Bindandi álit

Bindandi álit nr. 14/99

9.12.1999

9. desember 1999 nr. 14/99

Tilefni:
Með bréfi, dags. 1. desember 1999, er farið fram á að ríkisskattstjóri gefi bindandi álit um skattalega meðferð söluhagnaðar af sölu hlutabréfa DF í móðurfélagi þess MF.

Málavextir:
Eftirfarandi málavaxtalýsing er byggð á þeim upplýsingum sem fram koma í beiðni yðar um bindandi álit.

Á árunum 1992 og 1993 eignaðist MF allt hlutafé í DF. Félög þessi eru skattlögð í samræmi við ákvæði 57. gr. B laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Árið 1997 eignaðist DF ehf. hlutabréf í MF að nafnverði kr. 46.249.428, en að bókfærðu verði að fjárhæð kr. 66.325.719. Í álitsbeiðni er vísað til ákvæða 1. mgr. 55. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög og 38. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, sem setja tilteknar skorður við eignarhaldi á eignarhlutum í félögum innan samstæðu. Fram kemur að í ljósi þessara lagaákvæði muni forsvarsmenn álitsbeiðanda hafa hug á að selja bréfin.

Álitsbeiðandi telur sýnt að söluhagnaður verði við sölu hlutabréfanna. Er óskað eftir áliti ríkisskattstjóra um það hvort DF þurfi að greiða tekjuskatt af söluhagnaði hlutabréfanna. Er í því sambandi sérstaklega vísað til þess að félagið sé að fullu í eigu MF félögin hafi verið samsköttuð til samræmis við ákvæði laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og þess vegna sé eðlilegt að dótturfélög greiði ekki skatt af söluhagnaði sem móðurfélagi bæri ekki að greiða, enda beri að fara með slík viðskipti á sama hátt og hækkun og lækkun hlutafjár.

Þá er og spurt hvort dótturfélagið, DF geti selt móðurfélagi umrædd hlutabréf á bókfærðu verði, sem er undir markaðsverði bréfanna, án þess að það hefði í för með sér skattalegar afleiðingar fyrir félögin, sbr. 58. gr. laga nr. 75/198, um tekjuskatt og eignarskatt.

 
Forsendur og niðurstöður:
Eftirfarandi umfjöllun felur í sér bindandi álit ríkisskattstjóra samkvæmt lögum nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum, miðað við þá málavexti sem reifaðir hafa verið hér að framan. Tekið skal sérstaklega fram að skattframtöl félaganna hafa ekki verið skoðuð sérstaklega. Þannig felur neðangreint álit ríkisskattstjóra ekki í sér neina staðfestingu á réttmæti framtalsskila félaganna, eins og t.d. varðandi það hvort skilyrðum samsköttunar samkvæmt 57. gr. B laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt var fullnægt. Því er við bindandi álit þetta gengið út frá því að málavextir eins og þeir eru settir fram í álitsbeiðni og reifaðir hafa verið hér að framan séu réttir. Ber að skoða neðangreint álit í ljósa þessa.

Samkvæmt 8. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, telst hagnaður af sölu eigna til skattskyldra tekna. Hið almenna ákvæði um skattlagningu hagnaðar við sölu hlutabréfa er að finna í 17. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Samkvæmt því ákvæði telst hagnaður af sölu hlutabréfa vera mismunur á söluverði og kaupverði þegar kaupverð hefur verið hækkað eða lækkað með verðbreytingarstuðli samkvæmt 26. gr. laganna. Í 17. gr. er ekki að finna sérstakar reglur um aðra skattalega meðferð söluhagnaðar hlutabréfa þegar um er að ræða sölu dótturfélags á hlutabréfum í móðurfélagi þess.

Kemur þá til skoðunar hvort ákvæði 57. gr. B laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 8. gr. laga nr. 154/1998, hafi að geyma sérstakt frávik frá reglu 8. tölul. C-liðar 7. gr., sbr. 17. gr. laganna, hvað varðar skattlagningu söluhagnaðar í þessum tilvikum.

Ákvæði 57. gr. B laganna kveður á um heimild skattstjóra til að leyfa að skattlögð séu saman tvö eða fleiri hlutafélög, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laganna, að fullnægðum tilteknum skilyrðum. Í máli þessu liggur fyrir að álitsbeiðandi og móðurfélagið, MF mun hafa verið skattlögð saman á grundvelli þessa ákvæðis gjaldárið 1999.

Samkvæmt 3. mgr. 57. gr. B skal við samsköttun leggja tekjuskatt á sameiginlegan tekjuskattsstofn þeirra félaga sem samsköttuð eru. Samkvæmt 4. mgr. má draga tap á rekstri eins af samsköttuðum félögum frá tekjum annarra áður en tekjuskattur er reiknaður samkvæmt ákveðnum reglum. Ekki er að finna í ákvæðinu nein sérákvæði um skattlagningu söluhagnaðar af hlutabréfum. Verður því ekki séð að sú staðreynd að álitsbeiðandi og móðurfélagið MF eru samsköttuð á grundvelli 57. gr. B laganna breyti neinu um skattlagningu söluhagnaðar umræddra hlutabréfa sem DF hyggst selja, þ.e. söluhagnaður bréfanna kemur til með að mynda tekjuskattsstofn hjá DF sem verður andlag skattlagningar samkvæmt ákvæðum laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Ekki verður á það fallist að líta beri á sölu hlutabréfa í eigu DF sem hækkun og lækkun hlutafjár. Slíkur skilningur á sér ekki stoð í lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Ekki verður heldur fallist á þann skilning að máli skipti hver réttarstaðan hefði verið ef móðurfélagið hefði verið eigandi bréfanna. Um er að ræða tvo sjálfstæða lögaðila og tengsl félaganna í gegnum eignarhald breyta ekki stöðu þeirra sem tveggja lögaðila, sem báðir teljast skattskyldir aðilar samkvæmt 2. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Ákvæði 57. gr. B laganna breyta ekki því að tekjuskattsstofn móður- og dótturfélags skal ákvarðaður í sitt hvoru lagi, en við samsköttunina er tekjuskattur reiknaður af sameiginlegum tekjuskattsstofn hina samsköttuðu félaga, að teknu tilliti til millifæranlegs taps samkvæmt 4. mgr. 57. gr. B laganna, lagður á móðurfélagið, eða á hvort félag um sitt ef þess er óskað sbr. 3. mgr. 57. gr. B laganna.

Með vísan til þess sem að framan hefur verið rakið er það niðurstaða ríkisskattstjóra að söluhagnaður sem myndast kann við sölu hlutabréfa í MF sem álitsbeiðandi hyggst selja muni mynda tekjuskattsstofn hjá DF samkvæmt reglum 17. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Sá stofn myndar síðan við samsköttun andlag skattlagningar ásamt tekjuskattsstofnum annarra þeirra félaga sem samsköttuð eru.

Í álitsbeiðni er og óskað eftir afstöðu ríkisskattstjóra til þess hvort álitsbeiðandi, DF geti selt móðurfélagi sínu, MF, umrædd hlutabréf á bókfærðu verði, sem er undir markaðsverði án þess að það hefði í för með sér skattalegar afleiðingar.

Ríkisskattstjóri telur að ef söluverð hlutabréfa er verulega frábrugðið því sem almennt gerist í viðskiptum með slík bréf, þá fari um slíka gerninga samkvæmt ákvæðum 58. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Engar heimildir eru í lögum til að haga skattlagningu með öðrum hætti þegar um viðskipti móður- og dótturfélaga er að ræða en gildir um viðskipti annarra aðila.

 
Bindandi álit ríkisskattstjóra:
Ríkisskattstjóri telur að söluhagnaður sem kann að myndast við sölu álitsbeiðanda á hlutabréfum í móðurfélagi sínu, myndi skattskyldar tekjur sem komi til skattlagningar samkvæmt ákvæðum 8. tölul. C-liðar 7. gr. gr. laga nr. 75/11981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 17. gr. sömu laga.

Ríkisskattstjóri telur og að ef álitsbeiðandi selur móðurfélagi sínu hlutabréfin við lægra verði en almennt gerist við sölu á slíkum bréfum beri að beita ákvæðum 58. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, við ákvörðun skattskyldra tekna af viðskiptunum.

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum