Fréttir og tilkynningar


Álagning einstaklinga 2017

29.6.2017

Ríkisskattstjóri hefur lokið álagningu opinberra gjalda á einstaklinga 2017.

Forsendur álagningar, innheimta eftirstöðva og greiðsla inneigna
Ríkisskattstjóri hefur lokið álagningu opinberra gjalda á einstaklinga 2017, á tekjur ársins 2016. Tekjuskattur og útsvar hafa að mestu þegar verið innheimt í staðgreiðslu en í álagningunni fer fram endanlegt uppgjör þessara skatta auk þess sem lagt er á útvarpsgjald, gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra, slysatryggingagjald vegna heimilisstarfa, auk tryggingagjalds sem lagt er á einstaklinga með rekstur í eigin nafni. Þá eru einnig reiknaðar barnabætur og vaxtabætur. 

Á morgun hinn 30. júní nk. munu inneignir verða lagðar inn á bankareikninga þeirra framteljenda sem eiga inni hjá ríkissjóði eftir álagningu. Þeir framteljendur sem ekki hafa bankareikning geta vitjað inneigna hjá innheimtumönnum ríkissjóðs, í Reykjavík tollstjóra.   

Fjöldi framteljenda og áætlaðir aðilar
Framteljendur á skattgrunnskrá hafa aldrei verið fleiri en nú og eru 286.728. Það eru  9.122 fleiri en fyrir ári sem er fjölgun um 3,3%. Framteljendum á grunnskrá hefur ekki fjölgað jafnmikið á einu ári síðan árið 2007 en þá fjölgaði um 10.855. Við álagningu nú voru skattstofnar 13.125 einstaklinga áætlaðir en það er um 4,58% af heildarfjölda. Nokkur hluti skýrist af framtölum sem ríkisskattstjóri útbýr fyrir framteljendur vegna sérstakra aðstæðna en slík framtöl hafa sömu réttaráhrif og þegar skattstofnar eru áætlaðir.

Rafræn framtalsgerð, pappírsframtöl eru að hverfa
Ríkisskattstjóri hefur í gegnum tíðina leitast við að bæta þjónustu við viðskiptavini sína. Nú er orðið mun auðveldara fyrir flesta að telja fram til skatts þar framtöl eru að mestu leyti fyrirfram unnin af ríkisskattstjóra með áritun upplýsinga inn á framtöl. Er framtalsgerð margra á síðustu árum einkum fólgin í yfirlestur og staðfestingu að upplýsingar séu réttar. Þá fara samskipti við framteljendur að miklu leyti fram í gegnum vefsíðu ríkisskattstjóra. Betri skil gagna og aðstoð við framteljendur hafa fækkað villum og einfaldað framtalsgerð hjá mörgum. Hefðbundin pappírsframtöl heyra nánast sögunni til en nú skiluðu 99,6% framteljenda rafrænu skattframtali.

Framlagning álagningarskrár og kærufrestur
Í samræmi við 98. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt mun álagningarskrá liggja frammi á starfsstöðvum ríkisskattstjóra um allt land næstu tvær vikur eða til 14. júlí nk. Kærufrestur rennur út 31. ágúst nk.

Reykjavík 29. júní 2017

Ríkisskattstjóri


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum