Bindandi álit

Bindandi álit, frávísun nr. 9/01

30.11.2001

Rannsókna og þróunarvinna. Verðlagning í viðskiptum milli móður- og dótturfélags. Frávísun: Matskennd atriði - ekki hægt að leggja mat á verð í óorðnum viðskiptum.

Reykjavík, 30. nóvember 2001

Ríkisskattstjóri hefur þann 20. september 2001 móttekið beiðni um bindandi álit fyrir hönd A ehf.,.

Samkvæmt álitsbeiðni eru málavextir þeir að A ehf. er dótturfélag B plc. sem er eignarhaldsfélag. Stefnt sé að skráningu breska móðurfélagsins í opinberri kauphöll annað hvort í Englandi eða Bandaríkjum Norður Ameríku. Móðurfélagið eigi fyrirtæki í Bretlandi, Danmörku, Hong Kong, Bandaríkjum Norður Ameríku og Íslandi. Í beiðninni segir svo: "Starfsemi samsteypunnar felst fyrst og fremst í þróun þráðlausrar tækni, þekkt sem X, sem bætir núverandi þráðlausa tækni og gerir kleyft (sic) að flytja gögn milli þráðlausra tækja , t.d. tölvu og GSM síma, með meiri hraða en nú tíðkast....Samstæðan hefur samið við ýmis fjölþjóðleg fyrirtæki sem nota þessar afurðir og búist er við að samsteypan muni fara inn á markaði í austurlöndum fjær, BNA, Evrópu og Skandinavíu með virkri markaðssetningu sem sinnt verður af staðbundnum fyrirtækjum með þessar vörur og með þeirri stuðnings þjónustu (sic) sem A getur veitt. Til að standa undir vexti er verið að endurskipuleggja samsteypuna. Þannig mun A ehf. starfa sem rannsóknar og þróunar fyrirtæki fyrir samsteypuna í heild jafnframt sem það mun selja vörur A á Íslandi." Í beiðninni kemur einnig fram að milli A ehf. og móðurfélagsins, B plc. muni verða stunduð viðskipti þar sem A ehf. mun afhenda móðurfélaginu afrakstur rannsóknarvinnu sinnar í þágu samsteypunnar gegn hæfilegu endurgjaldi.

Vegna þessa er ríkisskattstjóri beðinn að gefa bindandi álit sitt á því hvort unnt sé að staðfesta "að tekjur A ehf. af rannsóknar- og þróunarvinnu verði ekki metnar meiri en svo að þær nemi kostnaðinum við rekstur rannsóknar- og þróunarvinnu (en ekki af tekjum vegna sölu og þjónustu á Íslandi) fyrirtækisins auk 5% álags þar á í samræmi við "Cost Plus" aðferð milliverðlagsreglna OECD." Til stuðnings þessari niðurstöðu sinni vitnar álitsbeiðandi til reglna OECD um milliverð og 1. mgr. 58. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Með bréfi dags. 1. október 2001 óskaði ríkisskattstjóri eftir því að upplýst yrði hver væri hin fyrirhugaða ráðstöfun sem óskað væri bindandi álits um. Svarbréf umboðsmanns álitsbeiðanda barst þann 22. október s. á. Þar kemur fram að það fyrirkomulag sem lýst er í álitsbeiðninni hafi ekki komið til framkvæmda, þ.e. samningur A ehf. við móðurfélagið um afhendingu á rannsóknar- og þróunarvinnu A ehf. hafi ekki verið gerður.

Með lögum nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum var komið á kerfi þar sem gjaldendur geta fyrirfram óskað eftir áliti ríkisskattstjóra um skattalegar afleiðingar ráðstafana sem viðkomandi hefur í huga. Svar ríkisskattstjóra er bindandi við álagningu skatta ef álitsbeiðandi gerir þá ráðstöfun sem lýst var í álitsbeiðninni.

Forsenda þess að ríkisskattstjóri gefi út bindandi álit er að það liggi ljóst fyrir hver aðilinn er sem álitsbeiðnin varðar og að ráðstöfunin varði þennan tiltekna aðila. Í greinargerð sem fylgdi lagafrumvarpi því er varð að lögum nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum, segir m.a. "Fyrir fram bindandi álit eru hins vegar annars eðlis en framangreind upplýsingagjöf og hafa víðtækari réttaráhrif. Af þeim sökum eru gerðar ríkari kröfur um form og efni þeirra." Þá segir einnig: "Gert er ráð fyrir að allir skattaðilar geti óskað bindandi álits ríkisskattstjóra. Fyrirspurnin verður hins vegar að varða álitsbeiðanda sjálfan, þ.e. ekki er hægt að óska eftir afstöðu ríkisskattstjóra um ráðstafanir sem einhver annar hefur í hyggju að gera."

Í beiðni þeirri sem hér er fjallað um er ekki eingöngu óskað eftir bindandi áliti ríkisskattstjóra varðandi skattalega hagsmuni álitsbeiðanda heldur einnig móðurfélags álitsbeiðanda.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum, skal ríkisskattstjóri láta uppi bindandi álit í skattamálum enda varði beiðni um slíkt álit "álitamál" er snertir álagningu skatta og gjalda. Í athugasemdum við lagafrumvarp er síðar varð að lögum nr. 91/1998 segir: "Gert er ráð fyrir að skattaðilar geti óskað eftir því við ríkisskattstjóra að hann gefi bindandi álit um skattaleg áhrif fyrirhugaðra ráðstafana skattaðila og þannig fengið úr því skorið fyrir fram hvernig álagning skattstjóra muni verða. Meginmarkmið frumvarpsins er að auka réttaröryggi skattaðila með því að tryggja þeim leið til að fá fyrir fram úr því skorið hvernig skattlagning verður, svo þeir geti tekið ákvarðanir og gert ráðstafanir á grundvelli þeirra upplýsinga. "Af þessum texta greinargerðarinnar má berlega ráða að gert er ráð fyrir því að um sé að ræða álitamál um hvaða skattalegu afleiðingar fyrirhugaðar ráðstafanir álitsbeiðanda hafi.

Það mál sem til umfjöllunar er snýst um ákvörðun á verði í viðskiptum tengdra aðila. Almennt eru viðskipti milli tengdra aðila metin á grundvelli 58. gr. laga nr. 75/1981, en þar segir:

“Ef skattaðilar semja um viðskipti sín í fjármálum á hátt sem er verulega frábrugðin því sem almennt gerist í slíkum viðskiptum skulu verðmæti, sem án slíkra samninga hefðu runnið til annars aðilans en gera það ekki vegna samningsins, teljast honum til tekna.

Kaupi skattaðili eign á óeðlilega háu verði eða selji eign á óeðlilega lágu verði geta skattyfirvöld metið hvað telja skuli eðlilegt kaup- eða söluverð. Mismun kaupverðs eða söluverðs annars vegar og matsverðs hins vegar skal telja til skattskyldra tekna hjá þeim aðila sem slíkra viðskipta nýtur.”

Tilvitnuðu ákvæði hefur hingað til verið beitt við endurskoðun á skattskilum einstaklinga og lögaðila. Á grundvelli þeirra hefur þannig verið lagt mat á fyrirliggjandi skattskil og ákvörðun skattstofna. Þess eru engin dæmi að skattyfirvöld hafi látið uppi álit fyrirfram á þeim atriðum sem lagaákvæðið vísar til, né verður talið að þeim sé heimilt að ganga til samninga við skattaðila um skattákvarðanir.

Skv. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum, getur ríkisskattstjóri með rökstuddum hætti vísað beiðni um bindandi álit frá telji hann að beiðni sé vanreifuð eða óskýr eða aðrar ástæður mæli gegn því að látið sé uppi bindandi álit. Í almennum athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 91/1998, segir m.a. svo um skilyrði þess að bindandi álit sé látið uppi: "Bindandi álit ríkisskattstjóra munu að líkum nýtast best í þeim tilvikum þegar álitamál lýtur að túlkun flókinna eða óljósra ákvæða laga eða reglugerða fremur en t.d. matskenndum atriðum, svo sem mati á verðmætum eigna eða sönnunarfærslu um staðreyndir máls." Í álitsbeiðni þeirri sem hér um ræðir er verið að óska eftir að ríkisskattstjóri meti og gefi um það bindandi álit, hvort tiltekin verðlagning í viðskiptum móður- og dótturfélags sé í samræmi við það sem eðlilegt mætti teljast í viðskiptum óháðra aðila. Í álitsbeiðninni er farið fram á að kveðið verði upp úr um matskennd atriði og það án þess að nokkur þau gögn liggi fyrir er geri slíkt mat gerlegt.

Eðli málsins samkvæmt er annmörkum háð fyrir skattyfirvöld að taka fyrirfram ákvörðun um verðlagningu á seldri vöru og þjónustu til ákvörðunar skattstofns í viðskiptum milli skyldra aðila. Helgast það ekki hvað síst af því að mat á forsendum verðlagningar geta verið breytilegar frá einum tíma til annars og markaðsaðstæður geta breyst. Álitsbeiðnin lýtur í reynd að því að ríkisskattstjóri gefi með bindandi hætti álit um það hvernig meta skuli álagningu í framtíð í viðskiptum milli skyldra aðila. Slíkt álit myndi eðli máls samkvæmt fela í sér að ríkisskattstjóri þyrfti að gefa sér tilteknar forsendur um staðreyndir sem ekki eru orðnar og liggur ekki fyrir hverjar verða. Telur ríkisskattstjóri með hliðsjón af þeim skorðum sem stjórnskipunarlög setja skattyfirvöldum um ákvörðun skattstofna sé honum ekki heimilt að meta og ákvarða verð í óorðnum viðskiptum.

Af framangreindu má ljóst vera að þau atvik sem óskað hefur verið eftir að fá bindandi álit um eru með þeim hætti að eigi þykir tækt að gefa um þau bindandi álit. Af þeim sökum verður ekki hjá því komist að vísa beiðni álitsbeiðanda um bindandi álit frá með vísan til 2. mgr. 3. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum.

Frávísun þessi er eigi kæranleg, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum.

Ályktunarorð:

Beiðni álitsbeiðanda, A ehf., um staðfestingu á því "að tekjur A ehf., af rannsóknar- og þróunarvinnu, verði ekki metnar meiri en svo að þær nemi kostnaðinum við rekstur rannsóknar- og þróunarvinnu (en ekki tekjum vegna sölu og þjónustu á Íslandi) fyrirtækisins auk 5% álags þar á í samræmi við "Cost Plus" aðferð milliverðlagsreglna OECD," er vísað frá afgreiðslu bindandi álita í skattamálum.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum