Dómar

Dómur Hæstaréttar Íslands í máli nr. 626/2010

31.3.2011

Með dómi Hæstaréttar Íslands sem kveðinn var upp þann 31. mars 2011 var úrskurður ríkisskattstjóra dags. 26. maí 2010 felldur úr gildi og íslenska ríkið dæmt til að endurgreiða Bjarka H. Diego kr. 44.879.000 sem hann hafði greitt inn á þá skuld sem myndaðist þegar opinber gjöld hans voru endurákvörðuð með framangreindum úrskurði.

Ágreiningurinn í málinu snerist um það hvort í samningum áfrýjanda, um kaup- og sölurétt á hlutabréfum sem hann gerði við vinnuveitanda sinn, fælist tiltekin útfærsla á kauprétti og að tekjur af þessum samningum bæri að skattleggja sem laun þegar söluréttur féll úr gildi.
Áfrýjandi hélt því fram að ríkisskattstjóri hefði verið vanhæfur til að fjalla um málið vegna tiltekinna ummæla hans á opinberum vettvangi. Þá var því einnig haldið fram að tveggja ára frestur til endurákvörðunar samkvæmt 2. mgr. 97. gr. tekjuskattslaga hefði verið liðinn þegar úrskurður ríkisskattstjóra var kveðinn upp. Hæstiréttur Íslands staðfesti niðurstöðu héraðsdóms Reykjavíkur hvað varðar þessar tvær málsástæður og hafnaði þeim.
Í dómi Hæstaréttar kemur fram að þeir samningar sem áfrýjandi gerði við vinnuveitanda sinn voru ekki um kauprétt á hlutabréfum:
„Þess í stað fólu samningar áfrýjanda við félögin um margt í sér spegilmynd slíks kaupréttarsamnings, en fram hjá því verður á hinn bóginn ekki horft að endanleg niðurstaða eftir þessum tveimur leiðum verður í raun nánast sú sama.“
Þá kemur fram í forsendum Hæstaréttar að á grundvelli gagnkvæmra samninga áfrýjanda og vinnuveitanda um sölurétt og kauprétt hefðu tekjur áfrýjanda getað myndast annars vegar ef hann hefði neytt þess söluréttar sem um var samið og hins vegar ef áfrýjandi hefði losnað undan endurkauprétti vinnuveitanda síns á hlutabréfunum með því að starfa hjá honum í þrjú ár eftir að samningar voru gerðir. Í fyrra tilvikinu hefði áfrýjandi getað öðlast hagnað sem svaraði til mismunar á söluverði og markaðsverði hlutabréfanna að viðbættri umsaminni uppbót og álagi en í því síðara tekjur sem svöruðu til mismunar á markaðsverði hlutabréfanna og því verði sem kauprétturinn kvað á um ef hann hefði verið nýttur. Forsenda ríkisskattstjóra, þess efnis að hlutabréfakaup stefnanda hefðu ekki orðið endanleg fyrr en við lok tímabilsins þegar áfrýjandi mátti neyta söluréttarins og að þá yrði að telja áfrýjanda til tekna mismun á markaðsverði hlutabréfanna á því tímamarki og umsömdu kaupverði, var ekki talinn standast enda hefði eignarréttur að hlutabréfunum færst yfir til áfrýjanda við upphaf samningssambandsins.
Aðalkrafa áfrýjanda var þannig tekin til greina. Viðurkenningarkröfu hans um réttmæti þeirra gjaldstofna til álagningar tekjuskatts, útsvars og fjármagnstekjuskatts, sem tilgreindir voru í skattframtölum hans 2005 og 2006 var hafnað.
Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum