Dómar

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-2226/2012

3.5.2013

Stoðir hf. gegn íslenska ríkinu

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem kveðinn var upp þann 30. apríl 2013 var íslenska ríkið sýknað af kröfum Stoða hf.  Stefnandi (Stoðir hf.) krafðist þess m.a. að skattkröfur að fjárhæð kr. 444.260.798 samkvæmt úrskurði ríkisskattstjóra frá því í júní 2011, sbr. úrskurð yfirskattanefndar nr. 391/2012, féllu undir nauðasamninga stefnanda sem samþykktur var í júní 2009.  Þá krafðist stefnandi endurgreiðslu á kr. 455.010.924.

Ágreiningurinn í málinu snerist um það hvort skattkröfur „falla til“ við lok þess uppgjörstímabils sem þær varða (í lok uppgjörstímabils í tilviki virðisaukaskatts eða rekstrarárs í tilviki opinberra gjalda) eða hvort þær „falli til“ við úrskurð um endurákvörðun. 

Til stuðnings kröfum sínum vísaði stefnandi til þess að kröfur skattyfirvalda vegna opinberra gjalda gjaldáranna 2007 og 2008, sem voru endurákvörðuð með úrskurði ríkisskattstjóra í júní 2011, hafi verið skilyrtar kröfur í skilningi laga um gjaldþrotaskipti o.fl.  Kröfurnar hafi stofnast í lok rekstraráranna 2006 og 2007 og hafi því fallið undir nauðasamning stefnanda sem samþykktur var í júní 2009. 

Stefndi (íslenska ríkið) krafðist sýknu og vísaði til þess að kröfurnar hafi stofnast í júní 2011 þegar ríkisskattstjóri kvað upp úrskurð um endurákvörðun opinberra gjalda.  Kröfurnar hafi því orðið til eftir að umræddur nauðasamningur var samþykktur og þær hafi því ekki átt að falla undir þann samning. 

Héraðsdómur Reykjavíkur kemst að þeirri niðurstöðu að viðbótarkröfur skattyfirvalda vegna endurákvörðunar ríkisskattstjóra í júní 2011 hafi stofnast við uppkvaðningu þess úrskurðar.  Sé þetta samkvæmt „viðurkenndri lögfræðilegri skilgreiningu“ á hugtakinu krafa.  Ekkert í  lögum eða öðrum réttarheimildum styðji þá skoðun stefnanda að kröfurnar hafi stofnast í lok rekstraráranna 2006 og 2007 enda ekki verið sýnt fram á að stefndi hafi í lok umræddra rekstrarára haft undir höndum upplýsingar og/eða önnur gögn sem sýnt hafi fram á tilvist þeirra viðbótarskattkrafna sem staðfestar voru með úrskurði yfirskattanefndar. 

Stefnandi byggði kröfur sínar einnig á því að skuldajöfnun tollstjóra frá 27. júní 2011 hefði verið ólögmæt. Hélt stefnandi því fram að ríkisskattstjóri hefði seinkað afgreiðslu kærunnar til að tollstjóri gæti skuldajafnað inneign á móti gjaldahækkun sem leiddi af rannsókn á skattskilum stefnanda. 

Stefndi vísaði því alfarið á bug að starfsmenn ríkisskattstjóra hafi gert sér það að leik að fresta afgreiðslu einstakra úrlausnarmála eftir hentugleika og misbeitt þannig valdi sínu. 

Í dómi héraðsdóms er komist að þeirri niðurstöðu að þótt dráttur hafi orðið á afgreiðslu skattkærunnar hafi stefnandi ekki hrakið þær skýringar stefnda að um hafi verið að kenna miklum málafjölda og vinnuálagi hjá ríkisskattstjóra vegna skattkerfisbreytinga sem urðu á stjórnsýslu skattamála 1. janúar 2010. Stefndi hafi gætt að málsmeðferðarreglum og m.a. tilkynnt stefnanda um að tafir yrðu á afgreiðslunni með sérstakri tilkynningu um tafir með svokölluðu tafabréfi. Skattkrafan hafi síðan verið afgreidd samkvæmt efni hennar þótt tafir hefðu orðið.

Þá féllst dómarinn ekki á það með stefnanda að tafir á afgreiðslu mála, þ.m.t. skattkæra, eigi almennt að valda ógildi ákvörðunarinnar nema alveg sérstakar ástæður komi til. Ekki verði séð að slíkar ástæður hafi verið til staðar í þessu máli. Dráttur á afgreiðslu kærunnar stóð því ekki í vegi fyrir þeim skuldajöfnuði sem framkvæmdur var enda var hann í samræmi við gildandi lagafyrirmæli.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum