Fréttir og tilkynningar


Mikill árangur í samtímaeftirliti

18.4.2016

Ríkisskattstjóri fagnar sérstaklega þeim málum sem nú eru til rannsóknar hjá héraðssaksóknara og varða stórfellda brotastarfsemi tiltekinna verktaka í byggingariðnaði.

Um er að ræða mál sem eru hluti af fjölda annarra mála sem vettvangseftirlit ríkisskattstjóra hefur vísað til skattrannsóknarstjóra ríkisins til frekari rannsókna og refsimeðferðar á undanförnum misserum.   

Aukið vettvangseftirlit hefur m.a. leitt í ljós að alvarleg brotastarfsemi á sér stað í byggingariðnaði.  Um er að ræða verktaka sem gera gylliboð í verk á grundvelli stórfelldra skattundanskota.  Búnar eru til keðjur undirverktaka sem notaðar eru til útgáfu reikninga sem engum virðisaukaskatti er skilað af en eru engu að síður nýttir sem innskattur í bókhaldi verkkaupa.  Ýmist er um að ræða algjörlega tilbúna reikninga eða svarta vinnu unna í skjóli vanskila eða sambland af hvoru tveggja.  Ekki er haldið eftir staðgreiðslu, tryggingagjaldi né nokkrum öðrum lögbundum launatengdum gjöldum.  Þegar síðan þrengist um þessi félög þá eru stofnuð ný félög og háttsemi heldur áfram. Svört vinna af þessu tagi felur en oftar en ekki í sér þvílík brot á réttindum starfsmanna og aðstæðum þeirra að það verður ekki skilgreint öðru vísi en mansal. 

Reynsla stofnanna er sinna opinberu eftirliti á vinnumarkaði hefur sýnt að brot á einu sviði getur verið vísbending um víðtækari brot. Með samstilltu átaki hefur ríkisskattstjóri ásamt fleiri stofnunum eins og vinnumálastofnun, vinnueftirlitinu, aðilum vinnumarkaðsins og lögreglunni sótt að brotamönnum úr mörgum áttum.  Það er mikilvægt fyrir eftirlitsaðila að finna að mál séu tekin föstum tökum hjá héraðssaksóknara og einnig hafa þessar aðgerðir gífurleg varnaráhrif.  Mál sem þessi verða tekin fastari tökum með samstilltu átaki skattyfirvalda og annarra stofnanna með auknu vettvangseftirliti nauðsynlegum lagabreytingum t.d. er varða kennitöluflakk og hæfisskilyrði stjórnenda fyrirtækja. 

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum