Bindandi álit

Bindandi álit nr 1/02

8.1.2002

8. janúar 2002 Bál 01/2002

Álitsbeiðandi:

Álitsbeiðandi er A A/S. Beiðnin er borin upp af R hf. og er hún undirrituð af S.

Álitsbeiðni:

Beiðni um bindandi álit er sett fram í bréfi dagsettu 8. nóvember 2001, sem móttekið var af ríkisskattstjóra 13. dag sama mánaðar. Í bréfinu er frá því greint að lyfjafyrirtækið A A/S hyggist setja á fót útibú hér á landi. Starfsemi útibúsins muni felast í markaðssetningu og kynningu á vörum fyrirtækisins, tengslum við íslensk heilbrigðisyfirvöld og íslensk rannsóknarfyrirtæki og annarri aðstoðarstarfsemi fyrir fyrirtækið. Frá því er greint að X muni annast dreifingu og heildsölu á Íslandi á vörum félagsins. Leitað er bindandi álits ríkisskattstjóra á eftirfarandi tveimur spurningum:

  1. Er starfsemi útibús A á Íslandi virðisaukaskattsskyld og fæst útibúið skráð á virðisaukaskattsskrá?
  2. Ef eigi verður talið að starfsemi útibús A á Íslandi sé virðisaukaskattsskyld getur hið danska félag sótt um endurgreiðslu virðisaukaskatts á grundvelli reglugerðar nr. 288/1995, um endurgreiðslu virðisaukaskatts til erlendra aðila?

Í bréfi dagsettu 10. desember 2001 krafði ríkisskattstjóri umboðsmann álitsbeiðanda svara við þeim spurningum; hvort fyrirhugað væri að hið erlenda félag seldi frá útibúi sínu hér á landi vörur eða þjónustu og hvort skilja bæri atvikalýsingu í álitsbeiðni á þann veg að fyrirhugað væri að X hf. keypti vörur félagsins að utan, þannig að þær yrðu tollafgreiddar inn í landið í nafni X. Í bréfi dagsettu 14. desember eru veitt svohljóðandi svör: Útibú hins erlenda félags mun hvorki selja vörur né þjónustu hér á landi. X kaupir vörur félagsins að utan og verða þær tollafgreiddar inn í landið í nafni X.

Forsendur og niðurstöður:

Samkvæmt upphafsákvæði laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, skal greiða í ríkissjóð virðisaukaskatt af viðskiptum innan lands á öllum stigum, svo og af innflutningi vöru og þjónustu, eins og nánar er kveðið á um í lögunum. Meginreglan varðandi það hverjir eru virðisaukaskattsskyldir kemur fram í 1. tl. 1. mgr. 3. gr.laganna, þar sem kveðið er á um að skylda til að innheimta virðisaukaskatt og standa skil á honum í ríkissjóð hvíli á þeim sem í atvinnuskyni eða sjálfstæðri starfsemi sinni selja eða afhenda vörur eða verðmæti ellegar inna af hendi skattskylda vinnu eða þjónustu. Miðað við þá gefnu forsendu, að álitsbeiðandi muni ekki selja frá útibúi sínu á Íslandi vörur, verðmæti, vinnu eða þjónustu, felast í starfsemi félagsins hér á landi ekki viðskipti sem því ber að innheimta virðisaukaskatt af.

Samkvæmt 5. gr. laga nr. 50/1988 skal á grunnskrá virðisaukaskatts (skrá yfir virðisaukaskattsskylda aðila) ekki skrá aðra en þá sem á hvílir skylda til að innheimta virðisaukaskatt af viðskiptum sínum og standa skil á honum í ríkissjóð. Í 5. mgr. 5. gr. er sérstaklega kveðið á um að eigi skuli skrá aðila ef samanlagðar tekur hans af sölu skattskyldrar vöru og þjónustu eru að jafnaði lægri en kostnaður við aðföng sem keypt eru með virðisaukaskatti til starfseminnar. Þar sem álitsbeiðandi mun ekki stunda viðskipti hér á landi, sem honum ber að innheimta virðisaukaskatt af, hvílir hvorki á honum skylda til að tilkynna sig til skráningar á grunnskrá virðisaukaskatts né á hann rétt á slíkri skráningu.

Reglugerð nr. 288/1995, um endurgreiðslu virðisaukaskatts til erlendra fyrirtækja, er sett samkvæmt heimild í 3. mgr. 43. gr. laga nr. 50/1988 með síðari breytingum. Kveðið er á um gildissvið reglugerðarinnar í 1. gr.hennar. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. geta eftir ákvæðum reglugerðarinnar erlend fyrirtæki fengið endurgreiddan þann virðisaukaskatt sem þau hafa greitt hér á landi vegna kaupa á vörum og þjónustu til atvinnustarfsemi sinnar. Í 2. mgr. 1. gr. er kveðið á um að það teljist erlent fyrirtæki í skilningi reglugerðarinnar þegar aðili hefur hvorki búsetu né starfsstöð hér á landi. Ákvæði 3. mgr. 43. gr. laganna var búið í núverandi búning með 8. gr. laga nr. 40/1995, um breyting á lögum nr. 50/1988, og hljóðar svo: „Fjármálaráðherra er heimilt með reglugerð að setja reglur um endurgreiðslu virðisaukaskatts sem erlend fyrirtæki hafa greitt hérlendis við kaup á vörum eða þjónustu. Endurgreiðsla samkvæmt þessari málsgrein getur eingöngu tekið til virðisaukaskatts af þeim aðföngum sem virðisaukaskattsskyldir aðilar geta talið til innskatts, sbr. 15. og 16.gr. Í athugasemdum við frumvarp það er varð að lögum nr. 40/1995 segir um þetta ákvæði m.a.: „Með ákvæðinu er heimilt að setja reglur um endurgreiðslu á virðisaukaskatti til erlendra fyrirtækja sem hafa ekki með höndum skattskyld viðskipti hér á landi en kaupa hér einhverja þjónustu eða vöru með virðisaukaskatti. Litið er til þess að ef fyrirtækin væru virðisaukaskattsskyld hér á landi gætu þau talið virðisaukaskatt af aðkeyptum aðföngum til innskatts.“ Í ljósi þessara athugasemda þykir verða að skýra hugtakið starfsstöð í 2. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar nr. 288/1995 á þann veg, að því aðeins teljist erlent félag eiga starfsstöð hér á landi að það eigi hér viðskipti sem hafa í för með sér virðisaukaskatts- og skráningarskyldu. Það er því álit ríkisskattstjóra að fyrirhuguð starfsemi útibús álitsbeiðanda hér á landi, eins og henni er lýst í álitsbeiðni, girði ekki fyrir rétt álitsbeiðanda, sem erlendis búsetts fyrirtækis, til endurgreiðslu virðisaukaskatts á grundvelli reglugerðar nr. 288/1995.

Bindandi álit ríkisskattstjóra.

Bindandi álit þetta er látið uppi á grundvelli laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum. Álitið miðast við þá atvikalýsingu sem fram kemur í álitsbeiðni dagsettri 8. nóvember sl. og í svarbréfi dagsettu 14. desember sl. við áskorun ríkisskattstjóra um fyllri upplýsingar.

Ríkisskattstjóri álítur að fyrirhuguð starfsemi útibús álitsbeiðanda hér á landi hafi hvorki í för með sér virðisaukaskattsskyldu skv. 3. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, né rétt til skráningar á grunnskrá virðisaukaskatts á grundvelli 5. gr. sömu laga. Þá lítur ríkisskattstjóri svo á að hin fyrirhugaða starfsemi útibúsins hér á landi girði ekki fyrir rétt álitsbeiðanda til endurgreiðslu virðisaukaskatts á grundvelli reglugerðar nr. 288/1995, um endurgreiðslu virðisaukaskatts til erlendra aðila.

Kæruréttur.

Athygli er vakin á því að bindandi álit þetta er kæranlegt til yfirskattanefndar. Kærufrestur er þrír mánuðir frá póstlagningardegi álitsins, sem fram kemur í dagsetningu þess. Kæra skal vera skrifleg. Í henni skal koma fram hvaða atriði álitsins sæta kæru og rökstuðningur fyrir kröfum. Kæru skal fylgja frumrit eða endurrit hins kærða álits. Jafnframt skulu fylgja í frumriti eða endurriti þau gögn sem ætluð eru til stuðnings kærunni. Aðsetur yfirskattanefndar er í Borgartúni 21, 105 Reykjavík.

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum