Fréttir og tilkynningar


Fyrirmyndarstofnun 2014

23.5.2014

Í vali á Stofnun ársins 2014 var ríkisskattstjóri í 2. sæti í flokki stofnana með 50 starfsmenn eða fleiri.

Fyrirmyndarstofnun 2014Fimmtudaginn 22. maí 2014 var tilkynnt um val á Stofnun ársins 2014 og var ríkisskattstjóri í 2. sæti af 79 stofnunum í flokki stofnana með 50 starfsmenn eða fleiri. Um er að ræða stærstu vinnumarkaðskönnun landsins og er hún haldin á vegum SFR í samstarfi við fjármála- og efnahagsráðuneytið, Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar og VR.

Niðurstöður um val á Stofnun ársins byggja á svörum um 10.000 opinberra starfsmanna og er m.a. litið til ánægju og stolts í starfi, trúverðugleika stjórnenda, starfsanda, sjálfstæðis í starfi, vinnuskilyrða, sveigjanleika vinnu, launakjara og ímyndar stofnunar. Svarhlutfall hjá starfsmönnum RSK var með því besta sem gerist, eða á bilinu 80%-100%, en starfsmenn RSK voru 249 þegar könnunin var gerð og gefa niðurstöðurnar því raunsanna mynd af afstöðu hópsins í heild. 

Ríkisskattstjóri hefur tekið þátt í könnuninni frá upphafi og þetta er í sjöunda sinn sem embættið hlýtur sæmdarheitið Fyrirmyndarstofnun og er í einu af fimm efstu sætunum.

2014 - 2. sæti
2013 - 4. sæti
2012 - 3. sæti
2011 - 2. sæti
2010 - 5. sæti
2009 - 2. sæti
2008 - 1. sæti
2007 - 56. sæti
2006 - 45. sæti

Starfsmenn ríkisskattstjóra hafa að leiðarljósi í störfum sínum gildin fagmennsku, jákvæðni og samvinnu og munu áfram leitast við að vera framarlega í flokki.

Frétt á vef SFR


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum