Yfirlýsing FATF vegna ósamvinnuþýðra ríkja frá 21. febrúar 2020

Ríkisskattstjóri vekur athygli á yfirlýsingu Financial Action Task Force (FATF) sem samþykkt var í kjölfar fundar hins alþjóðlega framkvæmdahóps hinn 21. febrúar sl. sem og ákalli FATF um aðgerðir frá sama degi.

Í ákalli FATF kemur fram að ríki skuli grípa til sérstakra fyrirbyggjandi varúðarráðstafana gagnvart Norður-Kóreu, enda steðji viðvarandi ógn að hinum alþjóðlega fjármálamarkaði vegna aðgerðarleysis ríkisins í aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Eru aðildarlönd hvött til að ráðleggja fjármálastofnunum að veita viðskiptasamböndum við- og færslum til/frá Norður-Kóreu, sérstaka athygli. Er þar m.a. átt við lögaðila, fjármálastofnanir og þá sem koma fram fyrir hönd Norður-Kóreu. Þá er því beint til aðildarlanda að beitt verði skilvirkum gagnaðgerðum og þvingunaraðgerðum í samræmi við viðeigandi ályktanir öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna í því skyni að vernda fjármálamarkaði fyrir hættum á peningaþvætti, fjármögnun hryðjuverka og fjármögnun gereyðingarvopna sem stafa frá Norður-Kóreu. Aðildarlönd ættu að grípa til nauðsynlegra aðgerða til að loka starfandi útibúum, dótturfyrirtækjum og skrifstofum Norður-Kóreskra banka innan sinnar löghelgi og segja upp millibankatengslum við Norður-Kóreska banka þar sem þess er krafist í viðeigandi ályktunum öryggisráðs SÞ.

Þá skal aukinni áreiðanleikakönnun beitt í viðskiptum við einstaklinga og lögaðila frá Íran. Er það til samræmis við áhættur í viðskiptasamböndum og millifærslum við einstaklinga og lögaðila frá Íran.

Í áðurnefndri yfirlýsingu FATF er að finna umfjöllun um úrbætur í málefnum tengdum aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka á alþjóðlegum vettvangi. Í skýrslunni er að finna lista yfir ríki sem hafa lýst yfir vilja til að framfylgja aðgerðaáætlun, sem unnin hefur verið í samstarfi við FATF, til að taka á þeim annmörkum sem eru til staðar á þessu sviði.

Þau ríki sem eru talin með annmarka eru eftirfarandi:

 • Albanía
 • Bahamaeyjar
 • Barbados
 • Botsvana
 • Gana
 • Ísland
 • Jamaíka
 • Jemen
 • Kambódía
 • Mauritius
 • Mongólía
 • Myanmar
 • Nicaragua
 • Pakistan
 • Panama
 • Simbabve
 • Sýrland
 • Úganda

Í samræmi við 6. gr. laga nr. 140/2018, skulu tilkynningarskyldir aðilar gefa aðilum frá nefndum ríkjum sérstakan gaum, m.t.t. aukinnar hættu á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og framkvæma aukna áreiðanleikakönnun í samræmi við 13. og 14. gr. laga nr. 140/2018, að undanskildum aðilum frá Íslandi.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum