Fréttir og tilkynningar


Stuðningur vegna launa á uppsagnarfresti

16.6.2020

Samþykkt hafa verið og birt í Stjórnartíðindum lög nr. 50/2020, um stuðning úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti.

Lögin gilda um fjárstuðning til þeirra atvinnurekenda sem hafa sagt launamönnum upp störfum vegna verulegrar fjárhagslegrar röskunar á atvinnurekstri sínum og orsakir þessa verða raktar beint eða óbeint til ráðstafana sem gripið hefur verið til eða aðstæðna sem skapast hafa vegna kórónuveirufaraldursins.

Skattinum hefur verið falið að sjá um framkvæmd þessa úrræðis og stendur vinna við tæknilega útfærslu enn yfir. Leysa þarf allmörg tæknileg atriði í samspili við forsendur laganna og þau skilyrði sem þar eru sett. Ljóst er að undirbúningi verður ekki lokið það tímanlega að unnt verði að skila inn umsókn innan þess umsóknarfrests sem ákveðinn er í 1. mgr. 7. gr. laganna, þ.e. 20. júní nk. Af þeim sökum mun umsóknarfrestur vegna launagreiðslna í uppsagnarfresti í maí 2020 verða 10 dagar frá því tímamarki að auglýst verður að unnt sé að taka við umsóknum. Skatturinn hefur samkvæmt lögunum 30 daga til að afgreiða fullnægjandi umsókn talið frá því að hún barst. Þrátt fyrir tafir er stefnt að því að afgreiða umræddar umsóknir vegna maímánaðar 2020 í síðasta lagi 20. júlí sama ár, enda séu þær þannig úr garði gerðar að þær teljist fullnægjandi.

Settar verða inn fréttir af stöðu undirbúnings fyrir móttöku á umsóknum á vef Skattsins, www.skatturinn.is, eftir því sem tilefni verður til, þ.m.t. hvenær hægt verður að sækja um stuðning vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti í maímánuði.  


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum