Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 901/1999

15.1.1999

Virðisaukaskattur – úrskurðarvald skattstjóra í endurupptökumálum – framsal

15. janúar 1999
G-Ákv. 99-901

Með vísan til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 425/1998 telur ríkisskattstjóri rétt að framselja með formlegum hætti til skattstjóra úrskurðarvald í vissum endurupptökumálum vegna virðisaukaskatts.

Í umræddum úrskurði yfirskattanefndar var um að ræða afgreiðslu skattstjóra á viðbótar- eða leiðréttingarskýrslu fyrir tímabilið janúar-júní. Í úrskurði yfirskattanefndar segir þetta um afgreiðslu skattstjóra:

“Skattstjóri tók afstöðu til skýrslunnar á þeim grundvelli að um væri að ræða beiðni um endurákvörðun virðisaukaskatts kæranda (skatterindi), væntanlega á grundvelli þeirrar heimildar sem um ræðir í 2. mgr. 39. gr. laga nr. 50/1988. Samkvæmt því ákvæði getur ríkisskattstjóri, ef hann telur ástæðu til að breyta ályktun skattstjóra um virðisaukaskatt, gert skattaðila skatt að nýju. Samkvæmt þessu var afgreiðsla erindis kæranda á verksviði ríkisskattstjóra og bar því ekki undir skattstjóra. Gera verður þó ráð fyrir því að ríkisskattstjóri hafi játað skattstjórum úrskurðarvaldi um slíkar ákvarðanir sem hér um ræðir og verður að telja að það hafi verið heimilt þegar litið er til stöðu ríkisskattstjóra gagnvart skattstjórum sbr. 1. mgr. 101. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, starfshlutverks þessara embætta varðandi virðisaukaskatt og eðlis umræddra ákvarðana, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 101. gr. laga nr. 75/1981.”

Hingað til hefur ríkisskattstjóri með óformlegum hætti framselt til skattstjóra úrskurðarvald sitt í endurupptökumálum vegna virðisaukaskatts þess rekstrarárs sem ekki liggur fyrir álagning á tekjuskatti. Þar sem slík framkvæmd er til hagsbóta bæði fyrir gjaldanda og viðkomandi skattstjóra telur ríkisskattstjóri rétt að halda þeirri framkvæmd.

Með vísan til framanritaðs sbr. og 1. mgr. 101. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, er skattstjórum hverjum í sínu umdæmi falið að afgreiða beiðnir (leiðréttingarskýrslur) um þær endurupptökur sem hér um ræðir, sbr. 2. mgr. 39. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 3. mgr. 101. gr. laga nr. 75/1981. 

Tekið skal fram að skattstjóra ber hér eftir að framsenda til ríkisskattstjóra allar aðrar endurupptökubeiðnir vegna virðisaukaskatts en að framan greinir nema ríkisskattstjóri hafi falið skattstjóra sérstaklega að afgreiða viðkomandi beiðni, sbr. 2. mgr. 39. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 3. mgr. 101. gr. laga nr. 75/1981.

Að lokum skal áréttað að ákvörðun ríkisskattstjóra (eftir atvikum skattstjóra) um að synja beiðni um endurupptöku skattákvörðunar er ekki kæranleg til yfirskattanefndar.  

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum