Bindandi álit

Bindandi álit, frávísun nr. 1/01

15.3.2001

Reykjavík, 15. mars 2001

Þann 17. janúar sl. móttók ríkisskattstjóri beiðni yðar um bindandi álit þar sem óskað er eftir bindandi áliti ríkisskattstjóra á eftirfarandi atriðum:

  • hvort heimilt sé að afskrifa þá viðskiptavild í heild eða að hluta, sem myndast vegna samruna A og B hf., þ.e. annars vegar viðskiptavildina sem áður var bókfærð sem yfirverð vegna eignarhluta í dótturfélagi og hins vegar viðskiptavild sem myndast vegna samruna A hf. og B hf.
  • hvort heimilt sé að færa bókfærða viðskiptavild á móti söluverði hennar við ákvörðun söluhagnaðar
  • hvert teljist vera stofnverð bókfærðar viðskiptavildar A hf. í skattalegu tilliti
  • hvort C hf., í kjölfar eignaskiptanna við A hf., sé heimilt að gjaldfæra viðskiptavildina í skattalegu tilliti
  • hvort stofnverð hlutabréfa A hf. í C hf. sé hið sama og söluverð eignanna þ.e. 1.000,0 millj. kr. sem er sama verð og bókfært verð þeirra í bókum A hf.

Í álitsbeiðni er sett fram málavaxtalýsing og segir þar m.a.: "Fyrirhugað er að sameina A og B hf. þann 1. október 2000." Síðar segir: "Í kjölfar sameiningar hyggst A hf. gera samning við þriðja aðila, þ.e. hlutafélagið C hf. um sölu á því sem næst öllum rekstrareignum sem fylgdu B hf. í skiptum fyrir hlutafé í C hf."

Þá fékk ríkisskattstjóri upplýsingar þess efnis að í desembermánuði 2000 hafi birst svohljóðandi frétt á netmiðlinum visir.is: "C hf. og A hf. hafa gengið frá samkomulagi um sameiningu C og B dótturfélags A, sem reka lyfjaverslanir undir nafninu D....Hið sameinaða félag verður sjálfstætt dótturfélag innan A samstæðunnar en undir stjórn núverandi eigenda og stofnenda C....Eftir sameininguna mun A eiga 55% hlutafjár í sameinuðu félagi en núverandi eigendur C 45%." Svipaða fréttatilkynningu er einnig að finna á vefsíðu Verðbréfaþings Íslands hf. Þann 5. febrúar 2001 birti Samkeppnisstofnun fréttatilkynningu þess efnis að skilyrði hefðu verið sett fyrir samruna C hf. og B hf. Í fréttatilkynningunni segir: "Þann 4. desember sl. var undirritaður samningur um sameiningu á rekstri C hf. og B hf. "

Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum er ekki heimilt að óska eftir bindandi áliti um skattaleg áhrif ráðstafana sem þegar hafa verið gerðar. Þar sem ekki lá ljóst fyrir hvort sameining C og B hf. hafi farið fram sendi ríkisskattstjóri umboðsmanni yðar fyrirspurn, dags. 26. janúar 2001, þar sem óskað var eftir nánari upplýsingum varðandi þetta atriði. Gefinn var frestur til að svara fyrirspurn ríkisskattstjóra til 12. febrúar 2001. Umboðsmaður yðar óskaði eftir framlengingu á svarfresti og var orðið við þeirri beiðni með bréfi dags. 15. febrúar 2001, þar sem svarfrestur var framlengdur til 26. febrúar 2001. Ekkert svar hefur hins vegar borist ríkisskattstjóra.

Með lögum nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum, var komið á kerfi þar sem einstakir gjaldendur geta fyrirfram óskað eftir áliti ríkisskattstjóra um skattalegar afleiðingar ráðstafana sem viðkomandi hefur í huga. Svar ríkisskattstjóra er bindandi ef gjaldandinn fer út í þá ráðstöfun sem lýst var í álitsbeiðninni.

Eins og fyrr segir, kemur fram í 2. mgr. 1. gr. laganna að ekki sé heimilt að óska eftir bindandi áliti um skattaleg áhrif ráðstafana sem þegar hefur verið ráðist í. Í greinargerð með lagafrumvarpi því er varð að lögum nr. 91/1998 segir varðandi þetta atriði: "Megintilgangur með lögfestingu frumvarps þessa er að koma á fót úrræði er þjóni hagsmunum þeirra sem þurfa að fá úr því skorið fyrir fram hvernig skattlagningu verði háttað undir nánar greindum kringumstæðum. Eðli máls samkvæmt verður því að óska álits áður en ráðstafanir eru gerðar. Að öðrum kosti er gert ráð fyrir að ákvörðun skattyfirvalda um skattlagningu beri að með venjulegum hætti, þ.e. við álagningu." Bindandi álit ríkisskattstjóra hafa það þannig að meginmarkmiði að fyrir liggi hvaða skattalegu áhrif ráðgerðar framkvæmdir eða aðgerðir hafa í för með sér. Í þeim tilvikum sem ráðstafanir hafa þegar verið gerðar brestur ríkisskattstjóra lagaheimild til að gefa bindandi álit. Ákvarðanir skattyfirvalda um þegar gerðar ráðstafanir ber þannig almennt að taka við álagningu skatta.

Með vísan til framangreinds og þess að fyrirspurn ríkisskattstjóra var ekki svarað er beiðni yðar um bindandi álit vísað frá, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum.

Frávísun þessi er ekki kæranleg, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum.

Ályktunarorð:

Álitsbeiðni nr. ..... um bindandi álit á því;

  • hvort heimilt sé að afskrifa þá viðskiptavild í heild eða að hluta, sem myndast vegna samruna A og B hf., þ.e. annars vegar viðskiptavildina sem áður var bókfærð sem yfirverð vegna eignarhluta í dótturfélagi og hins vegar viðskiptavild sem myndast vegna samruna A hf. og B hf.
  • hvort heimilt sé að færa bókfærða viðskiptavild á móti söluverði hennar við ákvörðun söluhagnaðar
  • hvert teljist vera stofnverð bókfærðar viðskiptavildar A hf. í skattalegu tilliti
  • hvort C hf., í kjölfar eignaskiptanna við A hf., sé heimilt að gjaldfæra viðskiptavildina í skattalegu tilliti
  • hvort stofnverð hlutabréfa A hf. í C hf. sé hið sama og söluverð eignanna þ.e. 1.000,0 millj. kr. sem er sama verð og bókfært verð þeirra í bókum A hf.

er vísað frá afgreiðslu bindandi álita í skattamálum.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum