Óbeinir skattar

Ákvarðandi bréf nr. 869/1998

31.7.1998

Virðisaukaskattur – Kvótaþing.

31. júlí 1998
G-Ákv. 98-869

Vísað er til bréfs yðar dags. 13. júlí 1998, þar sem óskað er eftir skriflegum upplýsingum f.h. stjórnar Kvótaþings um virðisaukaskattsskyldu stofnunarinnar.

Kvótaþing er stofnun sem starfar eftir lögum nr. 112/1998, um Kvótaþing. Sjávarútvegsráðherra skipar Kvótaþingi stjórn. Þóknun til þingsins vegna þeirrar þjónustu sem það veitir skal birt í gjaldskrá sem ráðherra staðfestir og skal við það miðuð að gjaldið standi undir kostnaði af starfsemi þingsins.

Samkvæmt 4. tl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, ber ríki, bæjar- og sveitarfélögum og stofnunum og fyrirtækjum þeirra, að því leyti sem þeir aðilar selja vörur eða skattskylda þjónustu í samkeppni við atvinnufyrirtæki, að innheimta virðisaukaskatt og standa skil á honum í ríkissjóð.

Í 6. gr. reglugerðar nr. 248/1990, um virðisaukaskatt af skattskyldri starfsemi opinberra aðila, með síðari breytingum, segir m.a.:

 “Starfsemi telst vera rekin í samkeppni við atvinnufyrirtæki skv. reglugerð þessari þegar viðkomandi vara eða þjónusta er almennt í boði hjá atvinnufyrirtækjum hér á landi, enda sé útskattur af hinni skattskyldu starfsemi að jafnaði hærri en frádráttarbær innskattur.

  Lögbundin starfsemi opinberra aðila telst m.a. ekki vera rekin í samkeppni við atvinnufyrirtæki í skilningi 1. mgr. í eftirfarandi tilfellum:

  1. Þegar öðrum aðilum er ekki heimilt að veita sambærilega þjónustu með sömu réttaráhrifum.

...”

Samkvæmt lögum er hlutverk Kvótaþings að annast tilboðsmarkað fyrir aflamark og er stofnuninni óheimilt að stunda óskylda starfsemi. Almennt er ekki heimilt að flytja aflamark milli skipa nema að undangengnum viðskiptum á Kvótaþingi. Öðrum aðilum er því almennt ekki heimilt að veita sömu þjónustu og stofnunin veitir. Þá er ekki gert ráð fyrir að starfsemin skili hagnaði. Starfsemi stofnunarinnar telst því ekki rekin í samkeppni við atvinnufyrirtæki og ber því ekki að innheimta virðisaukaskatt af þeirri þjónustu sem hún veitir.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum