Bindandi álit

Bindandi álit nr. 1/05

2.2.2005

2. febrúar nr. 1/05

Tilefni:
Með bréfi, dags. 23. nóvember 2004 er farið fram á að ríkisskattstjóri veiti bindandi álit um það hvernig skattaleg meðhöndlun tryggðakerfis X ehf. muni verða hjá skattyfirvöldum, þ.á.m. álits á skattfrelsi þeirra peningapunkta sem greiddir verða R, framkvæmdastjóra Z ehf. Einnig er óskað álits á því hvort X ehf. teljist heimilt að gjaldfæra peningapunktana í bókhaldi sínu, þannig að frádráttarbært sé frá skattskyldum hagnaði. Ríkisskattstjóri hefur yfirfarið beiðnina og telur að fullnægt sé skilyrðum laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum, fyrir því að ríkisskattstjóri gefi bindandi álit sitt um álitaefnið.

Málavextir.
Umboðsmaður X ehf. hafði áður sent ríkisskattstjóra beiðni um bindandi álit, dags. 7. október 2004, um sama álitaefni en þeirri beiðni var vísað frá með bréfi ríkisskattstjóra dags. 25. október 2004. Í beiðninni sem dagsett er 23. nóvember 2004 og hér er til umfjöllunar er vísað til fyrri beiðnarinnar hvað málavexti varðar. Í beiðninni sem dagsett er 7. október 2004 kemur m.a. eftirfarandi fram um tryggðakerfi X ehf:

"Rétt þykir í upphafi að fara örfáum orðum um starfsemi umbjóðanda míns. Í starfsemi hans felst að félagið býður greiðsluviðtakendum kreditkorta hér á landi milligöngu um greiðslu á úttektum samkvæmt kortanótum örfáum dögum eftir að viðskiptin eiga sér stað. Hefur það ótvíræða kosti í för með sér fyrir greiðsluviðtakendur, þar sem þeir fá ekki úttektir kreditkorta greiddar ella fyrr en 15 til 45 dögum eftir úttekt.

Einn liður í starfsemi kreditkortafyrirtækjanna hér á landi er innheimta kreditkortafærslna og hafa þau verið einráð á þeim markaði þar til umbjóðandi minn hóf starfsemi sína.

Umbjóðandi minn hefur þegar náð samningum við fjölmarga aðila hér á landi um framangreinda innheimtu á greiðslukortafærslum. Ferill þeirrar innheimtu er sá, að umbjóðandi minn sendir kreditkortafærslur frá viðkomandi aðilum til fyrirtækisins Þ A/S í Danmörku, en Þ er í sameign danskra banka og hefur sinnt greiðslumiðlun fyrir dönsku bankana frá árinu 1971. Þ sér síðan um uppgjör á kreditkortafærslum sem skila sér til viðkomandi söluaðila, sem eru viðsemjendur umbjóðanda míns, um 2 virkum dögum eftir að viðskiptin eiga sér stað.

II.
Fyrirhugað tryggðarkerfi umbjóðanda míns byggist á því að forstöðumenn söluaðila sem gera samning við umbjóðanda minn, og samstarfsaðila hans, Þ, fá hlutfall af kreditkortaþóknun söluaðilans með því að eignast svonefnda peningapunkta. Peningapunktana geta umræddir aðilar fengið greidda hvert sem er og verða punktarnir greiddir út í peningum samkvæmt tilvísun þess sem þeirra nýtur. Söluaðilarnir (lögaðilarnir) sjálfir geta ekki safnað peningapunktum, heldur einungis þeir forsvarsmenn eða starfsmenn sem söluaðilarnir tilgreina."

Fyrirkomulagið mun nánar tiltekið verða eftirfarandi: Kreditkortaþóknun söluaðila til umbjóðanda míns verður dregin af söluaðila að fullu, hún gjaldfærð hjá söluaðila og tekjufærð hjá umbjóðanda mínum. Umbjóðandi minn gjaldfærir síðan hjá sér peningapunktana sem forsvarsmenn / starfsmenn söluaðila ávinna sér. Peningapunktarnir verða síðan greiddir til umræddra einstaklinga til frjálsrar ráðstöfunar."

Í erindinu sem dagsett er 23. nóvember 2004 er þess óskað að álit ríkisskattstjóra taki til skattalegra hagsmuna R þar sem hún komi til með að njóta peningapunkta úr tryggðakerfi X ehf. sem framkvæmdastjóri Z ehf. Með erindinu fylgir staðfesting R á þessu, dags. 11. nóvember 2004. Þá segir í lok erindisins:

"Með vísan til framangreinds og 1. gr. laga nr. 91/1998 um bindandi álit í skattamálum er óskað bindandi álits á því hvernig skattaleg meðhöndlun Tryggðakerfis X ehf. muni verða hjá skattyfirvöldum, þ.á.m. álits á skattfrelsi þeirra peningapunkta sem greiddir verða R, framkvæmdastjóra Z ehf., sem er fyrirsvarsmaður söluaðila í því samhengi. Í því sambandi er óskað álits á því hvort X ehf. teljist heimilt að gjaldfæra peningapunktana í bókhaldi sínu, þannig að frádráttarbært sé frá skattskyldum hagnaði."

Forsendur og niðurstöður:
Ríkisskattstjóri lítur svo á að beiðnin varði tvö álitaefni þ.e. annars vegar hvort X ehf. sé heimilt að gjaldfæra í bókhaldi sínu þær kröfur á hendur X ehf. sem í álitsbeiðni eru nefndar peningapunktar og hins vegar hvort slíkar kröfur séu skattfrjálsar í hendi R. Hvað fyrra álitaefni varðar þá verður af málavaxtalýsingu í álitsbeiðni ráðið að X ehf. muni með samningi við söluaðila (í umspurðu tilviki Z ehf.) skuldbinda sig til greiðslu fjárkröfu þeirrar sem nefnd er peningapunktar. Krafan telst sem slík vera útgjöld til öflunar tekna í atvinnurekstri og frádráttarbær frá atvinnurekstrartekjum á grundvelli 1. tölul. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt. Verður þá vikið að hinu síðara álitaefni. Af málavaxtalýsingu verður ráðið að X ehf. mun gera samninga við söluaðila um milligöngu um greiðslu á úttektum samkvæmt kreditkortanótum. Tryggðakerfið byggist á því að forstöðumenn eða aðrir starfsmenn söluaðila öðlist kröfu, svonefnda peningapunkta. Peningapunktarnir verða greiddir þeim einstaklingum til frjálsrar ráðstöfunar. Í málavaxtalýsingunni kemur skýrt fram að það er í hendi söluaðila að útnefna þann starfsmann sem peningapunktana mun hljóta og að peningapunktarnir eru greiðsla sem byggir alfarið á samningi X ehf. við söluaðila, enda hlutfall af kreditkortaþóknun söluaðilans. Með hliðsjón af því verður ekki annað ráðið en að peningapunktarnir séu í reynd endurgjald fyrir vinnu starfsmannsins í þágu söluaðila. Slíkt endurgjald telst til skattskyldra tekna skv. 1. mgr. A liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, sem kveður á um að til skattskyldra tekna teljist endurgjald fyrir hvers konar vinnu, starf eða þjónustu, án tillits til viðmiðunar, sem innt er af hendi fyrir annan aðila. Um skattskyld laun er því að ræða sem launagreiðanda (söluaðila) ber að halda eftir af staðgreiðslu sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda og greiða af tryggingargjald sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 113/1990, um tryggingargjald.

Bindandi álit ríkisskattstjóra:
Miðað við fyrirliggjandi forsendur og ákvæði tilvitnaðra lagagreina álítur ríkisskattstjóri að krafa R á hendur X ehf. sem nefnd er peningapunktar og grundvallast á fyrirhuguðum samningi X ehf. og Z ehf. sé frádráttarbær frá tekjum X ehf. á grundvelli 1. tölul. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt. Jafnframt álítur ríkisskattstjóri að krafan (peningapunktarnir) séu skattskyldar tekjur í hendi R, sem starfsmanns Z ehf., á grundvelli 1. mgr. A liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt.

Kæruréttur:
Bindandi álit þetta er kæranlegt til yfirskattanefndar samkvæmt ákvæði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum. Kærufrestur er þrír mánuðir frá póstlagningardegi álitsins, sem fram kemur í dagsetningu bréfs þessa. Kæra skal vera skrifleg. Skal koma fram í henni hvaða atriði álitsins sæta kæru og rökstuðningur fyrir kröfum. Frumrit eða endurrit hins kærða álits skal fylgja kæru, svo og þau gögn sem ætluð eru kæru til stuðnings.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum