Fréttir og tilkynningar


RSK 5.09, endurgreiðsla á staðgreiddum opinberum gjöldum

14.10.2010

Eyðublaðið RSK 5.09 , endurgreiðsla á staðgreiddum opinberum gjöldum. Dæmi um útreikning.

Staðgreiðsla skatta á tekjuárinu 2010

Útreikningur staðgreiðslu á tekjuárinu 2010 fyrir mánaðartekjur skal vera sem hér segir:

  1. Af fyrstu 200.000 kr. 37,22%
  2. Af næstu 450.000 kr. 40,12%
  3. Af fjárhæð umfram 650.000 kr. 46,12%

Hér er átt við laun að frádregnu iðgjaldi í lífeyrissjóð.

Af heildarárstekjum að 2.400.000 kr. reiknast staðgreiðsla samkvæmt fyrsta þrepi.

Á næstu 5.400.000 kr. í árstekjur, þ.e. að 7.800.000 kr., reiknast staðgreiðsla samkvæmt milliþrepi.

Á heildarárstekjur umfram 7.800.000 kr. reiknast staðgreiðsla samkvæmt hæsta þrepi.

Millifærsla á milli skattþrepa hjá hjónum/samsköttuðum

Ef annað hjóna/samskattaðra er með tekjur í hæsta þrepi en hitt ekki, getur komið til leiðréttingar til lækkunar við álagningu, í fyrsta skipti árið 2011. Ekki þarf að sækja um slíka leiðréttingu, hún verður gerð sjálfkrafa þegar skattframtal er afgreitt.

Við þessar aðstæður er einnig hægt að sækja um endurgreiðslu á staðgreiðsluári, sbr. umsókn á eyðublaði RSK 5.09. Getur þá komið til endurreiknings og endurgreiðslu vegna ofgreiddrar staðgreiðslu á tekjuárinu 2010 ef skilyrði til þess eru uppfyllt.

Endurreikningur á greiddri staðgreiðslu hjá hjónum/samsköttuðum

Endurreikningur og endurgreiðsla getur einungis komið til álita í þeim tilvikum að annar maki hafi heildarárstekjur umfram 7.800.000 kr. og hinn undir sömu fjárhæð. Einungis kemur til millifærslu úr hæsta skattþrepinu í milliþrepið, þ.e. úr 46,12% staðgreiðsluhlutfalli í 40.12% staðgreiðsluhlutfall, og getur mest miðast við helming milliþrepsins, eða 2.700.000 kr. (helmingur af 5.400.000 kr.). Endurgreiðsla getur aldrei orðið hærri en 100.000 kr. og ekki lægri fjárhæð en 50.000 kr.

Dæmi um útreikninga vegna millifærslu milli skattþrepa hjá hjónum/samsköttuðum

Dæmi 1:

Tekjuskattsstofn tekjuhærri maka 10.000.000  kr.
Tekjuskattsstofn tekjulægri maka 5.000.000  kr.


Millifærsla á milli þrepa reiknast miðað við 7.800.000 kr. – 5.000.000 kr. eða 2.800.000 kr. Sá tekjuhærri má nýta helminginn af 2.800.000 kr., eða hér 1.400.000 kr.

Endurgreiðsla á staðgreiðslu getur hér orðið 84.000 kr. eða 6%*1.400.000 kr. (mismunur á milliþrepinu og hæsta þrepinu er 6 prósentustig)

Dæmi 2:

Tekjuskattsstofn tekjuhærri maka 10.000.000  kr.
Tekjuskattsstofn tekjulægri maka 500.000  kr.


Millifærsla á milli þrepa reiknast miðað við hæstu mögulegu fjárhæð 5.400.000 kr. (mismunurinn á 7.800.000 kr. – 2.400.000 kr.). Sá tekjuhærri má nýta helminginn af 5.400.000 kr., eða hér 2.700.000 kr.

Endurgreiðsla á staðgreiðslu getur hér orðið 100.000 kr. eða miðað við hámarksfjárhæð.


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum