Bindandi álit

Bindandi álit nr. 7/05

15.9.2005

15. september 2005
Bál 07/2005

Tilefni:

Með bréfi umboðsmanns álitsbeiðanda dagsettu 12. júlí 2005 er óskað bindandi álits ríkisskattstjóra. Í álitsbeiðninni er frá því greint að álitsbeiðandi hyggist, ásamt A fjárfestingafélagi ehf., stofna eignarhaldsfélag í formi hlutafélags eða einkahlutafélags og leggja fram sem greiðslu hlutafjár í því félagi, hlutabréf sín í X hf. (hér eftir nefnt X). Við þá afhendingu hlutabréfa í X muni myndast mjög mikill skattskyldur söluhagnaður. Álitaefnið er afmarkað við skattalega meðferð þess hagnaðar.

Ríkisskattstjóri telur að fullnægt sé skilyrðum laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum, fyrir því að hann gefi bindandi álit sitt af þessu tilefni.

Málavextir.

Í álitsbeiðni er greint frá eignatengslum álitsbeiðanda og A fjárfestingafélags, tilurð félaganna og eignarhlutdeild þeirra í X. Þá er greint frá því, að tilgangur með hinni fyrirhuguðu ráðstöfun sé að koma á eina hönd hlutabréfum beggja félaganna í X, til samræmis við viðhorf Fjármálaeftirlits og Kauphallar Íslands til samanlagðs eignarhalds þeirra á hlutabréfunum.

Tiltekið er að álitsbeiðandi hafi alla tíð aflað hlutabréfa einungis til langtímafjárfestingar. Hann hafi síðast keypt hlutabréf á árinu 2003 og síðast selt hlutabréf á árinu 2002. Hluta umræddra hlutabréf í X hafi álitsbeiðandi átt frá á árinu 1984, en aukið hlut sinn með kaupum á árinu 2002 og með samruna við nafngreind systur- og dótturfélög á árinu 2004. Þá er tiltekið að álitsbeiðandi hafi allt frá stofnun hagað skattskilum sínum, að því er hlutabréfaviðskipti varðar, í samræmi við núgildandi ákvæði 18. gr. laga nr. 90/2003. Ennfremur er tiltekið að meginþorri tekna álitsbeiðanda séu arðstekjur.

Með vísan til 5. mgr. 18. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, telur álitsbeiðandi sér heimilt að "fresta tekjufærslu söluhagnaðar hlutabréfanna og færa hann til lækkunar á stofnverði hlutabréfa í eignarhaldsfélaginu sem kaupa mun umrædd hlutabréf". Óskar álitsbeiðandi staðfestingar ríkisskattstjóra á að honum sé sú skattalega ráðstöfun heimil, en að honum beri ekki að beita þeirri uppgjörsaðferð sem í bindandi áliti ríkisskattstjóra nr. 2000-013 er þannig lýst:

"Ríkisskattstjóri telur að líta megi á að almennar reglur um söluhagnað og sölutap hlutabréfa gildi ekki hjá félögum sem hafa það að markmiði sínu að kaupa og selja hlutabréf. Þessir aðilar geti gert kaup og sölu upp á sama hátt og verslunarfyrirtæki þ.e.a.s. reiknað eins konar "vörunotkun" sem mismun á hlutabréfaeign í ársbyrjun, keyptum hlutabréfum á árinu og hlutabréfaeign í árslok. Í þessu tilviki væri mat hlutabréfanna til eignar í samræmi við kaupverð eða skráð verð í árslok. Á þennan hátt myndi tap færast til gjalda og hagnaður til tekna."

Álitaefni.

Óskað er staðfestingar ríkisskattstjóra á því, að álitsbeiðanda sé heimilt að fresta tekjufærslu söluhagnaðar sem myndast mun við afhendingu hlutabréfa í X hf., sem greiðslu hlutafjár í félagi sem fyrirhugað er stofna, með því að færa hagnaðinn til lækkunar á stofnverði hluta í því félagi.

Forsendur og niðurstöður:

Meginreglur um skattlagningu hagnaðar af sölu hlutabréfa er að finna í 18. gr. laga nr. 90/2003. Það frávik frá þeim reglum, sem fjallað er um í tilvitnuðu bindandi áliti ríkisskattstjóra nr. 2000-013 og lýst er málavaxtalýsingu hér að framan, tekur ekki til annarra atvika en þar greinir. Miðað við málavaxtalýsingu í álitsbeiðni tekur frávikið ekki til álitsbeiðanda vegna þeirra viðskipta sem leitað er álits um. Álitsbeiðanda ber því að haga skattuppgjöri sínu vegna fyrirhugaðra ráðstafana á hlutabréfum sínum í X í samræmi við ákvæði 18. gr. laga nr. 90/2003. Honum er jafnframt heimilt, á grundvelli 5. tölul. þeirrar lagagreinar, að fresta tekjufærslu hagnaðar er myndast mun við þá ráðstöfun og færa hann til lækkunar á stofnverði hluta sinna í því félagi, sem fyrirhugað er að hann taki þátt í að stofna með áðurnefndum hætti.

Bindandi álit ríkisskattstjóra:

Eftirfarandi álit ríkisskattstjóra miðast við fram færðar forsendur og að áform álitsbeiðanda gangi eftir svo sem þeim er lýst hér að framan.

Álitsbeiðanda er á grundvelli 5. mgr. 18. gr. laga nr. 90/2003 heimilt að fresta tekjufærslu söluhagnaðar sem myndast mun við afhendingu hlutabréfa í X hf., sem greiðslu hlutafjár í félagi sem fyrirhugað er stofna, með því að færa hagnaðinn til lækkunar á stofnverði hluta í því félagi.

Kæruréttur:

Bindandi álit þetta er kæranlegt til yfirskattanefndar samkvæmt ákvæði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum. Kærufrestur er þrír mánuðir frá póstlagningardegi álitsins sem fram kemur í dagsetningu bréfs þessa. Kæra skal vera skrifleg. Skal koma fram í henni hvaða atriði álitsins sæta kæru og rökstuðningur fyrir kröfum. Frumrit eða endurrit hins kærða álits skal fylgja kæru, svo og þau gögn sem ætluð eru til stuðnings kærunni.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum