Fréttir og tilkynningar


Niðurstöður álagningar 2010

27.7.2010

Upplýsingar um niðurstöður álagningar 2010

Ríkisskattstjóri hefur lokið álagningu opinberra gjalda 2010 á einstaklinga og liggja nú fyrir niðurstöður álagningarinnar. Er það fyrsta álagningin eftir sameiningu skattumdæma sem kom til framkvæmda við síðustu áramót. Hin breytta framkvæmd gekk vel, m.a. voru skil á framtölum mun betri nú en síðustu ár. Alls sættu 13.750 einstaklingar áætlunum eða 5,26% af skattgrunnskrá. Til samanburðar sættu 22.330 framteljendur áætlun fyrir tveim árum. Álagningarskrár liggja frammi á skattstofum fram til 11. ágúst 2010 en kærur þurfa að hafa borist ríkisskattstjóra fyrir 27. ágúst.

Í stuttu máli má segja að upplýsingar úr skattframtölum beri órækan vitnisburð um þau umskipti sem urðu í efnahagslífi þjóðarinnar haustið 2008. Framteljendum á skattgrunnskrá fækkaði lítillega og er það í fyrsta skipti í langan tíma. Laun og hlunnindi drógust saman um rúma 38 milljarða en atvinnuleysisbætur hækkuðu hins vegar á milli ára um 16,7 milljarða. Nú töldu 27.638 manns fram atvinnuleysisbætur á skattframtali, sem er margfalt fleiri en á undanförnum árum. Þá tóku 10.254 út séreignarlífeyrissparnað og 39.184 nýttu sér sérstakan rétt til að taka út séreignarlífeyrissparnað. Tæpir 35,9 milljarðar voru greiddir úr séreignarsjóðum en þar af var tæpur 21 milljarður sérstök útborgun. Bótagreiðslur og úttekt úr séreignarlífeyrissjóðum vega þannig tímabundið upp tekjutap. Tekjuskattsstofn hækkaði um 1,5% á milli ára, eða 11,9 milljarða, þrátt fyrir að greidd laun hafi lækkað um 5,8%.


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum