Tilkynningarskyldir aðilar sem heyra undir eftirlit ríkisskattstjóra

(myndband opnast á youtube)

Ríkisskattstjóri hefur eftirlit með aðilum sem falla undir l.-u.-liði 1. mgr. 2. gr. laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka nr. 140/2018 (hér eftir pþl.)

Þeir aðilar eru eftirfarandi:*

  • Endurskoðunarfyrirtæki, endurskoðendur, skattaráðgjafar og aðilar sem færa bókhald eða sinna bókhaldsþjónustu fyrir þriðja aðila gegn endurgjaldi.

  • Lögmannsstofur, lögmenn og aðrir sérfræðingar í eftirfarandi tilvikum:

  1. þegar þeir sjá um eða koma fram fyrir hönd umbjóðanda síns í hvers kyns fjármála- eða fasteignaviðskiptum,

  2. þegar þeir aðstoða við skipulagningu eða framkvæmd viðskipta fyrir umbjóðanda sinn hvað varðar kaup og sölu fasteigna eða fyrirtækja,

  3. þegar þeir sjá um umsýslu peninga, verðbréfa eða annarra eigna umbjóðanda síns,

  4. þegar þeir opna eða hafa umsjón með banka-, spari- eða verðbréfareikningum,

  5. þegar þeir koma að öflun, skipulagningu eða umsjón með framlögum til að stofna, reka eða stýra fyrirtækjum,

  6. þegar þeir aðstoða við stofnun, rekstur eða stjórnun fyrirtækja, fjárvörslusjóða eða annarra sambærilegra aðila.

  • Fasteignasölur, bifreiðaumboð, fasteigna-, fyrirtækja-, skipa- og bifreiðasalar og fasteignafélög, hvort sem starfsemi snýst um beina leigu eða sölu þessara félaga á fasteignum.
  • Leigumiðlarar þegar mánaðarlegar leigugreiðslur nema 10.000 evrum eða meira.*
  • Listmunasalar eða listmunamiðlarar, þar á meðal listmunagallerí og uppboðshús, þegar um er að ræða viðskipti að fjárhæð 10.000 evrur eða meira.*
  • Skartgripa- og gullsalar, þegar um er að ræða viðskipti í einni greiðslu eða fleiri sem virðast tengjast hver annarri, að fjárhæð 10.000 evrur eða meira. *
  • Aðilar á sviði fjárvörslu og fyrirtækjaþjónustu.**
  • Aðilar sem í atvinnuskyni eiga viðskipti sem greitt er fyrir með reiðufé að fjárhæð 10.000 evrur eða meira.*
  • Aðilar sem hafa hlotið starfsleyfi á grundvelli laga um happdrætti eða til reksturs fjársafnana og happdrætta á grundvelli sérlaga.
  • Aðilar sem geyma eða eiga viðskipti með listmuni, sem eru geymdir á geymslusvæði fyrir ótollafgreiddar vörur skv. 1. Mgr. 69. Gr. tollalaga nr. 88/2005, þegar um er að ræða viðskipti í einni greiðslu eða fleiri sem virðast tengjast hver annarri, að fjárhæð 10.000 evrur eða meira. 

*Miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni.
**Aðilar sem eru á sviði fjárvörslu og fyrirtækjaþjónustu veita eftirfarandi þjónustu gegn gjaldi.

  1. aðstoðar við stofnun fyrirtækja eða annarra lögaðila,
  2. gegnir eða útvegar annan aðila til að gegna stöðu forstjóra eða framkvæmdastjóra fyrirtækis, stöðu meðeiganda í félagi eða sambærilegri stöðu hjá annarri tegund lögaðila,
  3. útvegar lögheimili eða annað skráð heimilisfang sem á svipaðan hátt er notað til að hafa samband við fyrirtækið eða aðra tengda þjónustu,
  4. starfar sem eða útvegar annan einstakling til að starfa sem fjárvörsluaðili sjóðs eða annars sambærilegs aðila,
  5. starfar sem eða fær annan einstakling til að starfa sem tilnefndur hluthafi fyrir annan aðila en fyrirtæki sem skráð er á skipulegum markaði.

Endurskoðendum, skattaráðgjöfum, aðilum sem færa bókhald eða sinna bókhaldsþjónustu fyrir þriðja aðila gegn endurgjaldi og lögmönnum er óheimilt að taka þátt í eða stuðla að viðskiptum sem ætlað er að dylja raunverulegt eignarhald lögaðila. Með raunverulega eignarhaldi er vísað til skilgreiningar 13. tl. 1. mgr. 3. gr. pþl. 

Skyldur tilkynningarskyldra aðila

Áhættumat

Samkvæmt 5. gr. pþl. skulu tilkynningarskyldir aðilar framkvæma áhættumat á rekstri sínum og viðskiptum. Matið skal innihalda skriflega greiningu og mat á hættu á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og skal m.a. taka mið af áhættuþáttum sem tengjast viðskiptamönnum, viðskiptalöndum eða -svæðum, vörum, þjónustu, viðskiptum, tækni og dreifileiðum. Við gerð áhættumats ber tilkynningarskyldum aðilum að hafa áhættumat ríkislögreglustjóra til hliðsjónar, sbr. 1. mgr. 5. gr. pþl. Nýjasta útgáfa áhættumats ríkislögreglustjóra má nálgast á vef Héraðssaksóknara. Áhættumat tilkynningarskyldra aðila skal taka mið af stærð, eðli og umfangi starfsemi þeirra og margbreytileika starfseminnar. Tilkynningarskyldur aðili skal jafnframt styðjast við reglugerð ráðherra um framkvæmd áhættumats.

Tilkynningarskylda

Samkvæmt 21. gr. pþl. skulu tilkynningarskyldir aðilar, starfsmenn þeirra og stjórnendur tilkynna skrifstofu fjármálagreininga lögreglu tímanlega um grunsamleg viðskipti og fjármuni sem grunur leikur á að rekja megi til refsiverðrar háttsemi. Tilkynningarskyldum aðilum er enn fremur skylt að gera skriflegar skýrslur um öll grunsamleg og óvenjuleg viðskipti sem eiga sér stað í starfsemi þeirra. Um varðveislu slíkra gagna fer skv. 28. gr. pþl.

Leiðbeiningar til tilkynningarskyldra aðila

Váþættir í starfsemi endurskoðenda

Váþættir í starfsemi fasteignasala

Váþættir í starfsemi lögmanna

Váþættir í starfsemi þar sem mikið er um reiðufjárnotkun

Váþættir varðandi veðmál og spilakassa

Váþættir varðandi bílaumboð og bílasala

Áreiðanleikakönnun

Tilkynningarskyldum aðilum er skylt að framkvæma áreiðanleikakönnun á viðskiptamönnum sínum.

Með áreiðanleikakönnun á viðskiptamönnum er átt við að tilkynningarskyldir aðilar skulu afla viðeigandi upplýsinga og gagna sem gerir þeim kleift að kanna hvaða áhætta á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka hver viðskiptamaður ber með sér.

Í 8. gr. pþl. eru tiltekin þau tilvik sem krefjast þess, að lágmarki, að áreiðanleikakönnun sé framkvæmd. Þau eru:

  1. við upphaf viðvarandi samningssambands,
  2. vegna einstakra viðskipta að fjárhæð 15.000 evrur eða meira miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni, hvort sem viðskiptin fara fram í einni færslu eða fleiri sem virðast tengjast hver annarri,
  3. við millifærslu fjármuna, sbr. 10. tl. 3. gr., þegar um einstök viðskipti er að ræða, hvort sem um er að ræða færslu fjármuna innan lands eða yfir landamæri, að fjárhæð 1.000 evrur erða meira miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni,
  4. við viðskipti með vöru eða þjónustu sem greitt er fyrir með reiðufé, hvort sem viðskiptin fara fram í einni greiðslu eða fleiri sem virðast tengjast hver annarri, að fjárhæð 10.000 evrur eða meira miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni,
  5. við útgreiðslu vinninga hjá tilkynningarskyldum aðilum skv. [t-lið] 1) 1. mgr. 2. gr. að fjárhæð 2.000 evrur eða meira miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni, hvort sem greiðslurnar fara fram í einni færslu eða fleiri sem virðast tengjast hver annarri,
  6. þegar grunur leikur á um peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka, án tillits til hvers konar undanþága eða takmarkana,
  7. þegar vafi leikur á því að fyrirliggjandi upplýsingar um viðskiptamann eða raunverulegan eiganda séu réttar eða nægilega áreiðanlegar.

Í 10. gr. pþl. er kveðið á um hvernig áreiðanleikakönnun skuli framkvæmd. Ákvæðið er útfært nánar í reglugerð nr. 745/2019 um áreiðanleikakönnun vegna aðgerða gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Áreiðanleikakönnun felst annars vegar í því að tilkynningarskyldur aðili afli viðeigandi upplýsinga um viðskiptamenn og viðskiptasambönd og hins vegar að þær upplýsingar sem aflað er séu sannreyndar með fullnægjandi hætti.

Tilkynningarskyldir aðilar skulu framkvæma áreiðanleikakönnun á viðskiptamönnum sínum áður en stofnað er til viðvarandi viðskiptasambands eða áður en einsskiptis viðskipti, sem nema tilgreindum fjárhæðarmörkum, eru framkvæmd.

Eftir að áreiðanleikakönnun hefur verið framkvæmd skal tilkynningarskyldur aðili viðhafa reglubundið eftirlit með viðskiptasambandinu og uppfæra upplýsingar verði breytingar á högum viðskiptamanns.

Tilkynningarskyldum aðilum er óheimilt að stunda viðskipti við aðila sem ekki hefur verið framkvæmd áreiðanleikakönnun á, sem ekki falla undir undantekningarreglu einsskiptis viðskipta. Í því samhengi skiptir ekki máli hvort stofnað var til viðskiptasambandsins fyrir eða eftir gildistöku peningaþvættislaganna. Neiti viðskiptavinur, eða af annarri ástæðu er ógerlegt að framkvæma áreiðanleikakönnun, skal ljúka viðskiptasambandi við hlutaðeigandi viðskiptamann og tilkynna til skrifstofu fjármálagreininga lögreglu.

Tilkynningarskyldum aðilum er heimilt að ganga langra en lögin kveða á um við framkvæmd áreiðanleikakönnunar, m.a. með tilliti til fjárhæðarmarka.

Aukin áreiðanleikakönnun

Í 13. gr. pþl. eru tilgreind þau tilvik þegar tilkynningarskyldum aðilum, sem falla undir l.-u. liði 1. mgr. 2. gr. pþl., er skylt að framkvæma aukna áreiðanleikakönnun. Aukin áreiðanleikakönnun felur í sér að afla skal aukinna upplýsinga um viðskiptamenn og viðskiptasambönd samhliða hefðbundnum ófrávíkjanlegum skyldum 10. gr. pþl. Beita skal aukinni áreiðanleikakönnun þegar um er að ræða:

  • viðskipti við aðila sem tengist áhættusömu eða ósamvinnuþýðu ríki,
  • viðskipti við einstaklinga í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla,
  • þegar áhættumat skv. 4. eða 5. gr. pþl. gefur til kynna mikla áhættu.

Þessu til viðbótar ber tilkynningarskyldum aðilum að rannsaka, eins og unnt er, bakgrunn og tilgang allra færslna sem eru flóknar eða óvenjulega háar, óvenjuleg viðskiptamynstur eða virðast hvorki hafa efnahagslegan né löglegan tilgang.

Í 14. gr. pþl. er kveðið á um hvaða viðbótarupplýsinga skuli að lágmarki afla við framkvæmd aukinnar áreiðanleikakönnun á viðskiptamönnum sem eru með búsetu eða staðfestu í áhættusömu ósamvinnuþýðu ríki. Þær eru:

  • auknar upplýsingar um viðskiptamann og raunverulegan eiganda,
  • eðli samningssambands,
  • uppruna fjármuna og auðs,
  • tilgang viðskipta,

Einnig þarf að:

  • afla samþykkis yfirstjórnar fyrir viðskiptasambandinu,
  • viðhafa aukið reglubundið eftirlit, auk þess sem
  • fyrsta greiðsla skal vera innt af hendi í nafni viðskiptamanns og af reikningi hans í fjármálafyrirtæki sem lýtur sambærilegum kröfum og tilkynningarskyldir aðilar samkvæmt peningaþvættislögum.

Til viðbótar við framangreint skal tilkynningarskyldur aðili, til þess að draga úr áhættu og eftir því sem við á, einnig beita einum eða fleiri eftirfarandi þáttum:

  • Viðbótarþáttum vegna aukinnar áreiðanleikakönnunar, sem tilkynningarskyldur aðili hefur sjálfur ákvarðað hverjir skuli vera, á grundvelli áhættumats,
  • Hafa aukið eða kerfisbundið eftirlit með framkvæmd viðskipta,
  • Draga úr eða takmarka samningssamband eða viðskipti við einstaklinga, lögaðila eða aðra sambærilega aðila frá áhættusömum ríkjum.

Í 17. gr. pþl. er kveðið á um hvaða viðbótarupplýsinga skuli að lágmarki afla við framkvæmd aukinnar áreiðanleikakönnun á viðskiptamönnum sem eru með stjórnmálaleg tengsl. Í slíkum tilvikum þarf að:

  • afla samþykkis yfirstjórnar fyrir viðskiptasambandinu,
  • rannsaka uppruna fjármuna og auðs,
  • viðhafa aukið reglubundið eftirlit.

Rétt er að taka fram að ef staða viðskiptamanns breytist á samningstímabilinu skal:

  • Teljist með stjórnmálaleg tengsl
  • Framkvæma aukna áreiðanleikakönnun í samræmi við framangreint og afla samþykkis yfirstjórnar fyrir áframhaldandi samningssambandi.
  • Teljist ekki lengur með stjórnmálaleg tengsl
  • Viðkomandi skal sæta auknu eftirliti í samræmi við framangreint að lágmarki næstu 12 mánuði og þar til áhætta sem stafar af fyrri störfum telst ekki lengur til staðar.

Framkvæmd aukinnar áreiðanleikakönnunar á grundvelli áhættumats skv. 4. eða 5. gr. pþl. felur í sér að afla skal viðbótarupplýsinga samhliða ófrávíkjanlegum þáttum 10. gr. pþl. í samræmi við þá áhættu sem af viðskiptasambandinu leiðir. Í 10. gr. reglugerðar nr. 745/2019 um áreiðanleikakönnun vegna aðgerða gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka er fjallað um öflun aukinna upplýsinga við framkvæmd aukinnar áreiðanleikakönnunar. Þar er m.a. nefnt að tilkynningarskyldir aðilar geti aflað eftirfarandi upplýsinga:

  • upplýsinga um fjölskyldumeðlimi og nána samstarfsmenn,
  • upplýsingar um núverandi eða fyrri viðskipti viðskiptamanns og
  • neikvæð fjölmiðlaumfjöllun

Í 11. gr. reglugerðarinnar er fjallað um aukin gæði upplýsinga sem aflað er við framkvæmd aukinnar áreiðanleikakönnunar. Þar er m.a. nefnt að tilkynningarskyldur aðili geti gripið til eftirfarandi aðgerða:

  • Fyrsta greiðsla skuli vera innt af hendi í nafni viðskiptamanns og af reikningi hans í fjármálafyrirtæki sem lýtur sambærilegum kröfum og tilkynningarskyldir aðilar samkvæmt peningaþvættislögum.
  • Staðfesta að auður viðskiptamanns og fjármunir sem notaðir eru í viðskiptunum séu ekki ágóði refsiverðrar háttsemi og séu í samræmi við vitneskju tilkynningarskylda aðilans um viðskiptamanninn m.a. með því að fá upplýsingar úr virðisaukaskattsskýrslum, skattaskýrslum, ársreikningum eða launaseðlum. 

Stjórnmálaleg tengsl

Samkvæmt 17. gr. peningaþvættislaga skulu tilkynningarskyldir aðilar hafa viðeigandi kerfi, ferla og aðferðir til að meta hvort viðskiptamaður hans, eða raunverulegur eigandi viðskiptamanns, sé í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla.

Með stjórnmálalegum tengslum eiga við um aðila sem eru eða hafa verið háttsettir í opinberri þjónustu, nánasta fjölskylda þeirra og einstaklingar sem vitað er að eru nánir samstarfsmenn þeirra. Skilgrein á því hverjir teljast til þessa hóps má finna í 6. tl. 1. mgr. 3. gr. peningaþvættislaga.

Sjá reglugerð nr. 1420/2020 um einstaklinga í áhættuhópi vegna stjórnmálalegratengsla með tilliti til aðgerðar gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands hefur gefið út lista yfir þau starfsheiti sem teljast til háttsetta opinberra starfa. 

Ábyrgðarmaður og þjálfun starfsmanna

Samkvæmt 34. gr. pþl. er tilkynningarskyldum aðilum skylt að tilnefna einn úr hópi stjórnenda sem sérstakan ábyrgðarmann sem að jafnaði annast tilkynningar í samræmi við 21. gr. pþl. og hefur skilyrðislausan aðgang að áreiðanleikakönnun viðskiptamanna, viðskiptum eða beiðnum um viðskipti ásamt öllum þeim gögnum sem skipt geta máli vegna tilkynninga. Tilkynna skal skrifstofu fjármálagreiningar lögreglu um tilnefningu ábyrgðarmanns. Ábyrgðarmaður skal sjá til þess að innleiddar séu stefnur, reglur og verkferlar sem stuðli að samræmdum starfsaðferðum og góðri framkvæmd laganna í starfsemi tilkynningarskyldra aðila.

Tilkynningarskyldum aðilum ber að fullnægja fræðsluskyldu gagnvart starfsmönnum sínum, sbr. 33. gr. pþl. Þjálfun starfsmanna skal innihalda leiðbeiningar um hvernig áreiðanleikakönnun skal framkvæmd, tilkynningarskyldu starfsmanna og að starfsmenn séu vel upplýstir um hvað felst í og hverjar birtingarmyndir peningaþvættis og fjármögnunar hryðjuverka eru. Fræðsla þessi skal fara fram við upphaf starfs og síðan með reglubundnum hætti. Fræðslan skal taka mið af stærð, eðli og umfangi starfsemi hins tilkynningarskylda aðila.

Tilkynningarskyldum aðilum ber að setja sér reglur um athugun á bakgrunni umsóknaraðila um ný störf. Þá skulu tilkynningarskyldir aðilar setja sér reglur um í hvaða tilvikum skuli krafist sakavottorðs og staðfestingu á ferli og fyrri störfum umsækjenda.

Skráningarskylda

Eftirtaldir aðilar eru skráningarskyldir hjá RSK, sbr. 36. gr. pþl.:

  1. Aðilar á sviði fjárvörslu og fyrirtækjaþjónustu
  2. Aðilar sem færa bókhald eða sinna bókhaldsþjónustu fyrir þriðja aðila
  3. Skattaráðgjafar
  4. Aðilar sem selja eðalmálma og –steina.
  5. Listmunasalar og –miðlarar, þar á meðal listmunagallerí og uppboðshús

Væntingar eftirlitsaðila til tilkynningarskyldra aðila

Ríkisskattstjóri viðhefur áhættumiðað eftirlit með aðilum sem falla undir l. – u. lið 1. mgr. 2. gr. pþl. Við framkvæmd eftirlits kallar ríkisskattstjóri ýmist eftir gögnum og/eða framkvæmir vettvangsathugun á starfsstöð tilkynningarskylda aðilans.

Við framkvæmd eftirlits kannar ríkisskattstjóri hvort áhættumat og viðeigandi ferlar og stýringar eru til staðar hjá eftirlitsskylda aðilanum og hvort starfað sé samkvæmt þeim. Þá kannar ríkisskattstjóri hvort áreiðanleikakannanir viðskiptamanna séu framkvæmdar með fullnægjandi hætti, m.t.t. gagnaöflunar og varðveislu gagna. Framkvæmd er athugun á fræðslu og þjálfun starfsmanna, störfum ábyrgðarmanns og hvort innri reglur og verkferlar séu fullnægjandi.

Samhliða framangreindu framkvæmir ríkisskattstjóri athugun á hlítni tilkynningarskylda aðilans við lög nr. 68/2023 um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða og frystingu fjármuna. 

Nánari umfjöllun um skyldur tilkynningarskyldra aðila samkvæmt frystingarlögum

Traustir stjórnarhættir

  • Yfirsýn og þátttaka af hálfu stjórnar og framkvæmdarstjórnar vegna stefnu, stýringa og verkferla
  • Sjálfstæð og skilvirk regluvarsla og innri endurskoðun
  • Skilvirkt ferli fyrir tilkynningar

Öflug áhættuvitund

  • Skýr ábyrgð á áhættu tengdri peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, þ.á.m. af hálfu starfsmanna í framlínu
  • Fullnægjandi leiðbeiningar til að takast á við sértæka áhættu vegna peningaþvættis og fjármögnunar hryðjuverka.

Árangursrík framkvæmd

  • Reglubundnar athuganir; sjálfstæð staðfesting á uppruna fjármagns og uppruna auðs viðskiptavina sem fela í sér mikla áhættu
  • Viðvarandi áhættumiðað eftirlit til samræmis við þá áhættu sem viðskiptavinur hefur í för með sér
  • Öflugir ferlar til að stýra áhættuþáttum

Fræðsluefni frá stýrihópi um varnir gegn peningaþvætti o.fl.

Almannaheillafélög - góðir starfshætti

Áhættumat

Áreiðanleikakönnun  

Áhættusöm ríki  

Ábyrgðarmaður  

Þjálfun starfsmanna  

Alþjóðlegar þvingunaraðgerðir

Ítarefni

Skammstafanir

Lög um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka nr. 140/2018 (pþl.)
Financial action task force (FATF)
Tilkynningarskyldir aðilar (TA)
Skrifstofa fjármálagreiningar lögreglu (SFL)
Ríkisskattstjóri (RSK)
Fjármálaeftirlitið (FME)
Ríkislögreglustjóri (RLS)

Fræðsluefni fyrir tilkynningarskylda aðila

l. liður 1. mgr. 2. gr. pþl. Endurskoðendur, skattaráðgjafar og aðilar sem færa bókhald eða sinna bókhaldsþjónustu.

m. liður 1. mgr. 2. gr. pþl. Lögmenn, í vissum tilvikum. http://www.fatf-gafi.org/media/fatf/documents/reports/ML%20and%20TF%20vulnerabilities%20legal%20professionals.pdf

https://www.fatf-gafi.org/content/fatf-gafi/en/publications/Fatfrecommendations/Rba-legal-professionals.html

https://www.lawsociety.org.uk/support-services/documents/iba-aml-typologies-report/

https://www.anti-moneylaundering.org

n. og o. liðir 1. mgr. 2. gr. pþl. Fasteigna- fyrirtækja- og skipasalar og jafnframt leigumiðlarar

http://www.fatf-gafi.org/media/fatf/documents/reports/ML%20and%20TF%20through%20the%20Real%20Estate%20Sector.pdf

p. liður 1. mgr. 2. gr. pþl. Listmunasalar, listmunamiðlarar, gallerí og uppboðshús

q. liður 1. mgr. 2. gr. pþl. Aðilar á sviði fjárvörslu og fyrirtækjaþjónustu

r. liður 1. mgr. 2. gr. pþl. Einstaklingar og lögaðilar sem í atvinnuskyni eiga viðskipti í reiðufé yfir 10.000 evrur.

Eðalmálmar: https://www.fatf-gafi.org/content/fatf-gafi/en/publications/Methodsandtrends/Ml-tf-risks-and-vulnerabilities-gold.html

Eðalsteinar: http://www.fatf-gafi.org/media/fatf/documents/reports/ML-TF-through-trade-in-diamonds.pdf

s. liður 1. mgr. 2. gr. pþl. Happdrætti og fjársafnanir

https://www.fatf-gafi.org/content/fatf-gafi/en/publications/Methodsandtrends/Vulnerabilitiesofcasinosandgamingsector.html

Fyrirlestur starfsmanna RSK um peningaþvætti 28. maí 2019 (Opnast á youtube.com

Almennt efni um peningaþvætti

Lög 140/2018 um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka

Tilmæli FATF - International standards on combating money laundering and the financing of terrorism & proliferation

Skýrsla FATF - Money laundering/terrorist financing risks and vulnerabilities associated with gold

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum