Fréttir og tilkynningar


Aðgerðir stjórnvalda til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar faraldurs kórónuveiru

1.4.2020

Birt hafa verið lög nr. 25/2020 sem samþykkt voru á Alþingi þann 29. mars 2020 um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru.

 Hér á eftir eru talin upp helstu atriði laganna sem lúta að innheimtu skatta og gjalda til ríkissjóðs.

 

Greiðslufrestur vegna aðflutningsgjalda (tolla, vörugjalda, virðisaukaskatts o.fl.) 

Gjalddagi aðflutningsgjalda, hjá aðilum sem njóta greiðslufrests á aðflutningsgjöldum, vegna uppgjörstímabilanna mars og apríl, maí og júní, júlí og ágúst, september og október og nóvember og desember á árinu 2020 verður 5. dagur annars mánaðar eftir lok uppgjörstímabils. Af þessu leiðir svo dæmi sé tekið að gjalddagi vegna alls uppgjörstímabilsins mars og apríl færist til 5. júní næstkomandi.Breytingin hefur einnig í för með sér að innflytjendum er veittur 20 daga aukinn frestur til að skila virðisaukaskatti í tolli (tollkrít) vegna innflutnings.

 

Heimild til niðurfellingar álags á virðisaukaskatt 

Á árinu 2020 frá gildistöku laganna er Skattinum heimilt, samkvæmt tilmælum eða að höfðu samráði við ráðherra, að fella niður álag á virðisaukaskatt, tímabundið eða ótímabundið, enda hamli utanaðkomandi eða óviðráðanleg atvik almennt greiðslu virðisaukaskatts á réttum tíma. Í 27. gr. laga um virðisaukaskatt kemur fram að sé virðisaukaskattur ekki greiddur á tilskildum tíma skuli aðili sæta álagi til viðbótar skatti samkvæmt virðisaukaskattsskýrslu eða til viðbótar þeim skatti sem honum bar að standa skil á. Álag samkvæmt þessu ákvæði skal vera 1% af þeirri fjárhæð, sem vangreidd er, fyrir hvern byrjaðan dag eftir gjalddaga, þó ekki hærra en 10%. Á grundvelli framangreindrar heimildar hefur verið ákveðið að falla frá álagi samkvæmt 27. gr. laganna vegna virðisaukaskattsskila 6. apríl nk. Sjá nánar hér.

Frestun gjalddaga staðgreiðslu og tryggingagjalds

Launagreiðendum er heimilt að sækja um frestun á skilum á allt að þremur greiðslum af afdreginni staðgreiðslu af launum og staðgreiðslu tryggingagjalds sem eru á gjalddaga 1. apríl til og með 1. desember 2020. Gjalddagi og eindagi þeirra greiðslna sem frestað er að uppfylltum skilyrðum er 15. janúar 2021. Launagreiðandi skal hafa sótt um frestun á skilum til Skattsins í síðasta lagi á eindaga viðkomandi greiðslutímabila (umsókn liggi fyrir). Ákveðin skilyrði eru fyrir frestun gjalddaga.

Lesa nánar

 

Skipting gjalddaga í staðgreiðslu launagreiðenda og tryggingagjalds 1. mars 2020 

Samkvæmt lögum nr. 17/2020 var helmingi þeirrar staðgreiðslu af launum sem var á gjalddaga 1. mars ásamt helmingi staðgreiðslu tryggingagjalds á sama gjalddaga frestað til 1. apríl 2020 með eindaga 14 dögum síðar. Gjalddaginn 1. apríl 2020 á framangreindum greiðslum var síðan fluttur til 1. janúar 2021 og eindagi 14 dögum síðar samkvæmt lögum sem samþykkt voru 29. mars 2020. Gjalddaganum er frestað sjálfkrafa og því ekki þörf á sérstakri umsókn um það. Fyrri helmingur greiðslunnar var aftur á móti á gjalddaga 1. mars 2020 og eindaga 16. sama mánaðar.

Gistináttaskattur er felldur niður tímabundið

Gistináttaskattur er felldur niður tímabundið á tímabilinu 1. apríl 2020 til og með 31. desember 2021 vegna þeirrar gistiþjónustu sem er veitt og nýtt innan framangreinds tímabils. Gjaldskyldan stendur aftur á móti óbreytt fyrstu þrjá mánuði ársins 2020 en gjalddögum vegna fyrrgreindra uppgjörstímabila er frestað til 5. febrúar 2022.

Tollafgreiðslugjald fellur niður tímabundið 

Tollafgreiðslugjald vegna tollafgreiðslu flugvéla og skipa utan almenns afgreiðslutíma fellur niður frá 1. apríl 2020 til og með 31. desember 2021.

Lækkun sérstaks skatts á fjármálafyrirtæki (bankaskatts)

Sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki lækkar. Þessi skattur átti að lækka í þrepum í fjórum áföngum á árunum 2021-2024 þannig að gjaldhlutfallið yrði 0,145% frá og með álagningarárinu 2024 en hefur nú verið flýtt þannig að strax á árinu 2021 verður gjaldhlutfallið fært niður í 0,145% á skattstofn vegna skulda í árslok 2020.

Fyrirframgreiðsla upp í tekjuskatt lækkar eða fellur niður tímabundið

Samkvæmt 5. gr. nýsettra laga var ráðherra heimilað að setja reglugerð um lækkun eða niðurfellingu fyrirframgreiðslu lögaðila upp í tekjuskatt sem álagður verður á árinu 2020 vegna tekna ársins 2019, eða ákvarða aðra gjalddaga fyrirframgreiðslna en mælt er fyrir um í tekjuskattslögum, nr. 90/2003. Ráðherra hefur þegar sett reglugerð númer 283/2020 þar sem fram kemur að lögaðilar hafi val um hvort þeir greiði fyrirframgreiðslu tekjuskatts á gjalddögunum 1. apríl, 1. maí og 1. júní 2020. Frestunin tekur ekki til sérstaks fjársýsluskatts, sérstaks skatts á fjármálafyrirtæki eða jöfnunargjalds alþjónustu sem greiða skal á auglýstum gjalddögum samkvæmt reglugerð nr. 1227/2019. Á þjónustusíðu lögaðila er skattheimtuseðill þar sem fram kemur skipting á fyrirframgreiðsluskyldu eftir gjöldum og gjalddögum. Þar er því unnt að sjá hvernig heildarfjárhæð fyrirframgreiðsla skiptist upp eftir gjaldtegundum. Greiðsluskylda á mánuði eftir umræddar breytingar er samkvæmt framansögðu óbreytt, 8,5% af heildarfjárhæð síðusta álagningar annarra gjalda en tekjuskatts, þ.m.t. á hverjum gjalddaganna 1. apríl, 1. maí og 1. júní.

Annað

Ýmis önnur atriði voru lögfest með lögum nr. 25/2020, auk þess sem ráðstafanir vegna kórónaveirunnar hafa verið gerðar með öðrum lögum.

Endurgreiðsla virðisaukaskatts

Einnig er í lögum nr. 25/2020 m.a. kveðið á um tímabundin úrræði um endurgreiðslur á virðisaukaskatti vegna vinnu manna sem innt er af hendi á tímabilinu 1. mars til og með 31. desember 2020.

Lesa nánar

Úttekt séreignarsparnaðar

Á tímabilinu 1. apríl til og með 31. desember 2020 er heimilt að sækja um útgreiðslu séreignarsparnaðar allt að 12 milljónum króna miðað við stöðu samanlagðs sparnaðar þann 1. apríl 2020 óháð dreifingu á vörsluaðila. Sótt er um þetta hjá vörsluaðilum séreignarsparnaðar. Úttekt greindar fjárhæðar dreifist á 15 mánuði frá því að beiðni er lög fram hjá vörsluaðila. Sé ráðstafað lægri fjárhæð en 12 milljónum styttist útgreiðslutími hlutfallslega. Við útborgun skal haldið eftir staðgreiðslu samkvæmt lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda.

Ráðstöfun séreignarsparnaðar samkvæmt þessari heimild hefur ekki áhrif á önnur úrræði sem heimiluð hafa verið um úttekt og ráðstöfun séreignasparnaðar. Þá hefur útgreiðsla séreignasparnaðar samkvæmt ákvæði þessu hvorki áhrif á bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð né greiðslu húsnæðisbóta samkvæmt lögum um húsnæðisbætur eða greiðslu barnabóta, vaxtabóta , atvinnuleysisbóta skv. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, sbr. 22. gr. laga nr. 22/2006.

 

Laun í sóttkví og minnkað starfshlutfall sjálfstætt starfandi manna

Nýlega voru samþykktar heimildir til að greiða laun í sóttkví og atvinnuleysisbætur til sjálfstætt starfandi manna vegna minnkaðs starfshlutfall. 

Lesa nánar

Sérstakur barnabótauki

Við álagningu opinberra gjalda einstaklinga sem birt verður í lok maí 2020 verður auk tekjutengdra barnabóta greiddur sérstakur barnabótaauki. Þeir sem fá greiddar tekjutengdar barnabætur samkvæmt niðurstöðu álagningarinnar fá til viðbótar greiddan sérstakan barnabótaauka að fjárhæð 42.000 kr. á hvert barn. Þeir sem ekki fá greiddar neinar tekjutengdar barnabætur vegna skerðingarákvæða miðað við tekjur viðkomandi fá greiddan sérstakan barnabótaauka að fjárhæð 30.000 kr. á hvert barn.

Ekki þarf að sækja um sérstakan barnabótaauka heldur verður hann liður í heildarniðustöðu álagningar í lok maí 2020. Sérstakur barnabótaauki telst ekki til skattskyldra tekna og leiðir ekki til skerðingar annarra greiðslna, og honum verður ekki skuldajafnað á móti opinberum gjöldum til ríkissjóðs, opinberum gjöldum til sveitarfélaga og vangreiddum meðlögum til Innheimtustofnunar sveitarfélaga.


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum