Fréttir og tilkynningar


Athugasemd RSK vegna viðtals í Viðskiptablaðinu

13.11.2015

um réttaráhrif tveggja bindandi álita.

Í 45. tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út þann 12. nóvember 2015 er frétt þar sem fram kemur í viðtali við lögmann að ríkisskattstjóri hafi veitt tvö bindandi álit sem heimili ákveðnar lausnir sem miði að því að vinda ofan af öfugum samruna.  Orðrétt segir í fréttinni:

„Í stuttu máli felst lausnin í því að aðskilja aftur skuldirnar og reksturinn í tvö sjálfstæð félög, og samskatta svo félögin eða sameina þau í breyttri mynd.

Af þessu tilefni telur ríkisskattstjóri rétt að leiðrétta rangfærslur sem fram koma í fréttinni.

Rétt er að ríkisskattstjóri hefur gefið út tvö bindandi álit þar sem spurt var um skattalegar afleiðingar tiltekinna ráðstafana sem lutu að skiptingu félaga, samruna, samsköttun og frádráttarbærni vaxtagjalda.

Í báðum álitum ríkisskattstjóra er vísað til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 213/2015 þar sem fram kemur að

„viðtökufélag samkvæmt [52. gr. tekjuskattslaga] tekur ... við skattalegum réttindum hins skipta félags eftir því sem við á, en getur ekki öðlast frekari skattaleg réttindi en skipta félagið bjó að.“

Niðurstaða ríkisskattstjóra var því sú að eðli vaxtagjalda, sem voru ófrádráttarbær hjá upphaflegum skattaðila við skuldsetta yfirtöku, breytist ekki í skattalegu tilliti, þó þær skuldir yrðu við síðari uppskiptingar þess félags og/eða samruna yfirfærðar til annars félags.  Vaxtagjöld sem voru ófrádráttarbær í upphafi verða það áfram, sbr. tilvitnaðan úrskurð yfirskattanefndar, þó svo lánið sé fært yfir í nýtt félag.

Að framangreindur virtu er það rangt sem fram kemur í tilvitnaðri frétt Viðskiptablaðsins að ríkisskattstjóri hafi heimilað eða „lagt blessun sína yfir“ þær leiðir sem álitsbeiðandi lagði fyrir ríkisskattstjóra og tekin er afstaða til í þeim bindandi álitum sem viðmælandi Viðskiptablaðsins vitnar til.

Bæði bindandi álit ríkisskattstjóra eru birt á www.rsk.is:
https://www.rsk.is/fagadilar/bindandi-alit/bindandi-alit-nr-12-15
https://www.rsk.is/fagadilar/bindandi-alit/bindandi-alit-nr-13-15


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum