Bindandi álit

Bindandi álit nr. 4/00

7.2.2000

7. febrúar 2000nr. 4/00

Tilefni:
Með bréfi, dagsettu 8. desember 1999, en mótteknu hjá ríkisskattstjóra þann 13. desember 1999, er farið fram á að ríkisskattstjóri gefi bindandi álit um ráðstöfun söluhagnaðar af hlutabréfum, sbr. 7. mgr. 17. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Málavextir:
Eftirfarandi málavaxtalýsing er byggð á þeim upplýsingum sem er að finna í beiðni yðar um bindandi álit.

Álitsbeiðandi mun hafa frestað tekjufærslu söluhagnaðar af sölu hlutabréfa um tvenn áramót frá söludegi, sbr. heimild í 7. mgr. 17. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Hann hefur nú hug á að nýta sér heimild nefnds ákvæðis til að kaupa aðra hluti í stað hinna seldu innan þess tíma og færa söluhagnaðinn til lækkunar kaupverði þeirra hluta. Í þessu skyni hyggst hann taka þátt í hlutafjáraukningu í einkahlutafélagi. Staða viðkomandi einkahlutafélags er slík að álitsbeiðandi mun þurfa að greiða fyrir hlutina hærra verð en nemur bókfærðu nafnverði þeirra.

Er þess farið á leit við embætti ríkisskattstjóra að gefið verði bindandi álit á því hvort:

  1. álitsbeiðandi megi nota heildarfjárhæð aukningarinnar, sem hann skrifar sig fyrir og greiðir, í ofangreindu skyni ?
  2. álitsbeiðandi megi nota heildarfjárhæð stofnhlutafjár, sem hann skrifar sig fyrir og greiðir, í ofangreindu skyni miðað við óbreyttar forsendur að öðru leyti ?

 

Forsendur og niðurstöður:
Eftirfarandi umfjöllun ríkisskattstjóra um þau álitaefni sem lögð hafa verið fram af umboðsmanni álitsbeiðanda fela í sér bindandi álit ríkisskattstjóra samkvæmt lögum nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum.

Samkvæmt 7. mgr. 17. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, er unnt að fara fram á frestun á tekjufærslu söluhagnaðar manns af sölu hlutabréfa um tvenn áramót frá söludegi að svo miklu leyti sem fjárhæð söluhagnaðarins er umfram tilteknar upphæðir (3.151.875 kr. hjá einstaklingum og 6.303.750 kr. hjá hjónum við álagningu 2000, sbr. bráðabirgðaákvæði VI, laga nr. 65/1997). Kaupi hann önnur hlutabréf í stað hinna seldu innan þess tíma færist söluhagnaðurinn til lækkunar á því kaupverði hinna nýju bréfa sem ákvörðun söluhagnaðar samkvæmt þessari grein miðast við. Nemi kaupverð hinna keyptu hlutabréfa lægri fjárhæð en söluhagnaðinum telst mismunurinn til skattskyldra tekna á kaupári hinna keyptu bréf.

Miðað við orðalag fyrrnefnds ákvæðis geta einstaklingar einungis frestað skattlagningu söluhagnaðar að því leyti sem hann er umfram það mark sem sett er með lögunum. Ef engin hlutabréfakaup eiga sér stað innan frestsins þá er söluhagnaðurinn tekjufærður og skattlagður á því ári sem hann myndaðist. Sé hins vegar keypt of lítið, skal tekjufæra og skattleggja mismuninn á því kaupári bréfanna. Samkvæmt áskilnaði laganna færist söluhagnaðurinn til lækkunar á kaupverði hinna nýju bréfa sem í tilviki álitsbeiðanda er annað en nafnverð. Miðað við fyrirliggjandi forsendur telur ríkisskattstjóri að álitsbeiðandi skuli miða við raunverulegt kaupverð þeirra hluta sem hann hyggst kaupa, enda sé um eðlilegt og raunverulegt verðmat þeirra hluta að ræða.

Rétt þykir þó að taka fram að álit þetta er gefið miðað við fyrirliggjandi forsendur. Jafnframt er vakin athygli á 1. mgr. 58. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, þar sem kveðið er á um að semji skattaðilar um skipti sín í fjármálum á hátt, sem er verulega frábrugðinn því sem almennt gerist í slíkum viðskiptum, skuli verðmæti, sem án slíkra saminga hefðu runnið til annars aðilans en gera það ekki vegna samningsins, teljast honum til tekna. Í 2. mgr. þessa sama ákvæðis kemur fram að kaupi skattaðili eign á óeðlilega háu verði eða selji eign á óeðlilega lágu verði geta skattyfirvöld metið hvað telja skuli eðlilegt kaup- eða söluverð. Mismun kaupverðs eða söluverðs annars vegar og matsverðs hins vegar skal telja til skattskyldra tekna hjá þeim aðila sem slíkra viðskipta nýtur.

Bindandi álit ríkisskattstjóra:
Ríkisskattstjóri telur að álitsbeiðandi skuli miða við kaupverð þeirra hluta sem hann hyggst kaupa þótt ekki sé um að ræða nafnverð hinna keyptu hluta.

Endurspegli kaupverð umræddra hluta ekki raunvirði þeirra telur ríkisskattstjóri að beita beri ákvæðum 58. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, við ákvörðun á skattlagningu söluhagnaðar álitsbeiðanda.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum