Bindandi álit

Bindandi álit, frávísun nr. 8/01

12.7.2001

Reykjavík, 12. júlí 2001

Ríkisskattstjóri hefur þann 21. júní 2001 móttekið beiðni A, um bindandi álit og hlaut beiðnin númerið ..... í bókum embættisins. Umboðsmaður beiðanda er B og er beiðnin undirrituð af C.

Í álitsbeiðni er málavöxtum svo lýst: "Beiðandi er annar tveggja hluthafa í Byggingarfélaginu D ehf. Fyrirhugað er að skipta D upp í nokkur einkahlutafélög. Áður en það er mögulegt verður að breyta félaginu í hlutafélag, sbr. XIV. kafla laga nr. 2/1995. Skipting félagsins verður grundvölluð á skiptingu aðaleignar byggingarfélagsins sem er landspilda á D í ...... Í framhaldi af skiptingunni er fyrirhugað að selja hluti í félögunum til óskyldra aðila. Enn fremur er gert ráð fyrir því að sömu aðilar (hluthafar) taki á leigu hluta af því landi sem viðkomandi félag á undir byggingu íbúðarhúsa. Leigufjárhæð verður miðuð við almennt gangverð í sambærilegum viðskiptum. Ferlinu verður best lýst þannig:

  1. Byggingarfélaginu D ehf. verður breytt í hlutafélag.
  2. Byggingarfélaginu D hf. verður skipt upp í nokkur einkahlutafélög.
  3. Hlutir í hinum nýju einkahlutafélögum verða seldir til óskyldra aðila.
  4. Kaupendur hlutanna munu síðan taka á leigu lóðir úr landi D, sem áfram verða í eigu viðkomandi einkahlutafélags, undir byggingu íbúðarhúsnæðis.
  5. Söluverð hluta verður miðað við markaðsverð og leigugjald verður miðað við almennt gangverð í samskonar viðskiptum."

Á grundvelli þeirrar málavaxtalýsingar sem að ofan greinir óskar álitsbeiðandi bindandi álits ríkisskattstjóra varðandi eftirfarandi:

  1. "Getur ríkisskattstjóri staðfest að skipting Byggingarfélagsins D hf. hafi ekki í för með sér skattskyldar tekjur fyrir beiðanda þegar hann lætur hlutabréfin af hendi, sbr. 56. gr. A laga nr. 75/1981?
  2. Getur ríkisskattstjóri staðfest að litið verði á sölu eignarhluta beiðanda í einkahlutafélögunum sem sölu hluta þannig að um sé að ræða söluhagnað beiðanda sem telst til fjármagnstekna skv. 3. mgr. 67. gr. laga nr. 75/1981?"

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum, skal ríkisskattstjóri láta uppi bindandi álit í skattamálum enda varði beiðnin sem slík álitamál er snertir álagningu skatta og gjalda. Í athugasemdum við lagafrumvarp það er síðar varð að lögum nr. 91/1998 segir: "Gert er ráð fyrir að skattaðilar geti óskað eftir því við ríkisskattstjóra að hann gefi bindandi álit um skattaleg áhrif fyrirhugaðra ráðstafana skattaðila og þannig fengið úr því skorið fyrir fram hvernig álagning skattstjóra muni verða. Meginmarkmið frumvarpsins er að auka réttaröryggi skattaðila með því að tryggja þeim leið til að fá fyrir fram úr því skorið hvernig skattlagning verður, svo þeir geti tekið ákvarðanir og gert ráðstafanir á grundvelli þeirra upplýsinga." Þá segir jafnframt: "Bindandi álit ríkisskattstjóra munu að líkum nýtast best í þeim tilvikum þegar álitamál lýtur að túlkun flókinna eða óljósra ákvæða laga eða reglugerða..." Af þessum texta greinargerðarinnar má berlega ráða að gert er ráð fyrir því að um sé að ræða óljós atriði, þ.e. atriði þar sem ekki er skýrt hvaða reglur gilda. Ríkisskattstjóri hefur litið svo á að í þeim tilvikum þegar fyrir liggur skýr afstaða skattyfirvalda um tiltekin atriði, hvort heldur er um að ræða úrskurð skattstjóra eða yfirskattanefndar, birtar reglur eða túlkanir ríkisskattstjóra, eða almennar leiðbeiningar þá sé þar ekki um að ræða álitaefni sem gefið verði bindandi álit um samkvæmt lögum nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum.

Ákvæði 1. mgr. 56. gr. A laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, hljóðar svo: "Sé hlutafélagi slitið þannig að það sé algjörlega sameinað öðru hlutafélagi og hluthafar í fyrrnefnda félaginu fái eingöngu hlutabréf í síðarnefnda félaginu sem gagngjald fyrir hlutafé sitt í félagi því sem slitið var, þá skulu skiptin sem slík ekki hafa í för með sér skattskyldar tekjur fyrir þann sem hlutabréfin lét af hendi. Við slíkan samruna hlutafélaga skal það félag, er við tekur, taka við öllum skattaréttarlegum skyldum og réttindum þess félags sem slitið var." Það er mat ríkisskattstjóra að framangreint lagaákvæði sé eigi svo flókið eða óljóst að bein orðskýring svari almennt ekki þeim álitaefnum sem varða per se heimild til skiptingar, þegar um er að ræða lögaðila þá sem tilgreindir eru í tilvitnuðu lagaákvæði.

Í almennum athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 91/1998, segir m.a. svo um skilyrði þess að bindandi álit sé látið uppi: "Bindandi álit ríkisskattstjóra munu að líkum nýtast best í þeim tilvikum þegar álitamál lýtur að túlkun flókinna eða óljósra ákvæða laga eða reglugerða fremur en t.d. matskenndum atriðum, svo sem mati á verðmætum eigna eða sönnunarfærslu um staðreyndir máls." Síðara álitaefnið sem sett er fram í beiðni álitsbeiðanda varðar það hvort söluhagnaður sem álitsbeiðandi hugsanlega fær vegna sölu á eignarhlutum í einkahlutafélögum ásamt afleiddum gerningum verði skattlagður skv. 3. mgr. 67. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Í fyrrgreindu ákvæði kemur fram að tekjuskattur af fjármagnstekjum einstaklinga utan rekstrar skuli vera 10% af þeim tekjum. Það hvort aðili telst vera í atvinnurekstri kallar á ítarlega skoðun á öllum umsvifum aðilans og mati á þeim. Almennt verður að telja það erfiðleikum bundið að koma við mati af þessu tagi við málsmeðferð skv. lögum nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum, enda varða bindandi álit ríkisskattstjóra skattaleg áhrif ráðstafana sem ekki hefur verið ráðist í þegar álitið er látið uppi, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 91/1998.

Af framangreindu má ljóst vera að þau atvik sem óskað hefur verið eftir að fá bindandi álit um eru með þeim hætti að eigi þykir tækt að gefa um þau bindandi álit. Af þeim sökum verður ekki hjá því komist að vísa beiðni álitsbeiðanda um bindandi álit frá með vísan til 2. mgr. 3. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum.

Frávísun þessi er eigi kæranleg, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum.

Ályktunarorð:

Beiðni álitsbeiðanda, A, um staðfestingu á því að skipting Byggingarfélagsins D hf. hafi ekki í för með sér skattskyldar tekjur fyrir álitsbeiðanda þegar hann lætur hlutabréfin af hendi, sbr. 56. gr. A laga nr. 75/1981 og um staðfestingu á því að litið verði á sölu eignarhluta álitsbeiðanda í einkahlutafélögunum sem sölu hluta þannig að um sé að ræða söluhagnað beiðanda sem telst til fjármagnstekna skv. 3. mgr. 67. gr. laga nr. 75/1981, er vísað frá afgreiðslu bindandi álita í skattamálum.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum