Bindandi álit

Bindandi álit nr. 11/99

15.10.1999

15. október 1999 nr. 11/99

Tilefni:
Með bréfi, dags. 3. mars 1999, er farið fram á að ríkisskattstjóri gefi bindandi álit um ýmis skattaleg atriði í tengslum við fyrirhuguð kaup álitsbeiðanda á söfnunartryggingu sem bundin verður við starfsmann fyrirtækisins.

Ríkisskattstjóri óskaði eftir því með bréfi, dags. 19. júlí 1999, að frekari upplýsingar og skýringar yrðu veittar varðandi álitaefni þau er óskað var bindandi álits embættisins um. Þessar upplýsingar og skýringar bárust embættinu með bréfi umboðsmanns álitsbeiðanda, dags. 3. september 1999. Í því bréfi kom fram að álitsbeiðandinn F hefði verið sameinaður V undir nafninu V og að kennitala hins sameinaða félags er xxxxxx-xxxx.

Málavextir:
Eftirfarandi málavaxtalýsing er byggð á þeim upplýsingum sem er að finna í beiðni yðar um bindandi álit.

Fyrir liggur að álitsbeiðandi hyggst semja við tiltekinn starfsmann sinn um kaup á söfnunartryggingu bundinni við starfsmanninn hjá Líftryggingafélaginu Z Samkvæmt samningi aðila er álitsbeiðandi rétthafi greiðslna samkvæmt söfnunartryggingu þessari fyrstu tíu ár frá gerð samnings um tryggingu þessa. Eftir þann tíma er rétthafinn viðkomandi starfsmaður eða sá sem hann tilgreinir. Forsenda þess að réttindi til greiðslu tryggingar til starfsmanns eða þess er hann vísar til er sú að hann hafi starfað hjá álitsbeiðanda í full tíu ár.

Samkvæmt skilmálum söfnunartryggingarinnar, sem fylgdu álitsbeiðni, getur rétthafi bóta ávallt leyst til sín trygginguna. Felst samningurinn við Z í því að álitsbeiðandi fær til baka iðgjaldagreiðslur sínar og áfallna vexti hætti starfsmaðurinn innan tíu ára. Ef starfsmaðurinn fellur frá fær álitsbeiðandi að auki 1% af greiddum iðgjöldum og áföllnum vöxtum. Samkvæmt samningi aðila yfirfærist réttur til greiðslna þessara að tíu árum loknum frá álitsbeiðanda til viðkomandi starfsmanns eða þess er hann vísar til.

Iðgjaldagreiðslum er ráðstafað með þeim hætti að upphafskostnaður er 8-16 mánaða iðgjald eftir lengd samnings og myndast engin inneign hjá vátryggingarhafa vegna þeirrar iðgjaldagreiðslu. Umsýslugjald í hverjum mánuði er 2,14 sterlingspund. Þá eru sjóðstjórnunargjöld 0,75% á ári. Þá kemur fram að iðgjald fyrir hreinar áhættutryggingar sem kunni að vera innifaldar í samningnum sé dregið frá iðgjaldagreiðslu við ákvörðun inneignar sem fari til ávöxtunar í sjóðum Z. Þegar framangreindu upphafstímabili er lokið bætir Z 2% ofan á greitt iðgjald í hverjum mánuði.

Í álitsbeiðninni eru tilgreind eftirfarandi álitaefni sem tengjast fyrirhugaðri töku söfnunartryggingar og er óskað að ríkisskattstjóri láti í té bindandi álit um þau. Álitaefni þessi eru samkvæmt álitsbeiðninni:

  1. Telst mánaðarlegt iðgjald söfnunartryggingar til rekstrarkostnaðar samkvæmt 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt?
  2. Teljast réttindi samkvæmt söfnunartryggingunni vera eignarskattsskyld eða teljast þau vera skilyrt réttindi undanþegin eignarskatti með vísan til 75. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt?
  3. Telst samningurinn eða það sem hann hljóðar um á einhverjum tímapunkti vera laun starfsmannsins og ef svo er á hvaða tímapunkti og með hvaða hætti?

 
Forsendur og niðurstöður:
Eftirfarandi umfjöllun ríkisskattstjóra um þau álitaefni sem að framan eru reifuð felur í sér bindandi álit ríkisskattstjóra samkvæmt lögum nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum.

Ríkisskattstjóri telur samhengis vegna rétt að fjalla í einu lagi um þau álitaefni sem tilgreind eru í málavaxtalýsingunni hér að framan og er að finna samandregnar niðurstöður þessarar umfjöllunar undir fyrirsögninni Bindandi álit ríkisskattstjóra hér að neðan.

Í álitsbeiðni er sérstaklega vísað til 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Samkvæmt því ákvæði skal færa til gjalda sem rekstrarkostnað þau gjöld sem eiga á árinu að ganga til að afla teknanna, tryggja þær og halda þeim við, þ.m.t. það sem varið er til tryggingar og viðhalds á eignum sem arð bera í rekstrinum.

Eins og að framan er getið mynda iðgjaldagreiðslur þær sem um ræðir kröfu um greiðslu sömu fjárhæðar að viðbættum vöxtum og álagi, að teknu tilliti til greiðslu á ákveðnum kostnaði. Telur ríkisskattstjóri að forsenda þess að iðgjöld fyrir tryggingar verði gjaldfærð sem rekstrarkostnaður sé sú, að um raunverulega tryggingu sé að ræða en eigi ákveðið form af sparnaði. Fyrir liggur að iðgjöld fyrstu 8-16 mánaðanna mynda ekki inneign heldur ganga til greiðslu "upphafskostnaðar". Ríkisskattstjóri telur að iðgjöld vegna slíkra greiðslna myndu falla undir rekstrarkostnaðarhugtak 31. gr. laga nr. 75/1981, en telur að um leið og iðgjaldið er farið að mynda samsvarandi inneign verði það ekki gjaldfært sem rekstrarkostnaður heldur myndi það eign vátryggingarhafa, sem sé skattskyld til eignarskatts samkvæmt 73. gr. laga nr. 75/1981.

Í álitsbeiðni er vísað til 75. gr. laga nr. 75/1981, þar sem talið er upp tæmandi hætti hvaða eignir teljist ekki til skattskyldra eigna samkvæmt lögunum. Í 1. tölul. þessa ákvæðis er sérstaklega kveðið á um að skilyrt fjárréttindi, svo sem réttur til líftryggingarfjár sem ekki er fallið til greiðslu. Fram kemur í álitsbeiðni að af hálfu álitsbeiðanda sé litið svo á að hér sé um að ræða slík skilyrt fjárréttindi.

Kemur því til úrlausnar hvort um er að ræða skilyrt fjárréttindi. Skilyrt fjárréttindi fela í sér að réttur til greiðslu er háður ákveðnu skilyrði sem er óvisst. Það er ekki forsenda að skilyrðið sé óvisst í þeim skilningi að það kunni aldrei að koma fram heldur fremur að það sé óvisst í þeim skilningi að óvisst sé hvenær það komi fram. Við mat á því hvort um sé að ræða slíka skilyrðisbindingu ber að horfa á vátryggingarsamninginn sem slíkan og þau réttaráhrif sem hann hefur óháð einkaréttarlegum gerningum álitsbeiðanda og starfsmanns hans.

Við skoðun skilmála Z, er fylgdu álitsbeiðninni, kemur í ljós að réttur til greiðslu úr hendi Z er í reynd ekki bundinn neinni óvissu. Þannig getur vátryggingarhafi í meginatriðum ávallt leyst til sín inneign sína, sbr. 8. gr. skilmála Z. Því er í reynd eigi um skilyrt fjárréttindi að ræða í skilningi 75. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Sú ráðstöfun að binda í samningi álitsbeiðanda og starfsmanns rétthöfn annars aðilans til bóta ákveðnum skilyrðum verður ekki talið þess eðlis að geta orðið grundvöllur þess að réttindi þau til greiðslu úr hendi Z teljist skilyrt fjárréttindi. Slíkur samningur breytir í engu eðli samnings álitsbeiðanda við Z.

Með hliðsjón af þessu telur ríkisskattstjóri að eignfæra beri í skattskilum álitsbeiðanda iðgjöld greidd til Z vegna söfnunartryggingar vegna starfsmanns. Jafnframt skal færa til tekna áfallnar tekjur af inneigninni hjá Z eftir því sem þær falla til. Iðgjöld sem sannanlega mynda ekki inneign hjá Z er heimilt að gjaldfæra sem rekstrarkostnað samkvæmt 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Að því er varðar skattalega stöðu starfsmannsins þá telur ríkisskattstjóri að um leið og starfsmaður verður rétthafi inneignarinnar hjá Z þá myndi sú inneign tekjur hjá honum sem laun samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Yrði að miða tekjurnar við raunverulegt mat á inneigninni á þeim tíma sem starfsmaðurinn verður rétthafi inneignarinnar. Ber álitsbeiðanda að reikna staðgreiðslu af þessum tekjum samkvæmt lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda og mynda þær stofn til tryggingagjalds samkvæmt lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald.

Ákveði starfsmaðurinn að halda söfnuninni áfram myndar inneign hans á hverjum tíma stofn til eignarskatts, þar eð réttur hans til inneignar getur ekki talist vera skilyrt fjárréttindi í skilningi 75. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Áfallnar tekjur af inneigninni mynda stofn til greiðslu fjármagnstekjuskatts skv. 3. mgr. 67. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. C-lið 7. gr. sömu laga.

 
Bindandi álit ríkisskattstjóra:
Iðgjöld sem mynda inneign álitsbeiðanda, eða þess sem hann vísar til, hjá vátryggingarfélagi, ber að eignfæra. Að því marki sem iðgjöld mynda eigi inneign ber að gjaldfæra þau sem rekstrarkostnað í skattskilum álitsbeiðanda.

Inneign í vátryggingarfélagi miðað við þær forsendur sem raktar eru að framan teljast ekki vera skilyrt fjárréttindi í skilningi 75. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Er inneignin því eignarskattsskyld samkvæmt 73. gr. þeirra laga.

Þegar réttur til inneignar færist frá álitsbeiðanda til starfsmanns ber að telja heildarverðmæti inneignar á yfirfærslutíma starfsmanni til tekna. Ber að reikna staðgreiðslu opinberra gjalda af þeirri fjárhæð samkvæmt lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, og myndar hún jafnframt stofn til tryggingagjalds samkvæmt lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald.

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum