Fréttir og tilkynningar


Niðurstöður átaks gegn ólöglegri atvinnustarfsemi

28.11.2017

Ríkisskattstjóri, Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, Lögreglan á Suðurnesjum, Útlendingastofnun og Vinnumálastofnun voru sameiginlega með sérstakt átak gegn ólöglegri atvinnustarfsemi.

Á tímabilinu 18. september til 6. október 2017 var farið í 10 dagsheimsóknir og 5 kvöldheimsóknir og voru skoðuð 327 fyrirtæki og skráning 1.233 starfsmanna þeirra fyrirtækja. Flestar heimsóknir voru til fyrirtækja í byggingariðnaði eða 62%, heimsóknir á veitinga- og skemmtistaði voru 23%, þá voru 14% heimsókna á gististaði og í fyrirtæki í ferðaþjónustu og 1% heimsókna var til fyrirtækja í annarri starfsemi. Kannað var m.a. hvort atvinnurekendur stæðu skil á lögbundnum sköttum og gjöldum sem og hvort einhverjir væru með starfsmenn í vinnu án tilskilinna leyfa.

Niðurstöður átaksins voru þær að langflestum málum lauk án athugasemda eða 227 (69%), 21 máli lauk með leiðbeinandi tilmælum ríkisskattstjóra, 7 málum lauk með breytingum (þar af einu máli með stöðvun atvinnustarfsemi) og 72 mál eru í vinnslu hjá ríkisskattstjóra.

Auk þess voru 36 einstaklingar og 19 fyrirtæki kærð af lögreglu fyrir samtals 51 brot. Flest vegna brota á lögum um atvinnuleyfi.


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum