Bindandi álit

Bindandi álit, frávísun nr. 1/07

20.3.2007

Verktaka sölumanna á fasteignasölu. Frávísun: Álitsbeiðni varðar ekki álitsbeiðanda sjálfan.

Reykjavík, 20. mars 2007 Báf 1/07

Ákvörðun varðandi beiðni um bindandi álit í skattamálum

Tilefni:

Í bréfi dagsettu 9. febrúar 2007 fer álitsbeiðandi fram á að ríkisskattstjóri láti, á grundvelli laga nr. 91/1988, um bindandi álit í skattamálum, uppi álit sitt um hvort verktaka sölumanna á fasteignasölu sé heimil í skattalegu tilliti.

Málavextir:

Atvikum máls er lýst með eftirfarandi hætti:

,,Það álitaefni sem óskað er umfjöllunar á er að fyrir nokkru kvað eftirlitsnefnd Félags fasteignasala sem hefur eftirlit með starfsemi fasteignasala upp eftirfarandi niðurstöðu sem opnar fyrir verktöku í fasteignasölu. Áður lá það á hinn bóginn fyrir frá eftirlitsnefnd Félags fasteignasala að slík verktaka væri bönnuð á grundvelli laga 99/2004 og að sérstaklega yrði haft eftirlit með því að verktaka væri ekki til staðar.

Mikil óvissa kom upp eftir þessa nýju niðurstöðu eftirlitsnefndar Félags fasteignasala hvort verktaka við slíkar aðstæður gæti staðist gagnvart skattalögum. Það er mér nauðsyn að vita hvort mögulegt sé við þær aðstæður sem eftirlitsnefnd Félags fasteignasala hefur gert kröfur um sbr. hér að neðan, hvort heimilt sé að taka upp verktöku sölumanna á fasteignasölu í stað launþegasambands þ.e. hvort slíkt rekstrarform sé í lagi skattalega séð. Eftirfarandi er niðurstaða eftirlitsnefndar Félags fasteignasala.

19.01.2007. Eftirlitsnefnd Félags fasteignasala komst að þeirri niðurstöðu að lög nr. 99/2004 leggi ekki bann við því að fasteignasali hafi í þjónustu sinni verktaka að því gefnu að fullnægt sé öllum skilyrðum laganna er mæla fyrir um réttindi og skyldur fasteignasala, svo sem:

  1. að fasteignasali hafi í gildi ábyrgðartryggingu vegna fjártjóns sem leiðir af gáleysi í störfum verktaka er starfar í þágu fasteignasala.
  2. að samningur verktaka og fasteignasala mæli fyrir um boðvald fasteignasala yfir verktaka líkt og um vinnusamning væri að ræða.
  3. að fyrir liggi yfirlýsing fasteignasala um að hann ábyrgist störf verktakans og beri bótaábyrgð á störfum hans, einnig umfram vátryggingarfjárhæð"

Til nánari skýringar á álitsbeiðni sinni nefndir álitsbeiðandi eftirfarandi atriði:

,,Rétt er að nefna að yfirskattanefnd komst að því með úrskurði sínum nr. 293/2004 að sölufulltrúi á fasteignasölu gæti starfað sem verktaki. Í þeim úrskurði var byggt á lögum um fasteignasala nr. 54/1997. Ný lög tóku gildi á árinu 2004 þ.e. lög nr. 99/2004, lög um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa sem áttu að banna verktöku. Víða í lögunum nr. 99/2004 er fjallað um að starfsmenn skuli vera ráðnir til starfa t.d. c lið 1. mgr. 2. gr. og 1. mgr. 5. gr. en þar segir að starfsmenn skuli ráðnir til starfa hjá fasteignasala.

Í úrskurði yfirskattanefndar sem byggðu eins og fyrr segir á eldri lögum um fasteignasala kom fram að sterk rök hnigu að því að þegar um lögbundna og leyfisskylda starfssemi væri að ræða þá myndi það almennt mæla gegn verktöku þeirra sem hefðu ekki tilskilin réttindi. Fram kemur þó að ýmis atriði bentu í gangstæða átt og eru þar nefnd þar sem yfirskattanefnd var að vega og meta hvorum megin hryggjar starf sölufulltrúans félli þ.e. verktaka eða launþegasamband.

Yfirskattanefnd nefndi sérstaklega nokkur atriði sem skiptu miklu við matið vegna rökstuðnings við verktöku sem nú hefur sérstaklega verið breytt með niðurstöðu eftirlitsnefndar sbr. hér að framan má þar nefnda t.d.:

Húsbóndavald - yfirskattanefnd komst að því að ekki væri um almennt húsbóndavald - nú er skýrt skv niðurstöðu eftirlitsnefndar að starfsmaður þarf að hlíta húsbóndavaldi fasteignasalans.

Að viðkomandi tryggði sjálfur starfssemi sína - sú krafa er nú að fasteignasalinn tekur tryggingar og ber ábyrgð á störfum starfsmannsins sbr. t.d. c lið 1. mgr. 2. gr. laga um fasteignasala og 1. mgr. 5. gr. sömu laga. Þá skal ábyrgðin ná einnig út fyrir lögboðnar tryggingarfjárhæðir þ.e. eins og hjá aðilum í almennu launþegasambandi sem lúta húsbóndavaldi."

Álitaefni:

Álitsbeiðandi fer fram á að ríkisskattstjóri staðfesti í bindandi áliti:

  1. ,,Hér með er óskað bindandi álits ríkisskattstjóra á því hvort um verktöku geti verið að ræða við þær aðstæður sem gerðar eru kröfur um hér að framan með þeim áhrifum er skattalög mæla fyrir um vegna starfssemi verktaka.
  2. Hvað afleiðingar það kunni að hafa sé talið að verktaka undir slíkum kringumstæðum sé óheimil.
  3. Hvort að verktakar geti út frá skattalögum verið í þjónustu fasteignasala þrátt fyrir að ofangreindra skilyrða sé ekki gætt sinni þeir almennum sölustörfum á starfsstöð að fullu á ábyrgð fasteignasalans."

Forsendur og niðurstöður:

Með lögum nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum var komið á kerfi þar sem einstakir gjaldendur geta fyrirfram óskað eftir áliti ríkisskattstjóra um skattalegar afleiðingar ráðstafana sem viðkomandi hefur í huga. Svar ríkisskattstjóra er bindandi ef gjaldandinn fer út í þá ráðstöfun sem lýst var í álitsbeiðninni. Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum, getur ríkisskattstjóri með rökstuddum hætti vísað beiðni um bindandi álit frá telji hann að beiðni sé vanreifuð eða óskýr eða aðrar ástæður mæli gegn því að látið sé uppi bindandi álit.

Forsenda þess að ríkisskattstjóri láti uppi bindandi álit er að það liggi ljóst fyrir hver aðilinn er sem álitsbeiðnin varðar og að ráðstöfunin varði skattalega hagsmuni þess aðila. Kemur þetta fram í greinargerð sem fylgdi lagafrumvarpi því er varð að lögum nr. 91/1998, en þar segir m.a. "Gert er ráð fyrir að allir skattaðilar geti óskað bindandi álits ríkisskattstjóra. Fyrirspurnin verður hins vegar að varða álitsbeiðanda sjálfan, þ.e. ekki er hægt að óska eftir afstöðu ríkisskattstjóra um ráðstafanir sem einhver annar hefur í hyggju að gera." Álit ríkisskattstjóra verður því að varða skattalega hagsmuni álitsbeiðanda sjálfs.

Í álitsbeiðninni er hvergi vikið að fyrirhuguðum ráðstöfunum álitsbeiðanda heldur er almennum orðum vikið að nauðsyn álitsbeiðanda að fá úr því skorið, í kjölfar úrskurðar eftirlitsnefndar Félags fasteignasala, hvort heimilt sé að taka upp verktöku sölumanna á fasteignasölu, þ.e. hvort að slíkt sé heimilt í skattalegu tilliti.

Með vísan til þess sem að framan er rakið telur ríkisskattstjóri ekki lagalegar forsendur fyrir því að gefa bindandi álit í máli þessu og er beiðni álitsbeiðanda því vísað frá, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum.

Frávísun þessi er ekki kæranleg, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum.

Álitsorð:

Beiðni A um bindandi álit á því hvort verktaka sölumanna á fasteignasölu sé heimil í skattalegu tilliti er vísað frá afgreiðslu bindandi álita í skattamálum.

Ríkisskattstjóri

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum