Skilagjald

Skilagjald er tvennskonar og er lagt annars vegar á ökutæki og hinsvegar á drykkjarvörur í einnota umbúðum.

Skilagjald á ökutæki

Skilagjald á ökutæki er lagt á samhliða bifreiðagjöldum. Tvö gjaldtímabil eru á ári og er skilagjald að fjárhæð 900 kr. lagt á hvort tímabil.

Þau ökutæki sem eru gjaldskyld eru samkvæmt lögum um bifreiðagjald eru jafnframt skilagjaldsskyld. Skilagjald er einnig lagt á þær bifreiðar sem uppfylla skilyrði um gjaldskyldu en eru sérstaklega undanþegin greiðslu bifreiðagjalds. Þannig leggst skilagjald t.d. á ökutæki með skráningarnúmer í innlögn og á ökutæki í eigu bótaþega og björgunarsveita.

Niðurfelling gjaldskyldu

Gjaldskylda fellur niður frá og með upphafi fyrsta gjaldtímabils eftir að greitt hefur verið skilagjald af ökutækinu í full 15 ár og fyrir bifreiðir sem eru eldri en 25 ára í upphafi gjaldárs. Sé ökutæki afhent móttökustöð til endurnýtingar eða endanlegrar förgunar, skal greiða 30.000 kr. í skilagjald enda hafi ökutækið verið afskráð og úrvinnslugjald greitt a.m.k. einu sinni af viðkomandi ökutæki.

Ríkisskattstjóri annast álagningu skilagjalds á ökutæki.  

Skilagjald á umbúðir drykkjarvara

Skilagjald er lagt á drykkjarvörur í einnota umbúðum úr áli, stáli, gleri og plastefni. Gjaldið er bæði lagt á innfluttar drykkjarvörur við tollafgreiðslu og drykkjarvörur sem framleiddar eru eða átappaðar hér á landi. Gjaldið leggst ekki á drykkjarvörur í einnota umbúðum sem seldar eru úr landi. Umsýsluþóknun er lögð á til viðbótar skilagjaldi og virðisaukaskattur reiknast af skilagjaldi og umsýsluþóknun. Fjárhæð umsýsluþóknunar er misjöfn eftir tegundum umbúðum.

Gjaldskylda

Gjaldskylda skilagjalds nær til allra drykkjarvara í einnota umbúðum, sem fluttar eru til landsins eða framleiddar og átappaðar hérlendis og eru til sölu hér á landi og flokkast undir vöruliði 2009, 2201, 2202, 2203, 2204, 2205, 2206 og 2208 í tollskrá.

Álagning skilagjalds og gjaldskyldir aðilar

Þeim, sem flytja inn til landsins skilagjaldsskyldar vörur til eigin nota eða endursölu, ber skylda til að greiða skilagjald og umsýsluþóknun við tollafgreiðslu. Virðisaukaskattur er lagður á umrædda liði við innflutning en ekki önnur aðflutningsgjöld.

Framleiðendum og þeim sem tappa á skilagjaldsskyldar vörur innanlands ber að greiða skilagjald og umsýsluþóknun af framleiðslu sinni og standa skil á því í ríkissjóð. Gjöldin mynda ekki gjaldstofn við álagningu vörugjalds eða sambærilegra framleiðslugjalda, en mynda hins vegar stofn til virðisaukaskatts.

Uppgjörstímabil og gjalddagar

Uppgjörstímabil vegna skilagjaldsskyldrar innlendrar framleiðslu eða átöppunar eru tveir mánuðir: janúar og febrúar; mars og apríl; maí og júní; júlí og ágúst; september og október; nóvember og desember.

Gjalddagi skilagjalds og umsýsluþóknunar er 28. dagur annars mánaðar eftir lok uppgjörstímabils. Skilagjaldi og umsýsluþóknun af innlendri framleiðslu, ásamt skilagjaldsskýrslu, skal skila eigi síðar en á gjalddaga, framleiðendur geta sent inn skilagjaldsskýrslu beint af vef Skattsins. Afrit sendist þá bæði til Skattsins og Endurvinnslunnar hf. Beri gjalddaga upp á helgidag eða almennan frídag, færist gjalddagi á næsta virkan dag þar á eftir.

Skilagjaldsskýrslu skal senda til Skattsins á netfangið skilagjald@skatturinn.is og til Endurvinnslunnar á evhf@evhf.is.

Álag á vangreitt skilagjald

Sé skilagjald ekki greitt á tilskildum tíma skal aðili sæta álagi til viðbótar því skilagjaldi sem honum ber að standa skil á. Samkvæmt 7. gr. reglugerðar nr. 368/2000, um söfnun, endurvinnslu og skilagjald á einnota umbúðir fyrir drykkjarvörur, skal álag vera 1% af þeirri upphæð sem vangreidd er fyrir hvern byrjaðan dag eftir gjalddaga, þó ekki hærra en 10%.

Ítarefni

Hvar finn ég reglurnar?

Reglugerð um skilagjald - Reglugerð nr. 750/2017, um söfnun, endurvinnslu og skilagjald á einnota drykkjarvöruumbúðir

Eyðublöð

TS-101-6 Skilagjaldsskýrsla



Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum