Bindandi álit

Bindandi álit nr. 10/99

15.10.1999

15. október 1999 nr. 10/99

Tilefni:
Í bréfi umboðsmanns álitsbeiðanda, dagsettu 19. ágúst 1999, er sett fram fyrir hönd A ehf. (hér eftir nefnt álitsbeiðandi) beiðni um bindandi álit ríkisskattstjóra samkvæmt lögum nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum. Beiðnin varðar virðisaukaskattsskyldu félags sem álitsbeiðandi hyggst stofna.

Málavextir:
Fyrir liggur að álitsbeiðandi rekur veitingastað. Starfsemin samanstendur af sölu veitinga, tónlistarflutningi, söngskemmtunum, leiksýningum og dansleikjahaldi. Í beiðninni er rakinn gildandi réttur varðandi virðisaukaskattsskyldu af starfseminni og hún borin saman við starfsemi leikhúsa. Af þeim samanburði er dregin sú ályktun að skattframkvæmd á grundvelli gildandi réttar brjóti gegn 75. gr. laga nr. 33/1944, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

Frá því er greint að álitsbeiðandi hyggist stofna sérstakt félag sem ætlað er að standa að þeim þætti starfsemi álitsbeiðanda er lýtur að skemmtidagskrá, þ.e. tónleikum, söngskemmtunum og leiksýningum. Hins vegar sé fyrirhugað að álitsbeiðandi standi áfram að veitingastarfseminni og dansleikjahaldinu.

Í beiðninni er sett fram svohljóðandi álitaefni:

"Þeirri spurningu er því beint til ríkisskattstjóra hvort sú ráðstöfun að aðgreina starfsemina með þessum hætti í tvö félög sé heimil og tæk samkvæmt virðisaukaskattslögum með þeim hætti að; núverandi félag (álitsbeiðandi) heldur áfram virðisaukaskattsskyldri starfsemi þ.e. veitingastarfsemi og dansleikjahaldi, og hið nýja

félag hafi með höndum hina undanþegnu starfsemi sem lýst er í 4. tl. 3. mgr. 2. gr. laga 50/1988, þ.e. leiksýningar og tónleikahald. Með þessu fyrirkomulagi yrði reksturinn á þáttum starfseminnar aðskilinn og hið nýja félag myndi leigja aðstöðu undir tónleika / og söngleiki. Með umræddri ráðstöfun yrði umbjóðandi minn jafnsettur og þeir rekstraraðilar sem starfsemina stunda með því sniði og lýst hefur verið hér að framan og þar af leiðandi væri það skattalega ójafnræði og sú samkeppnisröskun sem ríkir nú milli umbjóðanda míns og annarra í atvinnugreininni úr sögunni að þessu leyti."

Bindandi álit ríkisskattstjóra:
Skattskyldusvið virðisaukaskatts er skilgreint mjög víðtækt í 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Tekur það til allra vara og verðmæta, nýrra og notaðra og allrar vinnu og þjónustu, hverju nafni sem nefnist, sem ekki er sérstaklega lýst undanþegin í 3. mgr. greinarinnar. Í nefndri 3. mgr. 2. gr. er tæmandi talning þeirrar vinnu og þjónustu sem fellur utan skattskyldusviðs virðisaukaskatts. Tilgreiningu undanþeginnar þjónustu ber, sem frávik frá meginreglu, að skýra þröngt og aldrei rýmri túlkun en orðalag ákvæðisins gefur beinlínis tilefni til.

Í 4. tl. 3. mgr. 2. gr. er tiltekið að undanþegin virðisaukaskatti sé starfsemi safna, svo sem bókasafna, listasafna, og náttúrugripasafna, og hliðstæð menningarstarfsemi. Sama gildir um aðgangseyri að tónleikum, íslenskum kvikmyndum, listdanssýningum, leiksýningum og leikhúsum, enda tengist samkomur þessar ekki á neinn hátt öðru samkomuhaldi eða veitingastarfsemi.

Af framkominni lýsingu á fyrirhugaðri starfsemi álitsbeiðanda og óstofnaðs félags má ljóst vera að tengsl munu verða á starfsemi félaganna tveggja í tíma og rúmi. Þrátt fyrir að þættir í starfsemi óstofnaðs félags geti, eins og þeim er lýst, einir og sér fallið undir hugtökin tónleikar og leiksýningar í skilningi framangreinds ákvæðis, teljast þeir samkvæmt hljóðan orða ákvæðisins til virðisaukaskattsskyldrar starfsemi vegna fyrirhugaðra tengsla við veitingastarfsemi og dansleikjahald álitsbeiðanda. Orðalag ákvæðisins er skýrt og afdráttarlaust og án fyrirvara um það hvort einn eða fleiri rekstraraðilar standa að þeirri tvíþættu tengdu starfsemi sem um ræðir.

Bindandi álit þetta er veitt á grundvelli laga um bindandi álit í skattamálum nr. 91/1998 og miðast við þær forsendur sem fram koma í beiðni.

Vegna þeirra ályktunar í beiðni að umrætt ákvæði og skattframkvæmd á því byggð brjóti gegn ákvæði 75. gr. stjórnarskrárinnar skal það tekið fram að ekki er á valdsviði stjórnvalda að taka afstöðu til þess hvort einstaka ákvæði laga fari gegn ákvæðum stjórnarskrár. Slíkt er aðeins á færi dómstóla að meta.

Ríkisskattstjóri.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum