Nauðungarsala

Nauðungarsala er aðgerð til að koma eign í verð á opinberu uppboði til að greiða þær skuldir sem hvíla á eigninni.
Til þess að hægt sé að krefjast nauðungarsölu þarf krafa (skuld) að vera tryggð með veði í eigninni, lögveði eða veði fengið með fjárnámi, sjá 6. grein laga númer 90/1991, um nauðungarsölu.

Framkvæmd nauðungarsölu

Sýslumenn sjá um framkvæmd nauðungarsölu hver í sínu umdæmi. Þeir sem eiga kröfur með veði í eignum (fasteignum, skipum eða lausafé) í vanskilum geta sent beiðni um nauðungarsölu til sýslumanns.

Auglýsingar

Sýslumönnum er skylt að auglýsa uppboð í dagblöðum eða á annan samsvarandi hátt og tilkynna gerðarþola (þeim sem á eignina) hvar uppboð eiga að fara fram og á hvaða tíma. Fyrsta fyrirtaka er auglýst í Lögbirtingablaðinu, byrjun uppboðs og framhaldssala eru auglýst í dagblöðum, á vef sýslumanna eða á annan samsvarandi hátt (sjá 20. grein laga númer 90/1991 og 2. málsgrein 26. greinar laga númer 90/1991).

Auglýsingar um nauðungarsölur á vef sýslumanna

Nauðungarsala

Nokkuð mismunandi reglur gilda um framkvæmd nauðungarsölu eftir því hvaða eign er á uppboði en í öllum tilvikum er um að ræða kröfu sem tryggð er með veðréttindum í eigninni, fjárnámi eða lögveði.

  • Nauðungarsala á fasteignum, skipum og flugvélum (sjá IV. kafla laga númer 90/1991)
  • Nauðungarsala á bifreiðum (sjá X. og Xl. kafla laga númer 90/1991)
  • Nauðungarsala á lausafjármunum (sjá X. kafla og Xl. kafla laga númer 90/1991)

Nauðungarsala á fasteignum, skipum og loftförum

Nauðungarsala fer fram í þremur þrepum:  fyrsta fyrirtaka – byrjun uppboðs – framhaldssala.

  1. Fyrsta fyrirtaka. Þegar  beiðni um nauðungarsölu hefur borist sýslumanni fer fram fyrsta fyrirtaka á skrifstofu sýslumanns. Þar er beiðni  tekin fyrir og ákveðið hvenær byrjun uppboðs skuli fara fram (sjá 21. grein laga númer 90/1991).
    • Fyrstu fyrirtöku er aldrei frestað né auglýsingu í Lögbirtingablaði.
    • Gerðarþoli þarf ekki að mæta við fyrstu fyrirtöku nema hann geti borið upp raunhæf mótmæli gegn kröfu á hendur sér.
    • Ef óska á eftir að nauðungarsala fari fram á almennum markaði verður gerðarþoli eða einhver í hans umboði að mæta og bera fram óskina.
  2. Byrjun uppboðs fer fram á skrifstofu sýslumanns 4 – 6 vikum eftir fyrstu fyrirtöku. Er þá eign boðin upp í fyrsta skipti og ákveðið hvenær framhaldssala skuli fara fram (sjá 26. grein laga númer 90/1991).
    • Fresta má byrjun uppboðs í allt að 12 mánuði frá fyrstu fyrirtöku (sjá 2. málsgrein 27. greinar laga númer 90/1991).
    • Það eru gerðarbeiðendur (kröfuhafar) sem ákveða hve lengi byrjun uppboðs er frestað, þó aldrei lengur en eitt ár frá fyrstu fyrirtöku. Gerðarþoli þarf að hafa samband við gerðarbeiðendur og fara fram á að byrjun uppboðs verði frestað. 
    • Gerðarþoli þarf ekki að mæta við byrjun uppboðs.  Þó er rétt að mæta ef gerðarbeiðendur eru fleiri en einn og óska á eftir frestum hafi ekki tekist að ná til allra í tíma.
  3. Framhaldssala er lokastig nauðungarsölu og er framkvæmd á eigninni sjálfri sem á að bjóða upp. Framhaldssala verður að fara fram innan 4 vikna frá því að byrjun uppboðs fer fram (sjá 35. grein laga númer 90/1991).
    • Sýslumaður eða fulltrúi hans mætir ásamt gerðarbeiðendum og þeim sem eiga þinglýst réttindi í eigninni.  Uppboð eru öllum opin og getur því hver sem er mætt á nauðungarsölu eignar.  Eiganda ber að veita sýslumanni aðgang að húsnæði. Sé það ekki gert hefur sýslumaður heimild til að leita aðstoðar lögreglu til að opna húsnæðið (sjá 3. málsgrein 36. greinar laga númer 90/1991).
    • Sýslumaður leitar eftir boðum í eignina þrisvar sinnum og er eign venjulega slegin hæstbjóðanda.   Hver sem er getur boðið í eign en gerðarþoli sjálfur má ekki bjóða í sína eign. Sýslumaður getur krafist þess að lögð sé fram trygging fyrir þeirri fjárhæð sem boðin er í eign (sjá 5. málsgrein 32. greinar laga númer 90/1991).
    • Framhaldssölu er ekki hægt að fresta (sjá 35. grein laga númer 90/1991).

Loftför og skip

Framhaldssala á loftförum og skipum fer fram á skrifstofu sýslumanns vegna þess að erfitt getur reynst að henda reiður á staðsetningu skips eða loftfars.

Samþykkisfrestur

Þeir sem gera boð í eign eru bundnir við boð sitt í 3 vikur, sýslumaður hefur þann tíma til að meta og samþykkja boð í eign. Að þessum fresti liðnum er gengið frá sölu eignarinnar og nýr eigandi fær hana gegn greiðslu (sjá 28. grein laga númer 90/1991 og Stjórnartíðindi, auglýsing númer 41/1992 um almenna uppboðsskilmála). Uppboðsandvirði er síðan skipt milli kröfuhafa eftir veðröð. Ef allar kröfur fást greiddar og afgangur verður rennur sú fjárhæð til gerðarþola.

Lengdur samþykkisfrestur 

Gerðarþoli getur óskað eftir lengri samþykkisfresti en 3 vikum (sjá 29. grein laga númer 90/1991). Það eru gerðarbeiðendur sem ákveða hvort veittur er lengri samþykkisfrestur og hve langur hann skuli vera. Ekki er óalgengt að beðið sé um 4 – 6 vikur.  Gerðarþoli verður því að hafa samband við alla gerðarbeiðendur áður en framhaldssala á að fara fram og biðja um lengri samþykkisfrest. Einnig þarf að láta sýslumann vita að óskað verði eftir lengri samþykkisfresti. Það er nóg að einn gerðarbeiðandi neiti til að lengdur samþykkisfrestur verði ekki veittur.

Gjaldendum er bent á að hafa samband við þjónustufulltrúa lögfræðideildar innheimtu- og skráasviðs Skattsins, Katrínartúni 6, sími 442-1000, til að fá frekari upplýsingar.

Réttaráhrif nauðungarsölu

Þegar eign er seld nauðungarsölu og nýr eigandi tekur við henni falla niður öll fjárnám á eigninni (sjá 56. grein laga númer 90/1991). Krafa sem ekki fæst greidd af uppboðsandvirði fellur hins vegar ekki niður, aðeins trygging hennar, og verði hún ekki greidd skömmu eftir uppboð þarf að gera nýtt fjárnám til að tryggja hana.

Afturköllun uppboðsbeiðni

Meginreglan er sú að greiða þarf kröfu að fullu til að beiðni verði afturkölluð. Ef krafa að baki beiðni um nauðungarsölu er tilkomin vegna áætlana úr skattkerfinu getur gjaldandi staðfest framtalsskil við þjónustufulltrúa lögfræðideildar innheimtu- og skráasviðs Skattsins Katrínartúni 6, sími 442-1000, sem veita einnig allar frekari upplýsingar.

Frestir

Óski gjaldandi eftir að fá byrjun uppboðs frestað skal hafa samband við innheimtumann ríkissjóðs.  Þegar athugað er hvort unnt sé að fresta byrjun uppboðs eru ýmsir þættir skoðaðir varðandi kröfu sem verið er að innheimta svo sem hvort um er að ræða kröfu vegna áætlana skattyfirvalda, hve gömul krafan er og hversu há.  Einnig er skoðað hvort áður hafi verið gerður greiðsluáætlun um kröfu og hvort staðið hafi verið við hana.

Byrjun uppboðs er ekki hægt að fresta lengur en 12 mánuði frá fyrstu fyrirtöku.

Þegar beðið er um frest og um er að ræða kröfu vegna áætlana skattyfirvalda er mikilvægt að skila inn skattskýrslum til ríkisskattstjóra og koma með staðfestingu á því til innheimtumanns ásamt bráðabirgðaútreikningi.

Nauðungarsala fasteigna á almennum markaði

Þegar beiðni um nauðungarsölu hefur verið send til sýslumanns getur gerðarþoli (sá sem á eignina) óskað eftir að eignin verði seld á almennum markaði.  

Um nauðungarsölu á almennum markaði gilda sérstakar reglur sem nauðsynlegt er að kynna sér áður en ósk um það er sett fram (sjá VI. kafla laga númer 90/1991).

Nauðungarsala á bifreiðum

Bifreiðar eru skilgreindar sem lausafé og fer nauðungarsala á bifreiðum eftir öðrum reglum en nauðungarsala á fasteignum, skipum og loftförum (sjá 61. grein laga númer 90/1991).

Heimild til nauðungarsölu á bifreiðum byggir á veði sem er annaðhvort lögveð (kílómetragjald, sérstakt kílómetragjald, vanrækslugjald) eða veð á grundvelli fjárnáms.

Sýslumaður í hverju umdæmi annast bifreiðauppboð. Á höfuðborgarsvæðinu fara bifreiðauppboð að jafnaði fram fyrsta laugardag í hverjum mánuði nema í júlímánuði. Bifreiðauppboð eru auglýst í dagblaði einu sinni með viku fyrirvara. Auglýsingu bifreiðauppboða er ekki frestað. Aðeins er haldið eitt uppboð þegar bifreiðar og annað lausafé er boðið upp. Þeir sem eiga hæsta boð í bifreið á uppboði þurfa að staðgreiða söluverð bifreiða sem þar eru keyptar. Nýr eigandi fær bifreiðina veðbandalausa.

Vörslusvipting

Þegar beiðni um nauðungarsölu á bifreið er send sýslumanni er óskað eftir heimild til vörslusviptingar. Eftir að heimild til vörslusviptingar liggur fyrir getur eigandi slíkrar bifreiðar átt von á að bifreiðin verði tekin úr hans vörslu og færð til geymslu þar til uppboð fer fram (sjá 59. gr laga númer 90/1991).

Frestir

Hægt er að óska eftir fresti á vörslusviptingu og uppboði bifreiðar.  Nánari upplýsingar veita þjónustufulltrúar lögfræðideildar innheimtu- og skráasviðs Skattsins, Katrínartúni 6, sími 442-1000.

Nauðungarsala á lausafé

Heimild til nauðungarsölu á lausafé öðru en bifreiðum byggir á veði sem fengið er með fjárnámi eða að viðkomandi hlutur hefur verið settur að veði til tryggingar peningakröfu. Uppboð á lausafé er auglýst í dagblöðum og eru venjulega haldin sérstök uppboð fyrir allt annað en bifreiðar.

Vörslusvipting lausafjár

Það fer eftir eðli og umfangi lausafjár hvort gerðarþolar eru sviptir vörslum þeirra fyrir uppboð eða ekki. Sýslumaður ákveður hvort taka skuli hlut úr vörslum gerðarþola. Skylt er að afhenda lausafé til þess sem hefur gert fjárnám í því ef sýslumaður hefur heimilað vörslusviptingu. Ef gerðarþoli neitar að afhenda hlut er aðstoðar sýslumanns leitað (sjá 59. grein laga númer 90/1991).

Frestir

Sömu reglur gilda um frestun vörslusviptingar á  lausafé almennt og vörslusviptingu á bifreiðum.


Lög og reglur

Lög nr. 90/1991 um nauðungarsölu
Lög nr. 39/1988 um bifreiðagjald
Lög nr. 87/2004 um olíugjald og kílómetragjald


Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum