Fréttir og tilkynningar


Breytingar á staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts af arði

3.7.2020

Nýlega voru samþykkt á Alþingi lög um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld, þ.m.t. tvær breytingar á lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur. Um er að ræða lög nr. 33/2020 ásamt breytingum á þeim með lögum sem samþykkt voru 30. júní sl. (óbirt).

Staðgreiðsla af arði af hlutabréfum

Samkvæmt 19. gr. laganna var bætt við nýjum málslið í 2. mgr. 3. gr. laga um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur nr. 94/1996, sem er svohljóðandi að teknu tilliti til breytinga sem gerðar voru 30. júní sl.: „Séu hlutabréf sem arður er greiddur af í vörslu innlends fjármálafyrirtækis, vegna rafrænnar skráningar hlutabréfanna í verðbréfamiðstöð, hvílir skylda til að draga staðgreiðslu af arði og skila í ríkissjóð á viðkomandi fjármálafyrirtæki.“

Skylda fjármálafyrirtækis til að draga staðgreiðslu af arði sem hér um ræðir og skila í ríkissjóð, nær til allra rafrænt útgefinna hlutabréfa sbr. 2. gr. laga nr. 7/2020, um verðbréfamiðstöðvar, uppgjör og rafræna eignarskráningu fjármálagerninga.

Staðgreiðsla af arðgreiðslum milli félaga með takmarkaða ábyrgð

Með 20. gr. laga nr. 33/2020, um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld, eru arðgreiðslur milli einkahlutafélaga, hlutafélaga og samlagshlutafélaga undanskildar stofni til staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur skv. lögum nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur. Tók lagabreytingin þegar gildi.

Nánari upplýsingar um fjármagnstekjuskatt


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum