Bindandi álit

Bindandi álit nr. 6/05

8.9.2005

8. september 2005 Bál 06/2005

Tilefni:

Í álitsbeiðni er frá því greint að skattskyldur söluhagnaður hafi myndast við sölu fullvirðisréttar (mjólkurkvóta) búsins í A fyrr á yfirstandandi ári. Þá kemur fram að fyrirhugað sé að verja þeim hagnaði til fjárfestingar í hlutum í einkahlutafélaginu B ehf. Af álitsbeiðninni er ljóst að álitsbeiðandi, ábúandi á A, hefur verulega hagsmuni af því að fá álit ríkisskattstjóra varðandi heimildir til skattalegra ráðstafana í kjölfar fyrirhugaðrar fjárfestingar.

Ríkisskattstjóri telur að fullnægt sé skilyrðum laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum, fyrir því að hann gefi bindandi álit sitt af þessu tilefni.

Málavextir.

Beiðni um bindandi álit var sett fram í bréfi umboðsmanns álitsbeiðanda dagsettu 30. júní 2005. Í beiðninni kemur fram að snemma á árinu 2005 hafi búið í A, sem rekið er á kennitölu ábúenda, selt mjólkurkvóta að verðmæti kr. 60.000.000. Frá því er greint að á bújörðinni A sé einnig rekið einkahlutafélagið B ehf., sem sé í eigu ábúanda í A. B ehf. framleiði raforku og leigi jarðnæði af A.

Álitsbeiðandi setur fram þá skoðun sína að starfsemi B ehf. byggi alfarið á afnotum fasteigna bújarðarinnar. Um sé að ræða nýja búgrein á jörðinni, sem fyrirhugaðri fjárfestingu sé ætlað að efla. Þá kemur fram sú skoðun álitsbeiðanda að með fyrirhugaðri fjárfestingu séu uppfyllt skilyrði 4. mgr. 15. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, fyrir frestun skattlagningar umrædds hagnaðar af sölu fullvirðisréttar. Vísar álitsbeiðandi í því sambandi til leiðbeininga ríkisskattstjóra með landbúnaðarframtali og til skilgreiningar á hugtakinu "fasteign" í orðabók Menningarsjóðs. Ennfremur kemur fram að "álitsbeiðandi telur að ekki eigi að skipta máli varðandi endurfjárfestingarheimild sína hvort hann fjárfestir í félagi er stundar eingöngu starfsemi er fullnægir framangreindum skilyrðum ríkisskattstjóra um ráðstöfun söluhagnaðar vegna sölu greiðslumarks eða hvort fjárfest er beint í slíkri nýtingu fasteigna án milligöngu félags."

Ljóst þykir að með fullvirðisrétti (mjólkurkvóta) sé í álitsbeiðni átt við þann rétt til beingreiðslna úr ríkissjóði vegna framleiðslu tiltekins magns mjólkur, sem nefndur er greiðslumark í lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu búvöru.

Álitaefni.

Álitsbeiðni snýr að því álitaefni:

Hvort álitsbeiðanda verði heimilt í skattskilum sínum að lækka stofnverð fyrirhugaðs aukins eignarhluta síns í B ehf. sem nemur hagnaði hans af sölu greiðslumarks mjólkur.

Forsendur og niðurstöður:

Um skattlagningu söluhagnaðar greiðslumarks mjólkur fer eftir ákvæðum 15. gr. laga nr. 90/2003. Í 1. mgr. 15. gr. er kveðið á um að hagnaður af sölu fasteigna, sem ekki er heimilt að fyrna skv. 33. gr. sömu laga, þar með talin ófyrnanleg mannvirki, lönd, lóðir, ófyrnanleg náttúruauðæfi og réttindi tengd þessum eignum, svo sem lóðarréttindi, teljist að fullu til skattskyldra tekna á söluári og skiptir ekki máli hve lengi skattaðili hefur átt hina seldu eign. Samkvæmt 4. mgr. 15. gr. laga nr. 90/2003, getur skattaðili farið fram á frestun skattlagningar söluhagnaðar af landi bújarða og ófyrnanlegum náttúruauðæfum á bújörðum um tvenn áramót frá söludegi, enda afli hann sér sams konar eignar eða íbúðarhúsnæðis til eigin nota í stað hinnar seldu innan þess tíma og færist þá söluhagnaðurinn til lækkunar stofnverði hinnar nýju eignar. Nemi stofnverð hinnar nýju eignar lægri fjárhæð en söluhagnaðinum nemur telst mismunurinn til skattskyldra tekna. Þessi meðferð söluhagnaðar er því aðeins heimil að seljandi hafi haft búrekstur á hinni seldu eign að aðalstarfi í a.m.k. fimm ár á síðastliðnum átta árum næst á undan söludegi og stundi búrekstur á sama hátt á hinni keyptu bújörð eða noti hið keypta húsnæði fyrir eigin íbúð í a.m.k. tvö ár eftir kaupdag. Ef þessum skilyrðum er ekki fullnægt telst söluhagnaðurinn með skattskyldum tekjum þess árs þegar skilyrðið er rofið, að viðbættu 10% álagi. Frestun tekjufærslu kemur því aðeins til greina að yfirfæranleg rekstrartöp hafi verið jöfnuð.

Í skattframkvæmd hefur verið litið svo á að framangreind ákvæði 15. gr. laga nr. 90/2003 taki til sölu á greiðslumarki í landbúnaði og að bændum sé meðal annars heimilt að lækka stofnverð keypts greiðslumarks um söluhagnað af seldu greiðslumarki, að uppfylltum öðrum skilyrðum 4. mgr. 15. gr. Kemur sú afstaða skattyfirvalda m.a. fram í leiðbeiningum ríkisskattstjóra til útfyllingar á landbúnaðarframtali (RSK 8.10) framtalsárið 2005. Á síðu 12 í leiðbeiningunum kemur eftirfarandi fram um meðferð söluhagnaðar ófyrnanlegra eigna og upptöku nýrra búgreina:

"Upptaka nýrra búgreina

Litið hefur verið svo á að beita megi lögjöfnun hvað varðar ráðstöfun söluhagnaðar vegna sölu greiðslumarks þannig að þeim bændum sé heimilt að lækka stofnverð nýrra eigna vegna upptöku nýrra búgreina á viðkomandi bújörð, þó þannig að hin nýja búgrein sé rekin á bújörðinni og tengist afnotum fasteigna á henni. Með nýrri búgrein er átt við atvinnugrein sem útheimtir afnot fasteignar á bújörðum en ekki þær atvinnugreinar sem er stjórnað frá bújörðinni s.s. rekstur vélknúinna tækja og bifreiða eða vinnuvéla."

Eignarhlutur í einkahlutafélagi telst ekki til eigna af þeim toga sem um ræðir í 4. mgr. 15. gr. laga nr. 50/2003. Hvorki ákvæði 4. mgr. 15. gr. laga nr. 90/2003, né önnur ákvæði þeirra laga, hafa að geyma heimild til frestunar á skattlagningu hagnaðar af sölu greiðslumarks mjólkur með þeim hætti að fært sé niður stofnverð eignarhluta í einkahlutafélagi. Skiptir í því sambandi engu máli með hvaða hætti einkahlutafélagið kann að ráðstafa fé sínu. Þá er heimildin í 4. mgr. 15. gr. bundin við niðurfærslu stofnverðs nýrra eigna þess sem skattskyldur er af söluhagnaði. Ákvæðið heimilar því ekki frestun skattlagningar á söluhagnaði manns með niðurfærslu eigna einkahlutafélags. Í því sambandi skiptir hvorki máli hverjar eignir einkahlutafélags kunna að vera, né hvernig eignarhaldi á félaginu kunni að vera háttað.

Bindandi álit ríkisskattstjóra:

Álit ríkisskattstjóra miðað við fyrirliggjandi forsendur er eftirfarandi:

Að álitsbeiðanda sé ekki heimilt að fresta skattlagningu hagnaðar af sölu greiðslumarks mjólkur með niðurfærslu stofnverðs eignarhluta í B ehf.

Kæruréttur:

Bindandi álit þetta er kæranlegt til yfirskattanefndar samkvæmt ákvæði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum. Kærufrestur er þrír mánuðir frá póstlagningardegi álitsins, sem fram kemur í dagsetningu bréfs þessa. Kæra skal vera skrifleg. Skal koma fram í henni hvaða atriði álitsins sæta kæru og rökstuðningur fyrir kröfum. Frumrit eða endurrit hins kærða álits skal fylgja kæru, svo og þau gögn sem ætluð eru til stuðnings kærunni.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum