útgáfa B-hlutabréfa í álitsbeiðanda og sala þeirra bréfa til tiltekinna starfsmanna á nafnverði einungis aðferð til að afhenda þeim árangurstengdar greiðslur, eða með öðrum orðum greiðslur á kaupaukum. Verður samkvæmt því að telja greiðslurnar skattskyldar í hendi móttakanda eftir því sem raunvirði B-flokks bréfanna er umfram nafnverð þeirra, sbr. 7. gr. laga nr. 90/2003.  Ber því eftir atvikum að halda eftir staðgreiðslu í samræmi við ákvæði laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda.  Eins og fram er komið tekur ríkisskattstjóri ekki afstöðu til þess hvort raunvirði umræddra bréfa sé jafnt nafnverði þeirra.  

II.  Skattlagning greiðslna til eigenda í B-flokki:

Hvað varðar síðara álitaefnið sem álitsbeiðandi ber upp bendir ríkisskattstjóri á að í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum, sbr. þskj. 941, 552. mál, 122. löggjafarþing 1997-98, að bindandi álit muni að líkum nýtast best í þeim tilvikum þegar álitamál lýtur að túlkun flókinna eða óljósra lagaákvæða eða reglugerða.

Samkvæmt skýru ákvæði 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, telst til arðs af hlutum og hlutabréfum í félögum sem um ræðir í 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. sérhver afhending verðmæta til hlutareiganda með takmarkaða eða ótakmarkaða ábyrgð eða hluthafa er telja verður sem tekjur af hlutaeign þeirra í félaginu og úthlutað er í samræmi við ákvæði laga þar um. 

Í álitsbeiðni kemur fram að gengið sé út frá þeirri forsendu í álitsbeiðninni að skilyrði arðsúthlutunar samkvæmt XII. kafla laga nr. 2/1995, um hlutafélög, séu fyrir hendi þegar til arðsúthlutunar kemur á hverjum tíma.

Eins og fram hefur komið er það álit ríkisskattstjóra að nokkuð skorti á að hafið sé yfir allan vafa í skattalegu tilliti að bréf í B-flokki sem eigendur og þá sérstaklega starfsmenn festi kaup á teljist til hlutabréfa eða hlutareignar í félagi.

Með vísan til niðurstöðu að framan um eðli umræddra ráðstafana er það álit ríkisskattstjóra að þeir fjármunir sem starfsmenn munu fá greidda á grundvelli handhafnar bréfa í B-flokki í álitsbeiðanda geti ekki talist til skattskylds arðs samkvæmt 4. tölul. C-liðar 7. gr. tekjuskattslaga heldur sé í raun um að ræða starfstengda greiðslu sem skattskyld er á grundvelli 1. tölul. A-liðar lagaákvæðisins.

Álitsbeiðanda ber þannig að halda eftir staðgreiðslu af greiðslum til starfsmanna í samræmi við ákvæði 5. tölul. 5. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda,

Álitsorð:

Ríkisskattstjóri hefur komist að eftirfarandi niðurstöðu vegna þeirra álitaefna sem sett eru fram í álitsbeiðninni:

  • Álitsbeiðanda ber að halda eftir skatti í staðgreiðslu af þeim mismun sem reiknast af jákvæðum mun á nafnverði og raunvirði á bréfum í B-flokki í álitsbeiðanda þegar bréfin eru seldir á nafnverði til starfsmanna álitsbeiðanda.

Álitsbeiðanda ber að halda eftir staðgreiðslu af þeim greiðslum til starfsmanna sem inntar eru af hendi á grundvelli bréfa í B-flokki í samræmi við ákvæði laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum