Skipurit ríkisskattstjóra

Embætti ríkisskattstjóra skiptist upp í fjögur megin svið sem eru einstaklingsvið, atvinnurekstrarsvið, eftirlitssvið og skráasvið. Auk þess eru fimm stoðsvið hjá stofnuninni, þ.e. fagsvið, tæknisvið, fjármálasvið, mannauðssvið og skrifstofa yfirstjórnar. Meginverkefni hvers sviðs er að finna hér neðar.

 

Skipurit_RSK_agust_2018_1533113621578

Framleiðslusvið

Einstaklingssvið

Meginverkefni einstaklingssviðs er að annast álagningu skattframtala einstaklinga og veita gjaldendum þjónustu og upplýsingar varðandi skattamál. Undir sviðið heyrir öll vinnsla framtala, kæruafgreiðsla og afgreiðsla skatterinda einstaklinga. Ennfremur heyrir þjónustuver ríkisskattstjóra undir einstaklingssviðið.

Atvinnurekstrarsvið

Á atvinnurekstrarsviði eru meginverkefnin að annast álagningu skattframtala og virðisaukaskatts rekstraraðila, jafnt einstaklinga sem lögaðila. Undir sviðið heyrir öll vinnsla framtala, kæruafgreiðsla og afgreiðsla skatterinda rekstraraðila. Ennfremur sér sviðið um endurútreikning á leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána sem og ráðstöfun á séreignarsparnaði til að greiða inn á höfuðstól veðlána sem tekin voru vegna öflunar (kaupa eða byggingar) á íbúðarhúsnæði til eigin nota. 

Eftirlitssvið

Eftirlitssviðið sér um að yfirfara gögn og upplýsingar um skattskil lögaðila og einstaklinga í þeim tilgangi að greina vantalda skattstofna og endurákvarða opinber gjöld. Í því felst að skapa varnaðaráhrif og vera leiðbeinandi og með þeim hætti tryggja jafnræði meðal skattaðila. Sviðið sér einnig um áhættugreiningar. Auk þess sér sviðið um endurákvarðanir í málum sem koma frá skattrannsóknarstjóra ríkisins.

Skráasvið

Meginverkefni skráasviðs er að halda utan um lögbundnar skrár, s.s. fyrirtækjaskrá, hlutafélagaskrá, firmaskrá og ársreikningaskrá. Halda þarf þessum skrám reglubundið við svo þær séu sem réttastar hverju sinni. Sviðið sér um upplýsinga- og vottorðagjöf og hefur eftirlit með áreiðanleika upplýsinga sem og alþjóðlegum reikningsskilastöðlum.

Stoðsvið

Skrifstofa yfirstjórnar

Helstu verkefni sem skrifstofa yfirstjórnar sér um eru þróunarmál, stefnumótun, erlend samskipti vegna alþjóðasamninga, greining á áreiðanleika gagna, milliverðlagningu og skattatölfræði. Auk þess sér skrifstofan um alla prentun og hönnun.

Fagsvið

Meginverkefni fagsviðs eru fræðslumál, upplýsingamiðlun og samræmingarmál en sviðið sér um útgáfu handbóka, verklagsreglna og leiðbeininga, sér um að samræma skattframkvæmd og heldur námskeið fyrir starfsmenn ríkisskattstjóra og viðskiptavini.

Tæknisvið

Tæknisvið sér um hugbúnaðar- og vélbúnaðarmál embættisins. Í því felst rekstur á hugbúnaðarkerfum, tölvum, staðalbúnaði og gagnagrunnum. Auk þess sér sviðið um álagningarmál (álagningarstjórnun, regluprófanir o.fl.) og hefur yfirumsjón með staðgreiðslu.

Fjármálasvið

Meginverkefni fjármálasviðs snúa að rekstri, líkt og bókhaldi, áætlanagerð, innkaupum o.þ.h., en undir sviðið fellur líka innri þjónusta eins og málaskráning.

Mannauðssvið

Mannauðssvið hefur yfirumsjón með ráðningum, sér um launavinnslu og mótar og viðheldur starfsmannastefnu. Undir sviðið fellur einnig útgáfa fréttablaðsins Tíundar og ársskýrslu embættisins.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum