Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 2/2006

Tollverð bifreiðar af gerðinni Mercedes Benz, árgerð 2001

11.7.2006

I

Embætti tollstjórans í Reykjavík hefur móttekið bréf lögmanns K., dags.

13. mars 2006, f.h. hönd innflytjanda X, er varðar beiðni um úrskurð tollstjórans í Reykjavík vegna innflutnings á bifreið Z. Bifreiðin var flutt til landsins með sendingu S HVA 20 11 5 US ORF W004.

II

Málavextir eru þeir að þann 20. nóvember 2005 flutti innflytjandi til landsins ofangreinda bifreið frá Bandaríkjunum. Aðflutningsskýrsla ásamt fylgigögnum barst embættinu þann 29. nóvember 2005. Samkvæmt fylgigögnum er kaupverð bifreiðarinnar tilgreint að fjárhæð USD 11.076,37 og er tollverð hennar ISK 807.881,00.

Með bréfi embættisins, dags. 1. desember 2005, var óskað eftir frekari skýringum og gögnum af hálfu innflytjanda til rökstuðnings á kaupverði bifreiðarinnar. Með tölvuskeyti, dags. 7. desember 2005, bárust embættinu skýringar af hálfu innflytjanda. Í áðurnefndu tölvuskeyti rökstuddi innflytjandi hið lága kaupverð bifreiðarinnar með hliðsjón af því að dæld er á bílnum ásamt því að bifreiðin er ekin töluvert, eða um 72.000 mílur. Þá kom jafnframt fram að það vanti akstursbók og aukalykil að bifreiðinni.

Með hliðsjón af ofangreindum skýringum innflytjanda og meðfylgjandi gögnum voru aðflutningsgjöld vegna sendingar S HVA 20 11 5 US ORF W004 ákvörðuð með bréfi embættisins, dags. 14. desember 2005. Í ákvörðuninni kemur fram að embættinu ha fi ekki borist haldbærar skýringar sem rökstyðja hið lága kaupverð bifreiðarinnar. Þá kemur jafnframt fram að þær skýringar sem bárust, með bréfi innflytjanda, dags. 7. desember 2005, skýri ekki þann mikla mun sem er annars vegar á kaupverði bifreiðarinnar og hins vegar á viðmiðunarverði samkvæmt Red Book. Í ákvörðun embættisins er tollverð bifreiðarinnar ákvarðað ISK 1.443.356,00 með vísan til 21. gr. reglugerðar nr. 374/1995 um tollverð og tollverðsákvörðun, með síðari breytingum. Ofangreind ákvörðun tollstjórans í Reykjavík var kærð til úrskurðar tollstjórans með bréfi, dags. 13. mars 2006.

III

Þann 1. janúar 2006 tóku í gildi ný tollalög nr. 88/2005 sem leystu af hólmi tollalög nr. 55/1987. Í 1. mgr. 196. gr. laganna kemur fram að lögin öðlist gildi 1. janúar 2006 og taki til allra vara sem eru ótollafgreiddar við gildistöku þeirra. Af þessu leiðir að ákvæði tollalaga nr. 88/2005 gilda við úrlausn máls þessa.

Í 1. mgr. 14. gr. tollalaga nr. 88/2005 er að finna meginreglu þess efnis að tollverð innfluttrar vöru sé viðskiptaverð hennar þ.e. það verð, sem raunverulega er greitt eða greiða ber fyrir vöruna við sölu hennar til útflutnings til landsins með þeim leiðréttingum sem leiða má af ákvæðum 15. gr. tollalaga. Í 1. mgr. 14. gr. tollalaga er jafnframt kveðið á um skilyrði fyrir því að viðskiptaverð vöru sé lagt til grundvallar.

Í reglugerð nr. 374/1995 um tollverð og tollverðsákvörðun, með síðari breytingum, er nánar fjallað um tollverð vöru. Reglugerðin er sett með stoð í 2. mgr. 10. gr. tollalaga nr. 55/1987, sbr. 4. gr. laga nr. 87/1995. Ofangreind reglugerð gildir að svo miklu leyti sem hún brýtur ekki í bága við ákvæði tollalaga nr. 88/2005, sbr. 2. mgr. 196. gr. laganna.

Í 2. gr. reglugerðarinnar er ofangreind meginregla 1. mgr. 14. gr. tollalaga nánar útfærð þ.e.a.s. að tollverð vöru sé viðskiptaverð hennar. Í a-e lið 2. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar er að finna skilyrði sem sett eru fyrir því að viðskiptaverð vöru sé lagt til grundvallar. Í e- lið 2. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar kemur fram að viðskiptaverð verði lagt til grundvallar dragi tollstjóri ekki í efa sannleiksgildi upplýsinga um viðskiptaverð í aðflutningsskýrslu eða fylgiskjölum.

Hafi tollstjóri réttmæta ástæðu til þess að draga í efa sannleiksgildi upplýsinga er fram koma í aðflutningsskýrslu eða fylgiskjölum um viðskiptaverð vöru, skal hann krefja innflytjanda um nánari skýringar eða gögn til sönnunar því, að viðskiptaverðið sé réttilega tilgreint í gögnum þessum, sbr. 7. gr. reglugerðar nr. 374/1995.

Dragi tollstjóri sannleiksgildi upplýsinga um viðskiptaverð vöru í efa þrátt fyrir að hafa fengið í hendur þau gögn og skýringar er fram koma í 7. gr. eða hafi þau ekki borist, verður viðskiptaverð vöru ekki lagt til grundvallar við ákvörðun tollverðs, sbr. 8. gr. reglugerðar nr. 374/1995.

Líkt og fram kemur í hinni kærðu ákvörðun þá bárust embættinu skýringar af hálfu innflytjanda, dags. 7. desember 2005. Í ákvörðun embættisins, dags. 14. desember 2005, kemur fram að umræddar skýringar nægja ekki til þess að rökstyðja kaupverð bifreiðarinnar. Með hliðsjón af 8. gr. reglugerðar nr. 374/1995 og skýringum innflytjanda er það mat embættisins að ekki beri að leggja framlagðan reikning til grundvallar við ákvörðun tollverðs.

IV

Í IV. kafla reglugerðar nr. 374/1995 er mælt fyrir um hvernig tollverð vöru skuli ákveðið þegar viðskiptaverð vöru verður af einhverjum ástæðum ekki lagt til grundvallar. Meginreglan við þær aðstæður er sú að leggja skuli til grundvallar viðskiptaverð sams konar vöru á sams konar viðskiptastigi, sem seld er eða flutt inn á sama eða svipuðum tíma og varan, sem verið er að virða, sbr. nánar 10. - 14. gr. reglugerðarinnar.

Í samræmi við 10. gr. reglugerðarinnar hefur embættið, við innflutning notaðra bifreiða, gert könnun á því hvort sambærilegar bifreiðar (bifreiðar sömu tegundar, undirtegundar og árgerðar) hafi verið fluttar inn á sama eða svipuðum tíma þ.e.a.s. í þeim tilvikum þegar embættið telur að ekki sé unnt að styðjast við framkomna reikninga. Innflutningur bifreiða af sömu tegund, undirtegund og árgerð var kannaður á tímabilinu 1. júlí 2005 – 14. desember 2005. Skoðun leiddi hins vegar í ljós að ekki reyndist unnt að nota umræddar bifreiðar til samanburðar við þá bifreið sem mál þetta varðar. Af þessu leiðir að embætti tollstjórans í Reykjavík telur, í þessu tilviki, ekki unnt að beita ákvæðum 10. – 14. gr. reglugerðarinnar.

V

Í V. kafla reglugerðar nr. 374/1995 um tollverð og tollverðsákvörðun er að finna sérákvæði vegna innflutnings ökutækja. Í 17. gr. reglugerðarinnar kemur fram að við tollafgreiðslu ökutækis skuli tollstjóri bera viðskiptaverð þess, eins og það kemur fram í aðflutningsskýrslu eða fylgiskjölum, saman við viðmiðunarverð ökutækja af sömu tegund, undirtegund og árgerð í því landi sem ökutækið var keypt. Tollstjóra ber að athuga hvort viðskiptaverð ökutækis sem um ræðir sé óeðlilega lágt miðað við ástand þess, innflutningsverð sams konar ökutækis sem flutt er eða hefur verið flutt til landsins á sama tíma eða markaðsverð sambærilegra ökutækja erlendis.

Í 18. gr. sömu reglugerðar kemur fram að gefi eftirlit tollstjóra skv. 17. gr. réttmæta ástæðu til að draga í efa sannleiksgildi aðflutningsskýrslu eða fylgiskjala skuli tollstjóri krefja innflytjanda um nánari skýringar eða gögn til sönnunar því að viðskiptaverðið sé réttilega tilgreint í gögnum þessum, sbr. 7. gr. reglugerðarinnar.

Í 19. gr. reglugerðarinnar kemur fram að ríkistollstjóri skuli safna saman upplýsingum frá hlutlausum aðilum erlendis frá um viðmiðunarverð ökutækja í þeim löndum sem helst má vænta innflutnings frá og sjá til þess að tollstjórar eigi greiðan aðgang að upplýsingum þessum. Embætti ríkistollstjóra var lagt niður með lögum nr. 155/2000, um breytingu á tollalögum nr. 55/1987, og tók tollstjórinn í Reykjavík við hlutverki því sem 19. gr. reglugerðarinnar fjallar um.

Við verðmætamat bifreiðarinnar, sem kveðið er á um í 17. gr. reglugerðar nr. 374/1995, hefur tollstjórinn í Reykjavík stuðst við upplýsingar sem fram koma í The Automobile Red Book til viðmiðunar, sbr. 19. gr. reglugerðarinnar, en rit þetta er gefið út af eftirlitsaðilum bifreiðaiðnaðarins í Bandaríkjunum. Innflutta bifreiðin sem um ræðir er af gerðinni Mercedes Benz C320, árg. 2001. Samkvæmt framlögðum reikning er kaupverð bifreiðarinnar USD 11.076,37. Viðmiðunarverð á Mercedes Benz C320, árg. 2001 samkvæmt The Automobile Red Book 15. maí 2005 – 30. júní 2005, er USD 22.050,00. Samkvæmt framansögðu er viðmiðunarverð í The Automobile Red Book verulega hærra en það kaupverð sem tilgreint er í framlögðum gögnum. Kaupverð bifreiðarinnar víkur 50% frá því viðmiðunarverði sem fram kemur í The Automobile Red book sem embættið styðst við. Þar sem frávik eru umtalsverð miðað við meðalverð í The Automobile Red Book þá verða skýringar að vera traustar og haldgóðar ef leggja á þær til grundvallar, sbr. úrskurður Ríkistollanefndar nr. 9/2005. Úrskurðir Ríkistollanefndar eru aðgengilegir hjá nefndinni sjálfri, en hún er til húsa að Skúlagötu 57, 150 Reykjavík. Í þessu sambandi má geta þess heimasíðurnar http://www.ebay.com og http://www.kbb.com (Kelley Blue Book) voru skoðaðar til frekari samanburðar, en engar samanburðarhæfar bifreiðar fundust í líkingu við þá bifreið sem hér um ræðir. 

VI

Í kærubréfi, dags. 13. mars 2006, bendir lögmaður innflytjanda á það að í ákvörðun tollstjórans í Reykjavík, dags. 14. desember 2005, komi ekki fram hvaða forsendur liggja að baki viðmiðunarverði The Automobile Red Book. Í þessu sambandi skal tekið fram að embættið hafði The Automobile Red Book 15. maí 2005 – 30. júní 2005, bls. 52, til hliðsjónar við verðmætamat bifreiðarinnar, sbr. meðfylgjandi gögn.

Í kærubréfi bendir lögmaður einnig á að viðmiðunarverð nýs ökutækis af sömu tegund og undirtegund, eins og það er tilgreint í bifreiðaskrá ríkisskattstjóra, virðist of hátt og að engin sérstök skýring sé gefin á því. Við ákvörðun tollverðs vegna bifreiðar af gerðinni Mercedes Benz C320, árg. 2001, var stuðst við bifreiðaskrá 2005, bls. 16, útgefna af ríkisskattstjóra. Bifreiðaskrár síðustu ára eru aðgengilegar á heimasíðu ríkisskattstjóra eða rsk.is. Í máli þessu var tekið mið af bifreið í svokallaðri C- línu, þ.e. C320, 4matic, m/sjálfsk., 3199 cc, 218 hö, sbr. meðfylgjandi gögn.

Embætti tollstjórans í Reykjavík telur að ekki beri að leggja framlagðan reikning til grundvallar með hliðsjón af því að framkomnar skýringar innflytjanda nægja ekki til þess að skýra hið lága kaupverð bifreiðarinnar. Við útreikning tollverðs bifreiðarinnar reyndist ekki unnt að beita ákvæðum 10. - 14. gr. reglugerðar nr. 374/1995. Af fyrirliggjandi gögnum er ljóst að viðskiptaverð bifreiðarinnar er verulega lægra en markaðsverð sambærilegra bifreiða. Með hliðsjón af framansögðu er það mat embættisins að tollverð bifreiðar Z fari eftir ákvæðum 20. og 21. gr. reglugerðarinnar og reiknast tollverð hennar ISK 1.443.356,00.

Úrskurðarorð:

Embætti tollstjórans í Reykjavík úrskurðar með vísan til þess sem rakið er hér að framan að ákvörðun tollstjórans í Reykjavík, dags. 14. desember 2005, um tollverð bifreiðar með fastanúmer Z, er staðfest.

Úrskurður þessi er kæranlegur til Ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, 101 Reykjavík og er kærufrestur 60 dagar frá póstlagningu úrskurðar, sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga nr. 88/2005.

Reykjavík 11. júlí 2006.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum