Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 17/2009

Höfnun umsóknar um endurgreiðslu virðisaukaskatts af gjöf

12.11.2009

Í dag var hjá embætti Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með bréfi, dags. 28. september 2009, hefur A, kært skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 ákvörðun embættis Tollstjóra um höfnun umsóknar um endurgreiðslu virðisaukaskatts af gjöf til B.

Kærandi krefst þess að virðisaukaskattur verði endurgreiddur í samræmi við umsókn.

II. Málsmeðferð

Í júlí 2009 færði kærandi B blindraletursprentara að gjöf. Prentarinn kostaði skv. reikningi 695.200,00 kr. Í reikningnum er innifalinn virðisaukaskattur að upphæð 136.806,00 kr. Í framhaldi af því sótti kærandi um endurgreiðslu virðisaukaskatts til embættis Tollstjóra. Umsókn um endurgreiðslu var hafnað með bréfi, dags. þann 8. september 2009. Höfnunin byggði á því að um gjöf fyrir skrifstofu væri að ræða.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi byggir kröfu sína á því að um gjöf til líknarstarfs sé að ræða. Í bréfi B til kæranda, dags. 18. september 2009, kemur fram að prentarinn sé notaður í þágu félagsmanna. Hluti af þjónustu félagsins sé prentun ýmissa bréfa og skjala á blindraletri, sem annars væru óaðgengileg félagsmönnum. Þetta eigi bæði við um bréf og tilkynningar frá félaginu sem og önnur skjöl sem félagsmenn biðji um útprentun á. Þá kemur fram að blindrafélagið taki ekki gjald af félagsmönnum fyrir þessa þjónustu, enda sé um aðgengismál að ræða.

IV. Niðurstöður

Samkvæmt heimild í 6. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988 skal endurgreiða virðisaukaskatt af tækjum og búnaði sem mannúðar- og líknarstofnanir fá að gjöf eða kaupa fyrir styrkfé, enda sé um að ræða vöru sem nýtt er beint til viðkomandi starfsemi. Endurgreiðsluheimild samkvæmt þessari málsgrein er bundin sömu skilyrðum og gilda um gjafir til mannúðar- og líknarstarfsemi og koma fram í b-lið 8. tölul. 1. mgr. 5. gr. tollalaga, nr. 55/1987, nú b-liður 8. tölul. 1. mgr. 6. gr. tollalaga nr. 88/2005.

Kveðið er á um nánari skilyrði endurgreiðslu í 33. gr. reglugerðar nr. 630/2008 um ýmis tollfríðindi. Þar segir að tæki, búnaður og aðrar fjárfestingarvörur sem gefnar eru til nota í starfssemi sjúkra-, umönnunar- og meðferðarstofnana, dvalar- og vistheimila og sambýla fyrir fatlaða, greiningarstöðva, öldrunarstofnana og stofnana í hliðstæðri starfsemi, slysavarnarfélaga, björgunarsveita, Rauða krossins og aðila sem hafa með höndum sambærilega starfsemi, eru undanþegnar aðflutningsgjöldum. Samkvæmt ofangreindu er ljóst að til þess að endurgreiða beri virðisaukaskatts kv. 6. mgr. 42. gr. virðisaukaskattslaga verður þiggjandi gjafarinnar að vera mannúðar- eða líknarstofnun í skilningi 33. gr. reglugerðar nr. 630/2008. B hefur samkvæmt upplýsingum á heimasíðu þess þann tilgang að vinna að hagsmunamálum blindra og sjónskertra, m.a. með því að stuðla að því að blint og sjónskert fólk hafi aðgang að upplýsingum á því formi sem hentar, sbr. 3. gr. laga B. Hins vegar er ekki um að ræða stofnun til meðferðar eða umönnunar, né heldur dvalar- og vistheimilis eða sambýlis fyrir fatlaða eða stofnun í hliðstæðri starfsemi. Þá fellur starfsemi félagsins heldur ekki undir aðra félagastarfsemi sem tilgreind er í 33. gr. reglugerðar nr. 630/2008. B telst því ekki vera mannúðar- eða líknarstofnun í skilningi ákvæðisins.

Skilyrði fyrir endurgreiðslu virðisaukaskatts samkvæmt 6. mgr. 42. gr. virðisaukaskattslaga, sbr. nú b- liður 8. tölul. 1. mgr. 6. gr. tollalaga nr. 88/2005og 33. gr. reglugerðar nr. 630/2008 eru ekki uppfyllt. Ákvörðun Tollstjóra um höfnun á endurgreiðslu virðisaukaskatts, dags. 8. september 2009, er staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Embætti Tollstjóra úrskurðar með vísan til þess sem rakið er hér að framan að ákvörðun um höfnun á endurgreiðslu virðisaukaskatts, dags. 8. september 2009, er staðfest.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til Ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, Reykjavík, innan 60 daga frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum