Fréttir og tilkynningar


Fréttatilkynning við lok álagningar einstaklinga 2013

25.7.2013

Ríkisskattstjóri hefur lokið álagningu opinberra gjalda á einstaklinga 2013.

Ríkisskattstjóri hefur frá árinu 2010 lagt fram álagningarskrá fyrir landið allt en áður lögðu níu skattstjórar hver fram sína skrá.

Álagning 2013 fer fram á tekjur ársins 2012 og eignir pr. 31.12.2012. Stærsti hluti álagðra gjalda hefur þegar verið innheimtur með staðgreiðslu opinberra gjalda. Nokkrir skattar og gjöld einstaklinga eru þó innheimtir eftir lok staðgreiðsluárs, svo sem auðlegðarskattur, útvarpsgjald, gjald í framkvæmdasjóð aldraða og slysatryggingagjald. Við álagningu fer ennfremur fram uppgjör staðgreiðslu og ákvörðun á barnabótum og vaxtabótum. Inneignir verða lagðar inn á bankareikninga 1. ágúst nk.

Álagning auðlegðarskatts er tvískipt, annars vegar er lagt á nafnverð eigna samkvæmt framtali einstaklinga pr. 31.12.2012 og hins vegar á eign í lögaðilum pr. 31.12.2011, svokallaður viðbótarauðlegðarskattur.

Ríkisskattstjóri mun láta álagningarskrár liggja frammi á starfsstöðvum embættisins um allt land næstu tvær vikur eða til 8. ágúst nk. Kærufrestur rennur út 26. ágúst nk.

Framtalsgerðin er nú einfaldari fyrir allan þorra almennings heldur en var fyrir fáum árum. Munar þar mestu um að framtöl eru að mestu fyrirframgerð, með áritun launaupplýsinga, fasteigna, bifreiða, bankainnstæðna, nokkurra annarra eigna og skuldastöðu framteljenda. Hafa slíkar áritunarupplýsingar aldrei verið jafngóðar og nú. Munar þar m.a. um átak sem gert var til að bæta launamiðaskil í upphafi þessa árs.

Aldrei fyrr hafa jafnmargir framteljendur einungis þurft að yfirfara fyrirliggjandi upplýsingar og staðfesta að þær séu réttar. Rafræn framtöl voru 98,09% framtala og pappírsframtöl voru aðeins frá 4.810 framteljendum eða 1,91% af skiluðum framtölum. Er nú í undirbúningi að hætta alveg með pappírsframtöl.

Á skattgrunnskrá voru 264.193 framteljendur. Er það fjölgun um 2.430 frá fyrra ári. Framtalsskil gengu vel og voru tímanlega. Að þessu sinni sættu 12.510 einstaklingar áætlunum opinberra gjalda vegna skorts á framtalsskilum eða rösklega 4,77%.

Töluleg úrvinnsla úr álagningunni verður aðgengilegar á vefsíðu ríkisskattstjóra, www.rsk.is síðar.

Reykjavík 25. júlí 2013,
Ríkisskattstjóri


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum