Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 983/2001

9.10.2001

Virðisaukaskattsskylda - landskerfi fyrir bókasöfn - hlutafélag.

9. október 2001
G-Ákv. 01-983

Vísað er til bréfs yðar, dags. 27. september 2001, þar sem spurt er um virðisaukaskattsskyldu hlutafélags sem stofnað verður um rekstur landskerfis fyrir bókasöfn (A hf.). Í bréfi yðar segir m.a. að með hinu nýja kerfi sé stefnt að sameiningu á upplýsingaþjónustu fyrir öll bókasöfn hérlendis í eitt landskerfi. Einnig muni hið nýja kerfi veita aðgang að bókasöfnum, gagnagrunnum og öðrum upplýsingaveitum víða um heim og miðla efni á rafrænu formi s.s. tímaritum. Fram kemur að stofnendur félagsins verði ríkissjóður og sveitarfélög í landinu auk þess sem ekki sé útilokað að einkaaðilum verði boðin aðild að félaginu. Tilgangur félagsins verði rekstur landskerfisins, almenn starfsemi á sviði upplýsingatækni og bókasafna og skyldur rekstur. Þá segir að félagið muni ekki verða rekið í hagnaðarskyni. Að mati ríkisskattstjóra veitti fyrirspurnarbréf yðar ekki nægilegar upplýsingar um það hverjir yrðu viðskiptavinir félagsins og hvaða þjónustu það myndi veita. Var því af hálfu ríkisskattstjóra óskað eftir frekari upplýsingum. Þann 4. október 2001 bárust ríkisskattstjóra viðbótarupplýsingar í tölvupósti. Þar kemur fram að einungis bókasöfn muni kaupa þjónustu félagsins. Fram kemur að hlutafélagið muni innheimta þjónustugjöld af eigendum félagsins. Þá segir ennfremur að hlutafélagið muni geta selt þjónustu sína til bókasafna sem ekki eigi hlut í hlutafélaginu. Loks segir að til álita komi að félagið taki að sér rekstur á gagnagrunnum sem Landsbókasafn-Háskólabókasafn hefur keypt aðgang að fyrir alla landsmenn eða einstaka stofnanir. Ef til þess komi þá verði viðskiptavinirnir þeir sömu.

Til svars við erindi yðar skal eftirfarandi tekið fram:

Skattskyldusvið virðisaukaskatts er skilgreint mjög víðtækt í 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt (vsk-laga). Skattskyldusviðið tekur til allra vara og verðmæta, nýrra og notaðra og allrar vinnu og þjónustu hverju nafni sem nefnist, sem ekki er í lögunum sérstaklega lýst undanþegin. Í 3. mgr. 2. gr. vsk-laga er talin upp sú þjónusta sem er undanþegin virðisaukaskatti skv. lögunum. Samkvæmt 4. tölul. 3. mgr. 2. gr. vsk-laga er starfsemi bókasafna undanþegin virðisaukaskatti.  Í undanþágunni felst að bókasöfn skulu ekki innheimta virðisaukaskatt af greiðslum sem þau kunna að áskilja sér fyrir útlán bóka og aðra bókasafnsþjónustu. Hins vegar nær undanþágan ekki til kaupa á vörum og skattskyldri þjónustu fyrir söfnin, sbr. 4. mgr. 2. gr. sömu laga. Af lýsingu fyrirhugaðs reksturs landskerfis fyrir bókasöfn má ljóst vera að um er að ræða aðföng til bókasafna í skilningi 4. mgr. 2. gr., en ekki safnastarfsemi í skilningi 4. tölul. 3. mgr. sömu lagagreinar. Ríkisskattstjóri lýtur því svo á að starfsemin falli undir skattskyldusvið virðisaukaskatts.

Skylda til að innheimta skattinn og skila honum í ríkissjóð hvílir á hverjum þeim sem í atvinnuskyni eða með sjálfstæðri starfsemi sinni selja eða afhenda vörur eða verðmæti ellegar inna af hendi skattskylda vinnu eða þjónustu sbr. 1. tölul. 1. mgr. 3. gr. vsk-laga. Slík skylda hvílir á hlutafélögum óháð því hverjir eru hluthafar. Hver sá sem skattskyldur er skal ótilkvaddur tilkynna atvinnurekstur sinn til skráningar hjá skattstjóra þar sem hann er heimilisfastur, sbr. 5. gr. l. nr. 50/1988. Ákvörðunarvald varðandi skráningu er í höndum skattstjóra. Eigi skal skattstjóri skrá aðila ef samanlagðar tekjur hans af sölu skattskyldrar vöru og þjónustu eru að jafnaði lægri en kostnaður við aðföng sem keypt eru með virðisaukaskatti til starfseminnar.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum