Fréttir og tilkynningar


Niðurstaða álagningar 2012

26.7.2012

Upplýsingar um niðurstöður álagningar einstaklinga 2012 

Ríkisskattstjóri hefur lokið við að leggja opinber gjöld á tekjur og eignir einstaklinga. Almennt má segja að í skattframtölum einstaklinga og niðurstöðum álagningar nú séu ákveðin teikn um að hagur Íslendinga sé tekinn að vænkast eftir harðæri síðustu ára. Þær bera þó enn skýr merki þeirra umskipta sem hér urðu fyrir nokkrum árum.

Framteljendum á skattgrunnskrá er aftur farið að fjölga. Þeir eru 261.764 við álagningu 2012, um þúsund fleiri en í fyrra. Skattskyldar tekjur hækka um tæpa 75,6 milljarða og eru nú 954,4 milljarðar. Þar af eru útsvarsskyldar tekjur 876,1 milljarður, 63,7 milljörðum hærri en fyrir ári. Fjármagnstekjur eru tæpir 78,3 milljarðar, um 12 milljörðum hærri en fyrir ári. Þó að tekjur séu aftur farnar að hækka eru bætur enn mjög háar og fjármagnstekjur eru enn hvergi nærri því sem væri talið eðlilegt í venjulegu árferði.

Tekjuskatts- og útsvarsstofn

Tekjuskatts- og útsvarsstofn hækkar um 7,8%. Tæpur þriðjungur hækkunarinnar er vegna hærri lífeyrisgreiðslna og tryggingabóta.

Laun og starfstengdar greiðslur hækka annað árið í röð, nú um 46,6 milljarða, eða 6,7%. Bætur og lífeyrisgreiðslur eru þó enn mjög háar. Atvinnuleysisbætur lækka lítillega, úr 19,3 milljörðum í 18,7 milljarða, en 22.352 manns töldu fram greiðslur frá Vinnumálastofnun. Greiðslur úr lífeyrissjóðum hækka mikið, sérstaklega sérstök útgreiðsla lífeyrissparnaðar, sem hækkar um 42,9% frá því í fyrra en leyfileg úttekt var hækkuð töluvert. Færri nýttu sér þó rétt til að taka út lífeyrissparnað árið 2011, eða 24.602 samanborið við 29.602 árið áður.

Frádráttur

Frádráttur frá tekjuskatts- og útsvarsstofni hækkar hlutfallslega ívið meira en laun, hlunnindi og lífeyrir. Fleiri drógu kostnað frá ökutækjastyrk og dagpeningum í ár en í fyrra. Færri drógu hins vegar greiðslur í lífeyrissjóð frá tekjuskatts- og útsvarsstofni. Það vekur athygli að þeim sem draga frá stofni kostnað vegna námsstyrkja og annarra styrkja fjölgaði talsvert, eða um nær fimmtung. Þá drógu 18.737 kostnað vegna átaksins Allir vinna frá stofni, 621 fleiri en í fyrra.

Fjármagnstekjur

Fjármagnstekjur hækka nú um tæpa tólf milljarða eftir að hafa hríðlækkað síðastliðin fjögur ár. Landsmenn töldu fram tæpa 78,3 milljarða í fjármagnstekjur, en þar af eru vextir 49,4 milljarðar, 22,1% hærri en í fyrra. Vaxtatekjur af bankainnstæðum lækka þó um 35% og eru nú 18 milljarðar, rúmum 9,7 milljörðum minni en fyrir ári. Tekjur af innlendum og erlendum verðbréfum hækka hins vegar um 157,2% og eru 30,3 milljarðar. Tekjur af verðbréfum eru öðrum þræði innleystur söluhagnaður og því gætir hér áhrifa breyttra markaðsaðstæðna, gengis og verðlags. Arðgreiðslur eru tæpir 13 milljarðar og hækka um 6,9% á milli ára. Mun fleiri telja þó fram arðgreiðslur nú en í fyrra, eða 6.884 saman borið við 5.408 fyrir ári. Söluhagnaður af hlutabréfum er enn aðeins brot af því sem hann var fyrir nokkrum árum, eða 8,3 milljarðar. Hann hækkar þó um rúman milljarð eða 15,8% á milli ára.

Eignir og skuldir

Framtaldar eignir einstaklinga jukust um rúma 145 milljarða á milli ára. Þær voru 3.611,1 milljarðar í árslok árið 2011. Eignaaukninguna má nær alfarið rekja til þess að matsverð fasteigna hækkaði um 209,7 milljarða, eða 9,3% á milli ára. Aðrar eignir rýrna eða falla í verði. Landsmenn áttu tæpa 495 milljarð á bankareikningum í árslok 2011, tæpum 46,8 milljörðum, eða 8,8%, minna en ári fyrr. Þá eiga færri innstæður í bönkum nú en fyrir ári. Innstæður hafa lækkað ár frá ári, eða samtals um 150 milljarða síðan þær voru fyrst forskráðar á framtöl árið 2009. Þá er athyglisvert að 2.136 færri einstaklingar eiga innstæður í bönkum nú en fyrir ári. Verðbréfaeign minnkar um 3,2% eða rúma 9,3 milljarða. Framtalið nafnverð hlutabréfa er nú 49,7 milljarðar, 815 milljónum minna en fyrir ári. Færri telja fram hlutabréf, eða 39.996 saman borið við 40.817 í fyrra.

Landsmenn skulduðu tæpa 1.759,4 milljarða í árslok 2011, eða tæpum 118,7 milljörðum minna en árið áður. Þar af eru skuldir vegna íbúðarkaupa tæpir 1.124,2 milljarðar og lækka um tæpa 27,5 milljarða á milli ára, eða 2,4%. Aðrar skuldir, þ.e., námslán, skuldir vegna kaupa á ökutækjum, sumarbústöðum og verðbréfum, greiðslukortaskuldir o.fl., lækka um 91,2 milljarða, eða 12,5%. Þessar skuldir voru 635,2 milljarðar í árslok 2011. Verðmæti framtalinna eigna jókst meira en skuldirnar og því hækkar það nú um 263 milljarða á milli ára. Þetta er nokkur breyting því á síðustu árum hefur eigið fé rýrnað frá ári til árs.

Tekjuskattar

Tekjuskattar hækka meira en skattstofninn eða um 12,9%. Alls eru lagðir 238,2 milljarðar á einstaklinga í tekjuskatta. Þar af er almennur tekjuskattur tæpir 97,4 milljarðar, 6,3 milljörðum hærri en í fyrra. Útsvar er 130,5 milljarðar og hækkar um 20,8 milljarða milli ára, eða 19%. Hækkunin skýrist annars vegar af hækkun útsvarsstofns og hins vegar á hækkun álagningarhlutfalls um 1,2 prósentustig. Hlutur ríkisins var lækkaður á móti um sama hundraðshluta, sem skýrir það að hluta af hverju tekjuskattur hækkar minna en stofninn, á sama tíma og fleiri greiða tekjuskatt. Nú telja 251.018 manns fram útsvarsskyldar tekjur, tekjuskattur er lagður á 156.018 manns, 4.728 fleiri en fyrir ári.

Tæpir 10,3 milljarðar eru lagðir á í skatt af fjármagnstekjum einstaklinga. Skatturinn hækkar lítið eitt, eða um 143 milljónir, eða 1,4%. Fjármagnstekjuskattur var hækkaður úr 18% í 20% við álagningu í ár. Frítekjumark vegna vaxtatekna var óbreytt. Alls greiða 39.066 fjármagnstekjuskatt og fækkar um 7.702 milli ára, sem er fækkun um 16,5%.

Eignarskattar

Auðlegðarskattur og viðbótarauðlegðarskattur hækka nú um tæpan einn og hálfan milljarð, eða 22,4%. Rúmir 8 milljarðar eru nú lagðir á í skatt af eignum 5.212 einstaklinga. Skatturinn er tvískiptur. Almenni skatturinn er 5,6 milljarðar og hækkar um 16,6%. Viðbótarauðlegðarskattur, sem lagður er á muninn á nafnverði og raunvirði hlutabréfaeignar í árslok 2010, er rúmir 2,4 milljarðar, 38,4% hærri en í fyrra. Þessi mismunur er skattlagður ári seinna en nafnverðið. Eignamörk auðlegðarskatts voru lækkuð við álagningu 2011 og skatturinn hækkaður úr 1,25% í 1,5%. Lækkunin kemur fyrst nú fram við álagningu viðbótarauðlegðarskatts. Þá var nú, við álagningu 2012, lagður 2,0% skattur á hreina eign einhleypings umfram 150 milljónir og umfram 200 milljónir hjá hjónum.

Bætur

Bótagreiðslur lækka um 16,1% milli ára. Alls eru landsmönnum reiknaðir rúmir 22 milljarðar í bætur, sem er 4,2 milljörðum minna en í fyrra.

Vaxtabætur lækka mest, eða um 26,4%. Þær eru nú 8,8 milljarðar en voru 12 milljarðar í fyrra. Vaxtabætur eru bæði tekju- og eignatengdar. Þá fá 97.301 manns sérstaka vaxtaniðurgreiðslu, sem nemur 5,7 milljörðum, sem er 8,5% lækkun frá fyrra ári. Foreldrum, sem fá greiddar barnabætur, fækkar um 4.229 milli ára og eru nú 51.762. Barnabætur eru tæpir 7,5 milljarðar og lækka um 6,7% frá álagningu í fyrra.


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum