Bindandi álit

Bindandi álit, frávísun nr. 2/00

19.4.2000

Mat á skattalegu söluverði hlutafjár. Frávísun: Mat á eignum á ekki undir lög um bindandi álit.

Reykjavík, 19. apríl 2000

Ríkisskattstjóri hefur þann 22. mars 2000 móttekið beiðni A hf., f.h. B ehf., um bindandi álit.

Samkvæmt bréfi umboðsmanns álitsbeiðanda er álitaefnið það að álitsbeiðendur, sem allir eru hluthafar í einkahlutafélaginu B ehf., hafa í hyggju að stofna hlutafélag um hlutafjáreign sína. Hlutafélagið á síðan til framtíðar að starfa sem eignarhaldsfélag um hlutabréfin í B ehf. og hugsanlega um aðrar fjárfestingar komi til þess að hlutabréfin í B ehf. verði seld í heild sinni eða hluta. Vilja álitsbeiðendur fá bindandi álit ríkisskattstjóra um hvert mat hans sé á skattalegu söluverði hlutafjárins þar sem ljóst er að það er töluvert yfir nafnverði. Meðfylgjandi beiðninni er árshlutareikningur fyrir 1. janúar - 31. ágúst 1999 og ársreikningar fyrir 1998 og 1999. Fram kemur í beiðninni að álitamál sé hversu verðmætur rekstur félagsins sé. Félagið stundi heildsölu, einkum til matvöruverslana og hafi rekstrartekjur félagsins heldur dregist saman undanfarin ár. Harðnandi samkeppni sé ríkjandi á þessum markaði og innflutningur í auknum mæli að færast til smásala. Að lokum er sett fram beiðni um bindandi álit á því:

Hvert sé mat ríkisskattstjóra á eðlilegu yfirfærsluverði hlutafjár í B ehf. til eignarhaldsfélags og hversu mikill skattalegur söluhagnaður myndist í hendi eigenda hlutafjárins verði tekin endanleg ákvörðun um slíka yfirfærslu.

Við yfirfærslu hlutabréfanna í eignarhaldsfélaginu verður til skattskyldur söluhagnaður í hendi eigenda B ehf. Söluhagnaðurinn ræðst af mati á verðmæti félagsins. Ríkisskattstjóri telur að það verðmæti skuli miða við raunvirði hreinnar eignar, sbr í því efni verklagsreglur ríkisskattstjóra frá 4. desember 1997, sem vitnað er til í álitsbeiðninni. Álitsbeiðnin ber það með sér að ekki sé talið álitamál að skattskyldan söluhagnað eigi að ákveða með þeim hætti og er ekki óskað álits á því. Í álitsbeiðninni er hins vegar farið fram á að mat eignanna til verðs verði ákveðið með bindandi áliti ríkisskattstjóra.

Skv. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum, getur ríkisskattstjóri með rökstuddum hætti vísað beiðni um bindandi álit frá telji hann að beiðni sé vanreifuð eða óskýr eða aðrar ástæður mæli gegn því að látið sé uppi bindandi álit. Að mati ríkisskattstjóra gefur beiðni yðar, f.h. hluthafa í B ehf., ekki tilefni til útgáfu bindandi álits. Mat á eignum eins og farið er fram á getur ekki talist vera skattalegt álitamál þó svo að mishátt mat kunni að hafa mismunandi skattalegar afleiðingar í för með sér. Verður því ekki talið að efni það sem óskað er álits á eigi undir lög um bindandi álit, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum.

Með vísan til ofangreinds er beiðni yðar um bindandi álit vísað frá, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum.

Frávísun þessi er ekki kæranleg, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum