Fréttir og tilkynningar


Jafnlaunavottun Skattsins

24.11.2020

Skatturinn hlaut þann 28. október sl. jafnlaunavottun á Jafnlaunastaðalinn ÍST 85 sem staðfest hefur verið af Jafnréttisstofu. Þess má geta að embætti tollstjóra fékk jafnlaunavottun árið 2017 og var fyrsti vinnustaðurinn á landinu til að fá slíka vottun.

Byrjað var að vinna að því að fá jafnlaunavottun fyrir embætti ríkisskattstjóra haustið 2018 en því var ekki lokið þegar embætti ríkisskattstjóra og tollstjóra sameinuðust um síðastliðin áramót. Við sameininguna tók við ný vinna þar sem unnið var að jafnlaunavottun og jafnlaunakerfi fyrir sameinað embætti og er þeirri vinnu nú lokið. Jafnlaunavottun staðfestir að komið hafi verið upp ferli sem tryggir að málsmeðferð og ákvarðanir í launamálum feli ekki í sér kynbundna mismunun.

Úttektarstofan BSI á Íslandi sá um úttektina á innleiðingu jafnlaunastaðalsins hjá Skattinum og fór úttektin fram þann 6. október sl. Gert er ráð fyrir því að endurúttekt fari fram árið 2023 en jafnframt fara fram árlegar viðhaldsúttektir á jafnlaunakerfinu.


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum