Bindandi álit

Bindandi álit nr. 6/10

23.6.2010

23. júní 2010 Bál 06/10

Málavextir og álitaefni:

Með bréfi dagsettu 10. maí 2010, er lögð fram beiðni um endurupptöku á ákvörðun um bindandi álit, með vísan til 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en þann 9. apríl 2010 vísaði ríkisskattstjóri beiðni um bindandi álit frá með þeim rökum að ekki lægi ljóst fyrir um þau atvik sem óskað hefði verið bindandi álit um, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum.

Í beiðninni var málavöxtum lýst þannig að álitsbeiðandi hefði í hyggju að stofna hlutafélag á Evrópska efnahagssvæðinu. Vinna fyrir félagið yrði unnin í ýmsum Evrópuríkjum öðrum en Íslandi og því gerði álitsbeiðandi ráð fyrir að dvelja erlendis við vinnu u.þ.b. þriðja hluta ársins, líkt og hann hafi gert undanfarin ár.

Óskað var eftir bindandi áliti ríkisskattstjóra á eftirfarandi álitaefnum:

  1. „Ber mér að telja laun sem ég fæ greidd frá félaginu til tekna á Íslandi þótt vinnan sé innt af hendi utan Íslands?
  2. Er hlutafélagið að einhverju leyti selt undir íslensk skattalög, svo sem lög um tekjuskatt og ef svo að hvaða leyti?
  3. Sérstaklega er óskað álits á hvort reglur laga um tekjuskatt hvað varðar reiknað endurgjald gildi að einhverju leyti um vinnusambandið við umrætt félag?
  4. Sérstaklega er óskað álits á hvort mér beri að telja til tekna sem laun 50% af „heimilum úthlutuðum arði“ hins erlenda félags?
  5. Ef svo er, hvaða merkingarmunur er þá á „heimilum úthlutuðum arði“ hins erlenda félags og úthlutuðum arði þess?“

Í endurupptökubeiðni segir m.a.: „Til að taka af allan vafa þá skal upplýst að ætlunin er að ráða framkvæmdastjóra og kjósa í stjórn aðila sem búsettir eru í því landi þar sem félagið verður staðsett. Þar verður og skrifstofa félagsins. Það kom enda skýrt fram í beiðninni að öll vinna sem viðkemur þessu félagi verður unnin í ýmsum Evrópuríkjum, öðrum en Íslandi. Þar var ekkert undanskilið. Af þessum sökum reiknaði ég með að dvelja erlendis við vinnu u.þ.b. þriðja hluta ársins, líkt og ég hef gert undanfarin ár. Það varðar engu í þessu sambandi í hvaða landi á evrópska efnahagssvæðinu utan Íslands félagið verður stofnað.“

Í 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir:

„Eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún tilkynnt á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef:

  1. ákvörðunin hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða
  2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.“

Í endurupptökubeiðni er tekið fram að til standi að ráða framkvæmdastjóra og stjórn í því landi þar sem félagið verði staðsett. Þar muni skrifstofa félagsins einnig vera. Skilyrði 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um að ákvörðun hafi byggst á ófullnægjandi upplýsingum um málsatvik er fyrir hendi og samþykkir ríkisskattstjóri að taka til meðferðar að nýju ákvörðun sína frá 9. apríl sl. þar sem beiðni yðar um bindandi álit var vísað frá.

Forsendur ríkisskattstjóra:

Í frávísun ríkisskattstjóra var með almennum hætti farið yfir þær reglur sem taka á þeim álitaefnum sem velt er upp í beiðninni um bindandi álit og tekið fram hvaða upplýsingar skorti á svo unnt væri að veita bindandi álit um álitaefnið. Verða einstakir hlutar úr bréfi ríkisskattstjóra teknir upp í álit þetta, eftir því sem við á.

Í upphafi frávísunar ríkisskattstjóra er vikið að þeim reglum sem við eiga varðandi fyrsta álitaefni beiðninnar, þ.e. hvort álitsbeiðanda beri að telja laun sem hann fái greidd frá félaginu til tekna á Íslandi. Þar segir:

„Samkvæmt málavaxtalýsingu hyggst álitsbeiðandi stofna hlutafélag utan Íslands og starfa alfarið erlendis á vegum þess félags og muni af því tilefni dvelja erlendis við vinnu u.þ.b. þriðjungi úr ári, líkt og undanfarin ár. Samkvæmt skráningu í Þjóðskrá hefur álitsbeiðandi heimilisfesti á Íslandi og ekkert kemur fram um það í álitsbeiðni að til standi að breyta þeirri skráningu. Skattskylda álitsbeiðanda á Íslandi byggist því á 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Þeir sem skattskyldir eru samkvæmt 1. gr. laganna ber skylda til að greiða tekjuskatt af öllum tekjum sínum, hvar sem þeirra er aflað. Álitsbeiðandi ber því fulla og ótakmarkaða skattskyldu á Íslandi. Þeir sem bera ótakmarkaða skattskyldu á Íslandi geta borið takmarkaða skattskyldu í öðrum ríkjum vegna tekna sem þeir afla þar eða eigna sem þar eru staðsettar. Við slíkar aðstæður getur komið upp sú staða að tekjur séu tvískattaðar, þ.e. annars vegar í heimilisfestisríki á grundvelli ótakmarkaðrar skattskyldu skattþegns og hins vegar í upprunaríki teknanna. Tekið er á slíkum aðstæðum í tvísköttunarsamningum milli ríkja. Tvísköttunarsamningar fela ekki í sér sjálfstæða skattlagningarheimild, heldur er skattlagningarvaldi ríkja yfir mismunandi tekjum skipt milli samningsríkjanna. Líta ber til ákvæða viðeigandi samninga við ákvörðun á skattlagningarrétti hverju sinni. Ef enginn samningur er til staðar geta ríki ákveðið einhliða að taka tillit til erlendrar skattlagningar áður en til innlendrar álagningar kemur. Slíkt ákvæði er að finna í 5. mgr. 119. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, en þar segir að sé ekki fyrir hendi tvísköttunarsamningur sé ríkisskattstjóra heimilt, samkvæmt umsókn skattaðila, að lækka tekjuskatt hans hér á landi með hliðsjón af skattgreiðslum sem hann hefur greitt af tekjum sínum erlendis.

Í álitsbeiðni kemur fram að álitsbeiðandi hafi í hyggju að stofna hlutafélag á Evrópska efnahagssvæðinu og starfa erlendis á vegum félagsins. Ekki er tiltekið í hvaða ríki álitsbeiðandi hyggst stofnsetja félagið eða hvar hann komi til með að inna vinnu sína af hendi. Álitsbeiðandi ber eins og fram er komið ótakmarkaða skattskyldu á Íslandi og ber sem slíkum að telja fram tekjur sínar og eignir hvar sem þeirra er aflað. Aftur á móti eru eins og málið er lagt fyrir ekki til staðar nægar forsendur til að ákvarða hvernig farið skuli með tekjur af störfum fyrir hið erlenda félag í álagningu opinberra gjalda þiggjanda greiðslnanna.“

Í álitsbeiðni sem og í endurupptökubeiðni er vikið að reglum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Er í engu vikið að því hvort og þá hvaða reglur samningsins verið er að vísa til, þvert á móti er látið við það sitja að vísa með almennum hætti til samningsins og fordæma Evrópudómstólsins. Þannig verður ekki ráðið af álitsbeiðninni hvort verið sé með almennum hætti að minna embættið á að hafa samningsskuldbindingar Íslands í huga við gerð álitsins eða hvort álitsbeiðandi telji að tiltekin íslensk ákvæði á sviði skattaréttar brjóti gegn samningsskuldbindingum Íslands og þá með hvaða hætti eða hvort hann telji túlkun þeirra og beitingu annmörkum háð. Í beiðni um endurupptöku kemur þó fram það álit álitsbeiðanda að engu varði í hvaða landi á Evrópska efnahagssvæðinu utan Íslands félagið yrði stofnað. Þá er ennfremur tekið fram að það leiði af fjölmörgum dómum Evrópudómstólsins að ekki megi mismuna aðilum innan Evrópska efnahagssvæðisins og að úrskurður á því byggður yrði því sjálfstætt og alvarlegt athugunarefni fyrir ESA. Af því verður helst ráðið að verið sé að vísa til svars ríkisskattstjóra varðandi það hvort álitsbeiðanda beri að telja laun sem hann fái greidd frá félaginu til tekna á Íslandi þrátt fyrir að vinnan sé innt af hendi utan Íslands, enda er í frávísun ríkisskattstjóra vikið að þýðingu tvísköttunarsamninga þegar svar er veitt vegna þess álitaefnis. Felur það í sér að niðurstaðan geti verið mismunandi eftir því hvar félagið er stofnsett innan Evrópska efnahagssvæðisins, þ.e. hvort gerður hafi verið tvísköttunarsamningur við viðkomandi ríki eða ekki.

Sú regla er óumdeild á alþjóðavettvangi að ríki hafi annars vegar skattlagningarvald yfir eigin þegnum og hins vegar innan eigin lögsögu. Er að þeirri reglu vikið í frávísun ríkisskattstjóra þar sem fjallað er um ótakmarkaða skattskyldu sem og takmarkaða. Er þar einnig vikið að því annars vegar að upp geti komið tilvik þar sem tekjur séu tvískattaðar, þ.e. að sami skattstofn sama skattgreiðanda fyrir sama tímabil sé skattlagður í tveimur eða fleiri ríkjum og hins vegar þess megintilgangs tvísköttunarsamninga að taka á þessum aðstæðum með þeim hætti að skipta skattlagningarvaldi samningsríkja á milli þeirra eftir tekjutegundum. Af athugasemdum í álitsbeiðni verður helst ráðið að hafi Ísland gert tvísköttunarsamning við tiltekið ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins þá beri að fara með sama hætti um skattlagningu gagnvart aðilum búsettum/stofnsettum í öðrum ríkjum innan EES. Annað myndi fela í sér mismunun. Þó ekki liggi ljóst fyrir hvort slíkt sé mat álitsbeiðanda þá þykir rétt að taka það fram að ríkisskattstjóri fellst ekki á þann skilning og er embættinu ekki kunnugt um að Evrópudómstóllinn hafi kveðið upp dóm sem rennir stoðum undir þá túlkun.

Að auki er rétt að benda á að aðlögun löggjafar að EES-réttinum, m.a. á sviði skattaréttar hefur tíðast verið að frumkvæði Alþingis við þær aðstæður að talið sé að brotið sé á samningsskuldbindingum íslenska ríkisins og þá gjarnan á grundvelli álits Eftirlitsstofnunar EFTA. Reglugerðum framkvæmdanefndar EB hefur aftur á móti verið veitt gildi hér á landi með útgáfu reglugerða af hendi viðkomandi fagráðuneytis. Sé löggjöf, sem talin er stangast á við skuldbindingar íslenska ríkisins t.d. vegna dómafordæma Evrópudómstólsins ekki breytt með lögum, þá eru mál af þessum toga, þ.e. um forgang EES-reglna, gjarnan rekin fyrir dómstólunum og reynir æ meira á að leitað sé eftir því á öðru hvoru stigi dómstólameðferðar að farið sé fram á ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins. Telja verður að þrátt fyrir að yfirskattanefnd hafi í úrskurðarfordæmum sínum undirstrikað að meginreglan sé ótvíræð varðandi það að skýra beri lög og reglur, að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við EES samninginn og þær reglur sem á honum byggja, þá muni um sinn gæta ákveðinnar varfærni hjá almennum skattyfirvöldum, að víkja einstökum ákvæðum settra laga til hliðar með hliðsjón af samningsskuldbindingum íslenska ríkisins eða dómum EFTA eða Evrópudómstólsins. Einkum í ljósi þess að skattlagning byggir almennt á innbyrðis samræmi skyldna og ívilnana, þá verður að telja að meira þurfi til en með lögskýringu stjórnvalds einni saman að hnika til hliðar því einstaka ákvæði, sem steyta kann á hverju sinni.

Með vísan til framanritaðs, og að teknu tilliti til þess að engar frekari upplýsingar er að finna í endurupptökubeiðni varðandi það hvar umræddar tekjur álitsbeiðanda eru upprunnar, eru ekki nægar forsendur til að veita bindandi álit um það efnisatriði sem sett er fram í fyrsta tölulið álitsbeiðninnar. Er þeim þætti álitsbeiðninnar því vísað frá.

Í öðrum tölulið álitsbeiðninnar er sett fram sú spurning hvort hlutafélagið yrði að einhverju leyti selt undir íslensk skattalög, svo sem lög um tekjuskatt og ef svo væri að hvaða leyti. Í frávísun ríkisskattstjóra kemur eftirfarandi fram um það álitaefni:

„Þeir lögaðilar sem heimilisfastir eru hér á landi og upp eru taldir í 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, bera ótakmarkaða skattskyldu hér á landi, þ.e. þeim ber skylda til að greiða tekjuskatt af öllum tekjum sínum, hvar sem þeirra er aflað. Samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar teljast þeir lögaðilar eiga hér heimili sem eru skráðir hér á landi, telja heimili sitt hér á landi samkvæmt samþykktum sínum eða ef raunveruleg framkvæmdastjórn lögaðilans er hér á landi. Þannig getur félag sem skráð er erlendis talist heimilisfast á Íslandi og með ótakmarkaða skattskyldu hér sé raunveruleg framkvæmdastjórn þess hér á landi. Ákvörðun um það hvort raunveruleg framkvæmdastjórn félags telst á Íslandi fer eftir sérstöku mati í hverju tilfelli á því hvar meginákvarðanir um stjórnunarleg og viðskiptaleg málefni félagsins eru teknar, hvernig daglegri ákvarðanatöku um málefni félagsins er háttað, hvar þeir aðilar sem félaginu ráða taka ákvarðanir sínar, hvar stjórn félagsins á sæti og hvar aðalskrifstofa félagsins er.

Í álitsbeiðni eru ekki settar fram neinar upplýsingar um þau atriði sem lögð eru til grundvallar ákvörðunar á því hvar raunveruleg framkvæmdastjórn telst vera fyrir hendi. Helst verður ráðið af álitsbeiðni að álitsbeiðandi, sem heimilisfastur er á Íslandi, muni vera einn eigandi hins erlenda félags og bendir það sterklega til þess að raunveruleg framkvæmdastjórn félagsins verði á Íslandi. Eins og álitsbeiðni er sett fram verður þó ekki með óyggjandi hætti kveðið á um skattskyldu hins erlenda félags hér á landi. Erlend félög sem ekki bera ótakmarkaða skattskyldu hér á landi geta borið takmarkaða skattskyldu samkvæmt ákvæðum 3. gr. laga nr. 90/2003. Engar upplýsingar er að finna í álitsbeiðni hvort einhverjar þær aðstæður muni verða uppi sem í þeim ákvæðum greinir. Því síður er að finna upplýsingar er veitt geta vísbendingar um það hvort skattskylda sé fyrir hendi samkvæmt öðrum lögum.“

Samkvæmt því sem fram kemur í beiðni um endurupptöku bindandi álits í skattamálum er ætlunin að ráða framkvæmdastjóra og kjósa í stjórn aðila sem búsettir eru í því landi þar sem félagið verður staðsett. Þar verði einnig skrifstofa félagsins. Þegar lagt er mat á það hvort raunveruleg framkvæmdastjórn er hér á landi eða erlendis er m.a. litið til þess hvar höfuðstöðvar framkvæmdastjórnar félagsins er eða hvar hún kemur saman. Þó verður ekki framhjá því litið að þrátt fyrir að framkvæmdastjórnin sé að forminu til öll til heimilis í útlöndum þá telst hún vera hér á landi séu ákvarðanir um daglega stjórn félagsins í raun teknar hérlendis. Með hliðsjón af því sem fram kemur í endurupptökubeiðni álitsbeiðenda og að virtum þeim sjónarmiðum um eðli bindandi álita ríkisskattstjóra, sem látin eru uppi á grundvelli laga nr. 91/1998, og málsmeðferð samkvæmt þeim lögum, sem fram koma m.a. í úrskurðum yfirskattanefndar nr. 13/2001 og 368/2005, þykir rétt að byggja á því að raunveruleg framkvæmdastjórn hins erlenda félags muni verða erlendis í raun líkt og ráð er fyrir gert af hálfu álitsbeiðenda og er bindandi álit ríkisskattstjóra byggt á þeim grundvelli. Skal þó haft í huga að mat á því, hvort raunveruleg framkvæmdastjórn erlends félags teljist hér á landi í skilningi 2. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003, hlýtur ávallt að byggja að verulegu leyti á mati á aðstæðum hverju sinni. Almennt verður að telja að erfiðleikum sé bundið að koma við slíku mati, sem m.a. beinist að því að ákvarða um staðreyndir máls, við málsmeðferð samkvæmt lögum nr. 91/1998, enda varða bindandi álit ríkisskattstjóra skattaleg áhrif ráðstafana sem ekki hefur verið ráðist í þegar álit er látið uppi, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 91/1998.

Líkt og rakið er hér að framan ræðst skattskylda félagsins að stórum hluta af því hvort það teljist eiga hér heimili. Samkvæmt þeim forsendum sem nú liggja fyrir stendur til að skrá félagið erlendis, auk þess sem byggt er á því að raunveruleg framkvæmdastjórn þess komi einnig til með að vera staðsett erlendis. Af því leiðir að það mun ekki bera skattskyldu samkvæmt 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, þ.e. það ber ekki ótakmarkaða skattskyldu og ber því ekki að greiða tekjuskatt hér á landi af tekjum sínum, óháð því hvar þeirra er aflað. Líkt og að framan greinir geta atvik þó verið með þeim hætti að erlendir aðilar beri hér á landi takmarkaða skattskyldu samkvæmt 3. gr. sömu laga eða skattskyldu samkvæmt lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Bindandi álit er stjórnsýsluákvörðun sem hefur sérstakar lögbundnar réttarverkanir. Við gerð bindandi álits þurfa því að liggja fyrir allar þær upplýsingar og gögn sem snerta viðkomandi atriði. Í fyrirliggjandi álitsbeiðni er ekki óskað eftir bindandi áliti ríkisskattstjóra á því hvort tiltekin atvik eða aðstæður leiði til takmarkaðrar skattskyldu samkvæmt lögum um tekjuskatt eða skattskyldu samkvæmt lögum um virðisaukaskatt, heldur er með almennum hætti farið fram á að ríkisskattstjóri kveði úr um það hvort félagið sé „að einhverju leyti selt undir íslensk skattalög, svo sem lög um tekjuskatt og ef svo að hvaða leyti.“ Ákvörðun þess hvort skattskylda sé fyrir hendi samkvæmt framansögðu fer eftir mati hverju sinni og getur tekið breytingum ár frá ári þrátt fyrir að um sama aðila sé að ræða allt eftir því hvernig starfsemin þróast. Beiðnin er þannig ekki nægjanlega afmörkuð til að ríkisskattstjóra sé unnt að láta uppi álit sitt um efnisatriði umfram það sem gert er hér að framan, þ.e. varðandi það hvort félagið teljist bera ótakmarkaða skattskyldu hérlendis miðað við gefnar forsendur. Ekki er unnt að gefa bindandi álit í eitt skipti fyrir öll um það hvort tiltekinn erlendur aðili teljist almennt skattskyldur samkvæmt ákvæðum íslenskra skattalaga með þeim hætti sem gert er í álitsbeiðni. Þeim þætti álitsbeiðninnar er því vísað frá.

Í ákvörðun ríkisskattstjóra um frávísun á beiðni um bindandi álit er að finna eftirfarandi umfjöllun vegna þeirra álitaefna sem sett eru fram í þriðja og fjórða tölulið í álitsbeiðni:

„Samkvæmt 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, skal maður er vinnur við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, telja sér til tekna eigi lægra endurgjald fyrir starf sitt og hefði hann innt það af hendi fyrir óskyldan eða ótengdan aðila. Í 1. mgr. 58. gr. laganna, eins og henni var breytt með 10. gr. laga nr. 128/2009, um tekjuöflun ríkisins, kemur fram að ríkisskattstjóri setji árlega við upphaf tekjuárs reglur um reiknað endurgjald og birti þær að fenginni staðfestingu fjármálaráðherra. Samkvæmt 4. mgr. 58. gr. laga nr. 90/2003 skulu ákvæði 1. og 2. mgr. greinarinnar gilda um starf á vegum lögaðila, enda vinni maður við atvinnurekstur lögaðila þar sem hann, maki hans, barn eða nákomnir ættingjar eða venslamenn hafa ráðandi stöðu vegna eignar- eða stjórnunaraðildar. Samkvæmt framansögðu er skylda manna til að reikna sér endurgjald ekki bundin við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, heldur tekur hún jafnframt til vinnu manna við atvinnurekstur eða starfsemi, sem rekin er í sameign með öðrum og einnig um vinnu manns við atvinnurekstur lögaðila þar sem hann er ráðandi aðili vegna eignar- eða stjórnunaraðildar. Í viðmiðunarreglum um reiknað endurgjald eru settar fram lágmarksviðmiðanir fyrir reiknað endurgjald eftir starfaflokkum þar sem tekið er mið af almennum taxtalaunum í viðkomandi atvinnugrein. Eðli máls samkvæmt gilda reglur um reiknað endurgjald um menn sem starfa við sjálfstæða starfsemi og heimilisfastir eru á Íslandi og þá menn sem starfa fyrir félag sem telst eiga hér heimili samkvæmt 2. gr. laga nr. 90/2003. Starfi maður erlendis á vegum félags sem ekki telst eiga hér heimili eiga framangreindar reglur ekki við. Líkt og hér að framan er rakið nægja upplýsingar í álitsbeiðni ekki til þess að unnt sé að ákvarða hvort félagið sem álitsbeiðandi hyggst setja á stofn erlendis, teljist eiga hér heimili samkvæmt 2. gr. laga nr. 90/2003. Eru því ekki fyrir hendi forsendur til að svara því hvort reglur laga um reiknað endurgjald gildi um vinnusamband álitsbeiðanda og umrædds félags.

Með 3. gr. laga nr. 128/2009, um tekjuöflun ríkisins, var nýjum málslið bætt við 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003, svohljóðandi:

„Hjá þeim skattaðilum sem skylt er að reikna sér endurgjald skv. 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. skal telja til tekna sem laun skv. 1. tölul. A-liðar 7. gr. 50% af heimilum úthlutuðum arði samkvæmt lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög, að því marki sem heimil arðsúthlutun félagsins er samtals umfram 20% af skattalega bókfærðu eigin fé þess í árslok viðmiðunarárs.“

Samkvæmt skýru orðalagi ákvæðisins er ljóst að reglan á eingöngu við sé skattaðila skylt að reikna sér endurgjald samkvæmt lögum nr. 90/2003, en líkt og hér að framan greinir skortir þær upplýsingar í álitsbeiðni sem nauðsynlegar eru til þess að leggja mat á það hvort sú skylda muni verða fyrir hendi.“

Með vísan til þeirra forsendna sem álit þetta byggir á, þ.e. að álitsbeiðandi muni starfa erlendis á vegum erlends félags, ber álitsbeiðanda ekki skylda til að reikna sér endurgjald samkvæmt 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, vegna starfa á vegum félagsins. Af því leiðir að sú skylda sem sett er fram í 1. mgr. 11. gr. laganna, hvílir ekki á álitsbeiðanda.

Það einkennir bindandi álit að þar er veitt rökstutt álit á skattalegum afleiðingum á tilteknum fyrirætluðum ráðstöfunum skattaðila þar sem málsatvik eru með rökstuddum hætti heimfærð til viðeigandi ákvæða skattalaga. Þrátt fyrir að slík úrlausn ríkisskattstjóra kalli á túlkun á gildandi lögum og reglugerðum felur það ekki í sér að ríkisskattstjóri veiti sjálfstætt bindandi álit um túlkun einstakra lagagreina eða orðasambanda og hugtaka sem í ákvæðunum greinir, líkt og farið er fram á í fimmtu og síðustu spurningu sem sett er fram í álitsbeiðninni. Bindandi álit er annars eðlis og til viðbótar við aðra upplýsingagjöf innan skattkerfisins. Þessum þætti álitsbeiðninnar er því vísað frá.

Álitsorð:

Álit þetta miðast við fram færðar forsendur og að áform álitsbeiðanda gangi eftir með þeim hætti sem fram kemur í málavaxtalýsingu álitsbeiðnar.

  • Beiðni um bindandi álit á skattlagningu hérlendis vegna launa vegna vinnu erlendis á vegum erlends félags er vísað frá.
  • Hið óstofnaða félag ber ekki ótakmarkaða skattskyldu á Íslandi, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. og 2. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Beiðni um bindandi álit varðandi það hvort félagið sé að öðru leyti selt undir íslensk skattalög er vísað frá.
  • Reglur um reiknað endurgjald eiga ekki við um hið fyrirhugaða vinnusamband álitsbeiðandans ESH við hið óstofnaða félag.
  • Ekki ber að telja til tekna sem laun 50% af úthlutuðum arði hins óstofnaða erlenda félags.
  • Beiðni um bindandi álit á því hver sé merkingarmunur á „heimilum úthlutuðum arði“ hins erlenda félags og úthlutuðum arði þess er vísað frá.

Kæruréttur:

Athygli er vakin á því að frávísun ríkisskattstjóra á þeim álitaefnum sem sett eru fram í 1., 2. og 5. tölulið í álitsbeiðni sætir ekki kæru til yfirskattanefndar.

Bindandi álit þetta er kæranlegt til yfirskattanefndar samkvæmt ákvæði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum. Kærufrestur er þrír mánuðir frá póstlagningardegi álitsins sem fram kemur í dagsetningu bréfs þessa. Kæra skal vera skrifleg. Skal koma fram í henni hvaða atriði álitsins sæta kæru og rökstuðningur fyrir kröfum. Frumrit eða endurrit hins kærða álits skal fylgja kæru, sem og þau gögn sem ætluð eru til stuðnings henni.

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum