Fréttir og tilkynningar


Lokunarstyrkir

18.5.2020

Alþingi samþykkti í síðustu viku lög um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Þar er m.a. kveðið á um að rekstraraðilar sem uppfylla tiltekin skilyrði geti átt rétt á lokunarstyrk úr ríkissjóði.

Um er að ræða þá einstaklinga og lögaðila sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi sem hófst fyrir 1. febrúar 2020 og var gert að stöðva eða láta af starfsemi vegna kórónuveirufaraldurs samkvæmt auglýsingu heilbrigðisráðherra sem birt var í Stjórnartíðindum 23. mars 2020 (nr. 243/2020).

Sundlaugum, líkamsræktarstöðvum, skemmtistöðum, krám, spilasölum, spilakössum og söfnum var gert að loka á gildistíma auglýsingarinnar. Þá var óheimilt að stunda starfsemi og þjónustu sem krafðist/hætt var við snertingu milli fólks eða mikillar nálægðar, svo sem allt íþróttastarf, starfsemi hárgreiðslustofa, snyrtistofa, nuddstofa og önnur sambærileg starfsemi.

Stofnanir, byggðasamlög og fyrirtæki í eigu ríkis eða sveitarfélaga geta ekki sótt um lokunarstyrk.

Lokunarstyrkur telst til skattskyldra tekna rekstraraðila samkvæmt lögum um tekjuskatt.

Umsókn um lokunarstyrk verður rafræn í gegnum skattur.is. Hver og einn umsækjandi gengur því frá umsókn á sinni þjónustusíðu. Verið er að vinna að tæknilegri útfærslu umsóknar. Stefnt er að því að hægt verði að sækja um innan tíðar og greiðsla gæti þá átt sér stað í júní að því gefnu að umsókn sé fullnægjandi. Það skal þó athugað að samkvæmt lögunum hefur Skatturinn tvo mánuði til að afgreiða umsókn eftir að hún berst.

Nánari upplýsingar um lokunarstyrk


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum