Bindandi álit

Bindandi álit nr. 06/17

31.3.2017

Málavextir og fyrirhugaðar ráðstafanir:

Álitsbeiðendur hafa í hyggju að stofna fagfjárfestasjóð í formi óskattskylds samlagshlutafélags. Fyrirhugað er að A verði ábyrgðaraðili samlagshlutafélagsins og dótturfélag B í skilningi laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002. Upplýst er að B sé með starfsleyfi samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki og staða A sem dótturfélags myndi gera því kleift að veita móðurfélagi sínu leyfisskylda þjónustu sbr. 5. tölul. 3. mgr. 3. gr. laga um fjármálafyrirtæki. Í álitsbeiðni kemur fram að A sjálft yrði ekki með starfsleyfi samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki og myndi ekki veita neinum öðrum en móðurfélagi sínu þjónustu.

Álitsbeiðni fylgdu samningsdrög um eignastýringu, fjárfestingarráðgjöf o.fl. sem fyrirhugað er að gera milli B og þess sjóðs sem fyrirhugað er að stofna og er gert ráð fyrir að B verði stofnaðili sjóðsins ásamt A. Samkvæmt samningsdrögunum mun B taka að sér rekstur sjóðsins og láta álitsbeiðendur þess getið að um sé að ræða sömu þjónustu og B sinnir fyrir aðra sjóði sem félagið rekur.

Gert er ráð fyrir að B útvisti hluta af sínum verkefnum á grundvelli samningsins til A og fylgdu drög að þeim samningi einnig álitsbeiðni. Í samningsdrögunum kemur fram að um sé að ræða þjónustu sem sé eðlilegur og nauðsynlegur hluti af því að reka sjóðinn. Um þjónustu er að ræða sem er í samræmi við staðlaða þjónustu sem veitt sé á markaði af starfsleyfisskyldum rekstrarfélögum verðbréfasjóða við rekstur sjóða í þeirra umsjá. Ef af fyrirætlunum álitsbeiðanda verði þá verði sjóðurinn rekinn til framtíðar á ofangreindum grundvelli í samræmi við hefðbundinn rekstur slíkra sjóða.

Í drögum að samningi á milli B og sjóðsins eru verkefni B fyrir sjóðinn talin í 19 tölusettum liðum og er þar af gert ráð fyrir að tilteknum verkefnum verði útvistað til A, eins og nánar kemur fram í samningsdrögunum. Hlutverk A sem ábyrgðaraðila sjóðsins verður samkvæmt 2. mgr. 160. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög, þ.e. það sem erlendis væri kallað „general partner“ en varðar ekki verkaskiptingu gagnvart sjóðnum. Þá er gert ráð fyrir að framkvæmdastjóri A gegni jafnframt stöðu framkvæmdastjóra sjóðsins, sbr. 2. mgr. 161. gr. laga nr. 2/1995, en í því felist þjónusta sem falli efnislega undir ákvæði 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, þ.e. að dagleg starfsemi sjóðsins verði takmörkuð við fjármálastarfsemi (eignastýringu o.fl.).

Þrátt fyrir verkaskiptingu á milli álitsbeiðenda þá er um að ræða sömu verkefni og innt eru af hendi í hefðbundinni sjóðstýringu og öll verkefnin óaðskiljanlegur hluti hennar. Um er að ræða skiptingu á þjónustu sem almennt er leyfisskyld skv. lögum nr. 161/2002 og undanþegin virðisaukaskatti samkvæmt 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, en gerð eingöngu svo verkefni hvors um sig innan heildarinnar liggi skýrt fyrir svo heildarstarfsemin náist fram án skörunar. B veitir sjóðnum þjónustuna á grundvelli starfsleyfis síns og A veitir þjónustuna til B á grundvelli sama starfsleyfis, sbr. 3. tölul. 3. mgr. 3. gr. laga nr. 161/2002, en B ber sem starfsleyfishafi ábyrgð á þjónustunni gagnvart sjóðnum. Þá mun B útvista framkvæmd milligöngu um verðbréfaviðskipti o.fl. til þess fyrirtækis sem hafi leyfi til verðbréfamiðlunar og hagstæðast er að láta framkvæma viðskiptin. Í því orðalagi sem fram kemur í samningsdrögunum þ.e. að A muni „... hafa umsjón með framkvæmd virðisaukandi aðgerða ...“, felist ekki verðbréfamiðlun heldur efnislega það sama og felst í hlutverki sjóðstjóra verðbréfa- og fjárfestingasjóða, þ.e. eignastýring fyrir sjóðinn og fjárfesta í honum.

Álitaefni:

Álitsbeiðendur óska eftir að ríkisskattstjóri staðfesti með bindandi áliti að „fyrirhuguð starfsemi B og A á grundvelli samnings um eignastýringu, fjárfestingarráðgjöf o.fl. og samnings um útvistun sé þess eðlis að teljast undanþegin virðisaukaskatti“, sbr. 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Rökstuðningur álitsbeiðenda:

Álitsbeiðendur vísa til þess að samkvæmt 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt sé þjónusta banka, sparisjóða og annarra lánastofnana, svo og verðbréfamiðlun undanþegin virðisaukaskatti. Bent er á að orðalag ákvæðisins hafi verið óbreytt frá því að lög um virðisaukaskatt voru samþykkt á Alþingi. Þá vísa álitsbeiðendur til þess að í núgildandi lögum um fjármálafyrirtæki sé fjármálafyrirtæki skilgreint sem svo sbr. 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. a í lögunum:

„Viðskiptabanki, sparisjóður, lánafyrirtæki, verðbréfafyrirtæki eða rekstrarfélag verðbréfasjóða sem fengið hefur starfsleyfi skv. 6. gr., sbr. 4. gr.“

Fram kemur að álitsbeiðandinn B falli undir þetta ákvæði, þ.e. rekstrarfélag verðbréfasjóða sem fengið hefur starfsleyfi skv. tilvitnuðu ákvæði. Á þeim tíma sem orðalag tilvitnaðs ákvæðis laga um virðisaukaskatt varð að lögum voru í gildi lög nr. 86/1985, um viðskiptabanka, og lög nr. 87/1985, um sparisjóði. Álitsbeiðendur telja að ekki verði annað séð en að orðalag laga um virðisaukaskatt hafi ráðist af þeirri orðnotkun og skilgreiningum sem leiddu af þágildandi lögum um fjármálafyrirtæki.

Álitsbeiðendur benda á að frá árinu 1988 og fram til dagsins í dag hafi orðið gríðarmiklar breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki sem endurspeglist í núgildandi lögum. Í ljósi þessa telji álitsbeiðendur að orðalag tilvitnaðs ákvæðis í lögum um virðisaukaskatt taki til þjónustu rekstrarfélaga verðbréfasjóða eins og þjónustu annarra leyfisskyldra aðila samkvæmt gildandi lögum um fjármálafyrirtæki. Í þessu felist að ekki sé hægt að túlka ákvæði laga um virðisaukaskatt þröngt, heldur verði að líta til þeirrar þjónustu sem ákvæðinu var ætlað að ná til. Vísað er til þess að ríkisskattstjóri geri slíkt sbr. ákvarðandi bréf nr. 1095/2015 þar sem vísað sé til eiginlegrar þjónustu fjármálafyrirtækja sem hafa starfsleyfi samkvæmt gildandi lögum. Áréttað er að álitsbeiðandinn B geri það.

Í ljósi þessa telja álitsbeiðendur að eiginleg þjónusta við rekstur sjóða á grundvelli starfsleyfis rekstrarfélaga verðbréfasjóða, sbr. þjónustu við sjóðinn skv. meðfylgjandi samningsdrögum, falli undir ákvæði 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt. Sú þjónusta sem um sé að ræða sé nauðsynleg svo unnt sé að reka sjóðinn.

Álitsbeiðendur benda enn fremur á að þar sem þjónusta B sé eðlilegur og nauðsynlegur þáttur í rekstri sjóðsins sé um að ræða þjónustu sem falli undir tilvitnað ákvæði laga um virðisaukaskatt. Jafnframt hljóti sama þjónusta sem veitt sé af þriðja aðila að falla undir undanþáguna. Vísað er til þess að sú afstaða sé í samræmi við langa skattframkvæmd sbr. m.a. ákvarðandi bréf ríkisskattstjóra nr. 1095/2015, 1096/2015, 5/90 og 480/93. Af þessari ástæðu telji álitsbeiðendur að það hafi ekki áhrif á heimfærslu þjónustu B til laga um virðisaukaskatt þó henni sé útvistað til þriðja aðila.

Áréttað er að í því tilfelli sem hér sé til skoðunar sé að auki um það að ræða að útvistunin verði til A sem dótturfélags B samkvæmt 5. tölul. 3. mgr. 3. gr. laga um fjármálafyrirtæki. Þannig sé tryggt að þjónusta sem veitt sé og kann almennt að vera óheimil öðrum en leyfisskyldum aðilum verði veitt í samræmi við lög um fjármálafyrirtæki.

Í ljósi framanritaðs og með vísan til þess hvaða þjónustu sé um að ræða telja álitsbeiðendur að sú þjónusta sem B útvistar til A samkvæmt þeim samningsdrögum sem fylgdu álitsbeiðni, falli undir 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt og skipti engu máli hvort þjónustan sé veitt af B eða A.

Forsendur ríkisskattstjóra:

I. Um afmörkun undanþáguákvæðis 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988:

Skattskyldusvið virðisaukaskatts er skilgreint mjög víðtækt í 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Í 2. mgr. greinarinnar kemur til að mynda fram sú meginregla að skattskyldan nái til allrar vinnu og þjónustu, hverju nafni sem nefnist, sem ekki er sérstaklega undanþegin samkvæmt 3. mgr. 2. gr. laganna þar sem starfsemi undanþegin virðisaukaskatti er tæmandi talin. Þar á meðal, líkt og rakið er í forsendum álitsbeiðenda, er kveðið á um það í 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laganna að þjónusta banka, sparisjóða og annarra lánastofnana svo og verðbréfamiðlun sé undanþegin virðisaukaskatti. Þær undanþágur sem taldar eru í 3. mgr. 2. gr. ná þó aðeins til sölu eða afhendingar vinnu og þjónustu sem þar getur en ekki til virðisaukaskatts af aðföngum (innskatts) til hinnar undanþegnu starfsemi, sbr. 4. mgr. 2. gr. laganna. Framangreind undanþáguákvæði 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 fela því í sér undantekningar frá meginreglu um skattskyldu og ber samkvæmt lögskýringarvenju að skýra þröngri skýringu og aldrei rýmri en orðalag þeirra gefur beinlínis tilefni til.

Í athugasemdum við frumvarp það er varð að lögum nr. 50/1988 kemur fram að þjónusta banka, sparisjóða og annarra lánastofnana sé undanþegin af tæknilegum ástæðum og að undir ákvæði 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laganna falli, auk verðbréfamiðlunar, einungis eiginleg banka- og lánastarfsemi. Í athugasemdum við 2. tölul. 2. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 165/2011, um fjársýsluskatt, þar sem skattskyld fjármálafyrirtæki samkvæmt sömu lögum eru talin upp með jákvæðum hætti kemur fram að í reynd sé um sömu aðila að ræða og felldir hafa verið undir undanþáguákvæði 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 en við nánari skilgreiningu á því hvaða starfsemi falli undir ákvæðið hafi verið tekið mið af því að um sé að ræða þjónustu sem fjármálafyrirtækjum sé ætlað að veita lögum samkvæmt.

Með 13. gr. laga nr. 33/2015 var bætt við upptalningu skattskyldra aðila samkvæmt 2. tölul. 2. gr. laga nr. 165/2011 rafeyrisfyrirtækjum samkvæmt lögum nr. 17/2013, um útgáfu og meðferð rafeyris, og öðrum þeim aðilum „ … sem í atvinnuskyni eða með sjálfstæðri starfsemi sinni inna af hendi vinnu eða þjónustu sem er undanþegin virðisaukaskatti skv. 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988.“ Í áliti efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, sbr. þskj. 719 - 356. mál, var framangreind breyting lögð til þar sem bein orðskýring ákvæðisins gefi til kynna að það nái ekki til allra aðila sem hafi verið taldir undanþegnir virðisaukaskatti á grundvelli 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, heldur aðeins til viðskiptabanka, sparisjóða, lánafyrirtækja, verðbréfafyrirtækja, verðbréfamiðlana, rekstrarfélaga verðbréfasjóða og annarra fjármálafyrirtækja samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki. Utan skilgreiningarinnar féllu þannig aðilar sem inni af hendi vinnu sem teljist fyllilega sambærileg við starfsemi lánastofnana og teljist því með sama hætti undanþegin virðisaukaskatti skv. 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt, sem og aðilar sem inna af hendi vinnu fyrir lánastofnanir sem telja má eðlilegan og nauðsynlegan þátt í starfsemi þessara aðila og telst því á sama hátt undanþegin virðisaukaskatti. Að mati nefndarinnar þætti því eðlilegt að útvíkka skattskylduna á þann hátt sem greinir í 13. gr. laga nr. 33/2015 þar sem að öðrum kosti gætu aðilar sem eru undanþegnir virðisaukaskatti samkvæmt framansögðu einnig talist undanþegnir fjársýsluskatti og þar með verið vanskattaðir af þessum hluta starfsemi sinnar auk þess sem slík staða kynni að valda mögulegri röskun á samkeppnisstöðu.

Í lögskýringargögnum er ekki að finna frekari skýringar á undanþáguákvæði 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988. Ríkisskattstjóri hefur því við nánari túlkun ákvæðisins sótt skilgreiningu á þjónustu fjármálafyrirtækja til þeirra laga sem um slík fyrirtæki gilda hverju sinni, sbr. nú lög nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sbr. einnig lög nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, lög nr. 128/2011, um verðbréfasjóði, fjárfestingasjóði og fagfjárfestasjóði, og einnig lög nr. 17/2013, um útgáfu og meðferð rafeyris og lög nr. 120/2011, um greiðsluþjónustu. Er því miðað við að undanþága 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 taki aðeins til eiginlegrar, skilgreindrar þjónustu fjármálafyrirtækja sem starfa samkvæmt leyfi fjármálaeftirlitsins en ekki til annarrar starfsemi sem þessi fyrirtæki kunna að hafa með höndum enda sé það ekki tilgangur ákvæðisins að undanþiggja starfsemi innan fjármálastofnana sem er skattskyld hjá öðrum aðilum, sbr. bréf ríkisskattstjóra, dags. 16. febrúar 2015 (tilv. G-ákv. 1095/15).

Í sama bréfi kemur einnig fram að undanþáguákvæði 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 hafi verið túlkað þannig að vinna einstakra aðila, sem telst fyllilega sambærileg við starfsemi lánastofnana samkvæmt ákvæðinu sé undanþegin skattskyldu með sama hætti, sbr. einnig bréf ríkisskattstjóra, dags. 17. janúar 1990 (tilv. G-ákv. nr. 05/90), þar sem talið var að þóknun lögmanns fyrir fjárumsýslu, þ.e. ávöxtun fjár viðskiptamanna sinna, sem væri sambærileg þeirri þjónustu sem verðbréfafyrirtæki veiti væri undanþegin skattskyldu á grundvelli ákvæðisins. Sama gildir um þóknun fyrir vinnu, sem unnin er fyrir lánastofnanir þegar telja má vinnuna eðlilegan og nauðsynlegan þátt í undanþeginni starfsemi þessara aðila, þ.e. vinnu sem almennt er innt af hendi til eigin nota innan lánastofnananna sjálfra. Það sé m.ö.o. eðli þjónustunnar sem ráði því hvort hún teljist undanþegin samkvæmt 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 en ekki hver veiti hana eða hverjum. Við mat á því hvort þóknun fyrir þjónustu sem innt sé af hendi fyrir lánastofnanir teljist undanþegin samkvæmt ákvæðinu verði því að leggja til grundvallar að þjónustan sé eðlilegur og nauðsynlegur þáttur í undanþeginni starfsemi þessara aðila og að í heild feli hún í sér ábyrgð á yfirfærslu réttinda, bæði í fjármálalegum og lagalegum skilningi.

Í framangreindu bréfi ríkisskattstjóra kemur fram að þjónustan verði jafnframt að vera afmörkuð frá almennri tækniþjónustu og ganga þurfi úr skugga um að ábyrgðin á þjónustunni lúti ekki eingöngu að tækniþáttum hennar heldur sé um að ræða raunverulega ábyrgð á færslunum sem slíkum gagnvart þjónustukaupa, þ.e. lánastofnun. Í því sambandi skal bent á að í úrskurði yfirskattanefndar nr. 153/2016 sem birtur er á vef nefndarinnar, www.yskn.is, kemur fram að framangreint undanþáguákvæði verði ekki skýrt rýmra en svarar til leyfisskyldrar starfsemi viðskiptabanka og annarra fjármálafyrirtækja samkvæmt lögum nr. 161/2002. Ákvæðið taki þó ekki sjálfkrafa til hvers kyns þjónustu sem fjármálafyrirtæki kunni að veita á grundvelli lagaheimilda hverju sinni. Til að mynda sé eignaleiga lausafjár, sem fjármálafyrirtæki kunni að hafa með höndum, virðisaukaskattskyld starfsemi og hið sama gildi um ráðgjafarþjónustu af ýmsu tagi, þ.m.t. fjármálaráðgjöf, enda taki ekkert undanþáguákvæði 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 til slíkrar þjónustu sérstaklega. Ráðgjafarþjónusta er þannig tilgreind sérstaklega í 10. tölul. 1. mgr. 12. gr. laganna þar sem talin er þjónusta sem er í eðli sínu virðisaukaskattsskyld en undanþegin skattskyldri veltu við tilteknar aðstæður. Þannig hefur yfirskattanefnd, m.a. í úrskurði sínum nr. 591/2012, sem einnig er birtur á vef hennar, talið að greiða beri virðisaukaskatt samkvæmt ákvæðum 1. mgr. 35. gr. laganna af aðkeyptri ráðgjafarþjónustu erlendis frá sem er nýtt að hluta eða öllu leyti hérlendis.

Þessu til viðbótar má benda á að fjármögnunarleiga og kaupleiga er virðisaukaskattsskyld starfsemi þrátt fyrir að um sé að ræða leyfisskylda starfsemi skv. lögum nr. 161/2002, sbr. ákvarðandi bréf ríkisskattstjóra, dags. 14. janúar 2000 (tilv. G-ákv. 932/2000), og loks má geta þess að í ákvarðandi bréfi ríkisskattstjóra, dags. 4. júní 1993 (tilv. G-ákv. 480/93), kemur fram að „rekstur“ lífeyrissjóða með tilheyrandi bókhaldsvinnu o.fl. sé ekki undanþeginn virðisaukaskatti heldur teldist slík þjónusta til aðfanga samkvæmt 4. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988.

Í framangreindum úrskurði yfirskattanefndar nr. 153/2016 kemur fram að engu að síður verði að telja að fjármálaleg ráðgjafarþjónusta, sem viðskiptabankar og aðrar lánastofnanir veita í nánum tengslum við venjulega innláns- og útlánaþjónustu, viðskipti með fjármálagerninga eða aðra hliðstæða fjármálaþjónustu, þ.e. sem viðbótar- eða aukaþjónustu gagnvart slíkri þjónustu, geti fallið undir undanþáguákvæði 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 á sama hátt og hin eiginlega banka- og lánastarfsemi (aðalþjónustan). Aftur á móti verði að telja að ráðgjafarþjónusta fjármálafyrirtækja sem veitt sé án slíkra tengsla, þannig að þjónustan hafi sjálfstætt gildi fyrir kaupandann, falli utan undanþáguákvæðisins. Um þessi sjónarmið um aðal- og aukaþjónustu vísar nefndin til úrskurðar hennar nr. 230/2006 og dóms Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 106/2008.

Samkvæmt framansögðu er það aðeins hin eiginlega bankastarfsemi og verðbréfamiðlun eða fyllilega sambærileg starfsemi sem er undanþegin virðisaukaskatti, þ.e. ávöxtun fjár viðskiptamanna eða milliganga um kaup eða sölu verðbréfa og sérfræðiráðgjöf á þeim sviðum sem veitt er í nánum tengslum við þessa þjónustu.

II. Starfsemi álitsbeiðenda með hliðsjón af 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988:

  • a. Fagfjárfestasjóðurinn.

    Starfsemi fagfjárfestasjóðs eins og álitsbeiðendur hyggjast stofna fellur undir gildissvið 1. gr. laga nr. 128/2011. Miðað við að rekstrarform hins fyrirhugaða sjóðs verði óskattskylt samlagshlutafélag verður að gera ráð fyrir að stofnun hans sé samkvæmt ákvæðum 60. gr. sömu laga en samkvæmt 61. gr. þeirra er gert ráð fyrir að sams konar sjóðir sem öðrum en rekstrarfélögum verðbréfasjóða er heimilt að stofna séu sjálfstæðar lögpersónur. Hlutverk fagfjárfestasjóða samkvæmt 1. gr. laganna, sbr. einnig 3. tölul. 2. gr., er að veita viðtöku fé frá fagfjárfestum til sameiginlegrar fjárfestingar í fjármálagerningum og öðrum seljanlegum eignum á grundvelli áhættudreifingar samkvæmt fyrir fram kunngerðri fjárfestingarstefnu.

    Samkvæmt framansögðu felst starfsemi sjóðsins í ávöxtun fjár viðskiptamanna hans sem er sambærileg eiginlegri starfsemi lánastofnana og telst því undanþegin virðisaukaskatti á grundvelli 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, sbr. framangreinda afmörkun ákvæðisins.

  • b. B

    Starfsleyfi álitsbeiðanda B tekur til rekstrar verðbréfasjóða, eignastýringar og fjárfestingarráðgjafar samkvæmt 27. gr. laga nr. 161/2002, sbr. einnig C- og D-liði 6. tölul. og 7. tölul. 1. mgr. 3. gr. sömu laga. Starfsheimildir álitsbeiðanda B felast þannig í rekstri verðbréfasjóða og annarra sjóða um sameiginlega fjárfestingu, eignastýringu, fjárfestingarráðgjöf og vörslu og stjórnun fjármálagerninga í sameiginlegri fjárfestingu. Í 14. gr. laga nr. 128/2011 er m.a. kveðið á um að framkvæmdastjóri rekstrarfélags og sjóðstjórar skuli hafa staðist próf í verðbréfaviðskiptum, sbr. 53. gr. laga nr. 161/2002. Í 2. mgr. 16. gr. laga nr. 128/2011 er kveðið á um að rekstrarfélag beri ábyrgð á rekstri verðbréfasjóða og sjóðsdeilda og komi fram fyrir þeirra hönd. Þá er 2. mgr. 60. gr. kveðið á um að rekstrarfélag beri ekki ábyrgð á skuldbindingum einstakra fagfjárfestasjóða en einvörðungu eignir hvers sjóðs standi til fullnustu skuldbindingum hvers þeirra. Ákvæðið víki þó ekki til hliðar skaðabótaábyrgð rekstrarfélags. Í 17. gr. laga nr. 128/2011 eru talin upp verkefni rekstrarfélaga verðbréfasjóða sem auk eignastýringar og fjárfestingarráðgjafar, sbr. 27. gr. laga nr. 161/2002, felast m.a. í fjárfestingum í samræmi við fjárfestingarstefnu, umsýslu, áhættustýringu og markaðssetningu sem er óheimil gagnvart almenningi að því er varðar fagfjárfestasjóði, sbr. 1. mgr. 62. gr. laganna. Í umsýslu felast samkvæmt ákvæðinu bókhalds- og lögfræðiþjónusta, þjónusta við viðskiptavini, mat á verðmæti verðbréfa og annarra eigna, innra eftirlit, að halda og uppfæra skrá yfir eigendur hlutdeildarskírteina, útreikningur innlausnarvirðis, útgáfa og innlausn hlutdeildarskírteina, uppgjör viðskipta og varsla hlutdeildarskírteina og gagna um viðskipti.

    Eins og að framan greinir eru rekstrarfélög verðbréfasjóða skattskyld samkvæmt lögum nr. 165/2011 á þeirri forsendu að þau séu undanþegin virðisaukaskatti samkvæmt 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988. Með hliðsjón af því og þar sem um er að ræða starfsleyfisskylda starfsemi samkvæmt lögum nr. 161/2002 sem afmörkuð er í sömu lögum og lögum nr. 128/2011 þar sem jafnframt er kveðið skýrt á um ábyrgð rekstrarfélaga, verður að telja að starfsemi B samkvæmt samningsdrögum um eignastýringu, fjárfestingarráðgjöf o.fl. sé nauðsynlegur og eðlilegur þáttur í undanþeginni starfsemi sjóðsins og því sé hún undanþegin virðisaukaskatti með sama hætti samkvæmt 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, sbr. framangreinda afmörkun ákvæðisins. Verðbréfasjóður verður auk heldur ekki starfræktur án rekstrarfélags, sbr. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 128/2011. Ýmsir þættir í þjónustu B fyrir sjóðinn eru virðisaukaskattsskyldir samkvæmt almennum ákvæðum laga nr. 50/1988 stæðu þeir einir og sér, þ.m.t. ráðgjafaþjónusta, bókhalds- og lögfræðiþjónusta og undirbúningur að gerð ársreiknings og samskipti við endurskoðendur, en telja verður að sú þjónusta sem þar um ræðir sé veitt í slíkum tengslum við hina undanþegnu þjónustu að þannig megi telja að hún falli undir undanþáguákvæðið með sama hætti og aðalþjónustan, sbr. fyrrgreindan úrskurð yfirskattanefndar nr. 153/2016.

  • c. A (óstofnað):

    Samkvæmt hinum fyrirhuguðu ráðstöfunum álitsbeiðenda útvistar B hluta verkefna sinna fyrir sjóðinn til dótturfélags síns, A, sbr. ákvæði 1. mgr. 18. gr. laga nr. 128/2011 þar sem kveðið er á um að rekstrarfélagi verðbréfasjóða sé heimilt að útvista verkefnum skv. 17. gr. til annarra aðila að tilteknum skilyrðum uppfylltum og að fengnu samþykki Fjármálaeftirlitsins. Í álitsbeiðni er tekið fram að A muni einungis veita móðurfélagi sínu, B, hina leyfisskyldu þjónustu og að staða A sem dótturfélags samkvæmt 5. tölul. 3. mgr. 3. gr. laga nr. 161/2002 geri því kleift að veita móðurfélagi sínu þjónustuna án starfsleyfis. Í 2. mgr. 18. gr. laga nr. 128/2011 er kveðið á um að ábyrgð rekstrarfélags gagnvart eigendum hlutdeildarskírteina haldist óbreytt þó að það feli öðru fyrirtæki hluta af verkefnum sínum skv. 17. gr., sbr. einnig 8. mgr. 62. gr. Samkvæmt fyrirliggjandi samningsdrögum um útvistun verkefna mun A annast eignastýringu, fjárfestingarráðgjöf fyrir sjóðinn og tiltekna umsýslu sem rúmast innan framangreindra ákvæða 17. gr. laga nr. 128/2011. Sem fyrr greinir eru eignastýring og fjárfestingarráðgjöf leyfisskyldar samkvæmt lögum nr. 161/2002, sbr. lög nr. 111/2007, um breytingar á lagaákvæðum um fjármálafyrirtæki o.fl., þar sem innleidd var svo nefnd MiFID-tilskipun Evrópusambandsins en með henni var fjárfestingarráðgjöf gerð leyfisskyld.

    Með hliðsjón af framangreindu, þ.m.t. hinum nánu tengslum álitsbeiðenda samkvæmt ákvæðum 5. tölul. 3. mgr. 3. gr. laga nr. 161/2002, verður jafnframt að telja að þjónusta A samkvæmt samningsdrögum um útvistun verkefna sé nauðsynlegur og eðlilegur þáttur í hinni undanþegnu starfsemi B fyrir sjóðinn og sé því undanþegin með sama hætti samkvæmt 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, sbr. framangreinda afmörkun ákvæðisins.

Álitsorð:

Ríkisskattstjóri hefur komist að eftirfarandi niðurstöðu vegna þeirra álitaefna sem sett eru fram í álitsbeiðninni:

  • Álitsbeiðendur teljast undanþegnir virðisaukaskatti á grundvelli 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, af fyrirhugaðri starfsemi sinni á grundvelli samningsdraga um eignastýringu, fjárfestingarráðgjöf o.fl. og samningsdraga um útvistun verkefna þeirra sem beint falla undir undanþegna starfsemi móðurfélagsins.
Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum